Búið að vera frábært og misjafnt og slæmt

Pétur Pétursson á hliðarlínunni á Akureyri í kvöld.
Pétur Pétursson á hliðarlínunni á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Pétur Pétursson verður áfram þjálfari kvennaliðs Vals í Pepsi-deildinni í knattspyrnu. Sumarið fór sjálfsagt ekki eins og lagt var upp með hjá Val og í kvöld tapaði liðið 4:1 gegn Þór/KA á Akureyri.

Þór/KA átti stærstan hluta fyrri hálfleiks en Valskonur voru mun öflugri í seinni hálfleik. Þetta stóra tap var því ákveðinn skellur. Hvað fannst Pétri?

„Mér fannst við ekki nógu öflugar fyrr en í seinni hálfleik og í stöðunni 2:1 þá fannst mér við bara vera á leiðinni að jafna leikinn. Svo koma bara tvö mörk frá þeim og þannig endaði sú saga. Svona fer þetta stundum í boltanum. Við breyttum aðeins í hálfleik og pressuðum þær í seinni hálfleik og það gekk miklu betur. Eins og ég segi þá fannst mér við vera á leiðinni að fara að jafna en svona er þetta og Þór/KA kláraði þetta vel.“

Nú er einn leikur eftir af tímabilinu. Hvernig er þetta búið að vera að þínu mati?

„Það er bæði búið að vera frábært og misjafnt og slæmt. Við getum sagt að ég viti meira núna en ég vissi í fyrra þegar ég tók við. Ég held svo áfram með liðið,“ sagði Pétur gallvaskur eftir leik.

Sjá: Sigur og silfur hjá Þór/KA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert