3. sæti: Búið að bólusetja gamlingjana

Atli Sigurjónsson var besti leikmaður KR á síðustu leiktíð og …
Atli Sigurjónsson var besti leikmaður KR á síðustu leiktíð og hafnaði í efsta sæti einkunnargjafar Morgunblaðsins. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sam­kvæmt spá Morg­un­blaðsins og mbl.is mun KR enda í þriðja sæti úr­vals­deild­ar karla í knatt­spyrnu, Pepsi Max-deild­ar­inn­ar, á kom­andi keppn­is­tíma­bili.

Fimmtán íþróttaf­rétta­menn og leik­lý­send­ur spáðu um lokaröð liðanna og flestir búast við KR-ingum í toppbaráttu þótt spádómar þeim til handa hafi rokkað frá Íslandsmeistaratitli til fimmta sætis. KR hafnaði einmitt í fimmta sætinu í fyrra en neðar hafa Vesturbæingar ekki endað frá árinu 2007.

„Ég hef nú lítið verið að kippa mér upp við þessar spár í gegnum tíðina og það að okkur sé spáð þriðja sætinu kemur mér ekkert sérstaklega á óvart,“ sagði Atli Sigurjónsson í samtali við mbl.is.

„Staðan á leikmannahópnum er góð og þeir leikmenn sem voru aðeins tæpir vegna meiðsla á undirbúningstímabilinu eru á góðum stað í dag. Það kom smá bakslag hjá Emil [Ásmundssyni] en að honum undanskildum eru allir að verða klárir og heilir heilsu.

Undirbúningstímabilið var fínt heilt yfir. Spilamennskan var ekkert sú besta í upphafi vetrar enda margir leikmenn fjarverandi á þeim tímapunkti en við komum vel undan síðustu æfingapásu ef svo má segja og þetta lítur bara vel út hjá okkur.“

Æfinga- og keppnisbannið sem sett var á hér á landi í mars hafði lítil áhrif á KR-inga.

„Þetta gekk vel í síðustu pásu en fyrsta æfingin eftir æfingabannið var frekar þung enda snjókoma og haglél sem var ekki að gera neinum gott.

Maður spurði sjálfan sig alveg að því hvort þetta væri að fara að vera svona næstu sex vikurnar en svo rættist sem betur fer úr þessu og æfingarnar eftir hlé voru bara mjög góðar.“

Pálmi Rafn Pálmason og Óskar Örn Hauksson eru báðir komnir …
Pálmi Rafn Pálmason og Óskar Örn Hauksson eru báðir komnir á seinni hluta ferilsins. mbl.is//Hari

Nokkrar rangar beygjur

Atli lék mjög vel fyrir KR síðasta sumar og hafnaði í efsta sæti einkunnagjafar Morgunblaðsins en á sama tíma enduðu KR-ingar, sem voru ríkjandi Íslandsmeistarar, í fimmta sæti deildarinnar.

„Mér gekk vel á síðustu leiktíð og vonandi get ég byggt ofan á það í sumar. Mig langar til þess að gera ennþá betur og hjálpa liðinu mínu að enda ofar en í fyrra.

Síðasta tímabil var mjög svekkjandi í alla staði, bæði hvar við endum og hvernig þetta endar. Við áttum að vera ofar þegar mótið var blásið af og við getum bara sjálfum okkur um kennt um það.

Á sama tíma fengum við aldrei tækifæri til þess að keyra okkur almennilega í gang en núna tekur bara við nýtt og spennandi tímabil.“

Þrátt fyrir að nokkrir af lykilmönnum Vesturbæinga séu komnir á seinni hluta ferilsins hefur Atli litlar sem engar áhyggjur.

„Það var þægilegt að vera ríkjandi Íslandsmeistarar síðasta sumar og það voru í raun bara nokkrar rangar beygjur sem við tókum um mitt sumarið sem urðu þess valdandi að þetta fór ekki alveg í rétt átt.

Gömlu kallarnir eru allir búnir í bólusetningu þannig að þeir eru ennþá betri núna en sumarið 2019 og við mætum allir vel ferskir inn í mótið,“ bætti Atli við.

KR
Þjálfari: Rúnar Kristinsson.
Árangur 2020: 5. sæti.

Komnir:
Grímur Ingi Jakobsson frá Gróttu (lánaður í KV)
Grétar Snær Gunnarsson frá Fjölni
Guðjón Baldvinsson frá Stjörnunni
Oddur Ingi Bjarnason frá Grindavík (úr láni)

Farnir:
Jóhannes Kristinn Bjarnason í Norrköping (Svíþjóð)
Finnur Orri Margeirsson í Breiðablik
Pablo Punyed í Víking R.
Finnur Tómas Pálmason í Norrköping (Svíþjóð)
Gunnar Þór Gunnarsson, hættur

Fimm fyrstu leikir KR:
2.5. Breiðablik – KR
7.5. KR  KA
12.5. Fylkir  KR
17.5. KR  Valur
21.5. FH  KR

Leikir KR í Lengjubikarnum í vetur:
KR  Víkingur R. 1:1
KR  Fram 8:2
KR  Þór 4:0
KR  Kórdrengir 3:1
KR  FH 1:1
KR  Valur 3:3
Flest mörk: Guðjón Baldvinsson 6, Óskar Örn Hauksson 4.

Nánar verður fjallað um lið KR í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert