„Þetta er einhvers staðar á milli 60 og 70 milljónir“

Leikmenn Breiðabliks fagna sætinu í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í gær.
Leikmenn Breiðabliks fagna sætinu í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, segir að þær fjárhæðir sem meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu er búinn að vinna sér inn með því að tryggja sér þátttöku riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu muni meðal annars fara í að styrkja starfið sem hefur verið unnið í kvennaboltanum hjá félaginu og að greiða kostnað sem mun fylgja ferðalögum og öðru í tengslum við keppnina.

Breiðablik er sagt hafa unnið sér inn tæplega 76 milljónir íslenskra króna frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, með því að tryggja sætið í riðlakeppninni.

„Þetta er einhvers staðar á milli 60 og 70 milljónir. Við vorum náttúrlega búin að vinna okkur inn ákveðinn pening áður líka þannig að þessi upphæð er líklega nærri lagi þegar við teljum allt til alls,“ sagði Eysteinn Pétur í samtali við mbl.is þegar hann var spurður hvort áðurnefnd upphæð væri rétt.

„En auðvitað er töluverður kostnaður á móti. Fólk verður að átta sig á því að þetta er ekki hreinn hagnaður. Við erum að fara í þessa leiki í riðlakeppninni og það eru ákveðnar kvaðir og kostnaður sem koma á móti þar. Flug, þar á meðal leiguflug, og fleira. Það verður hellings kostnaður líka,“ bætti hann við.

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks.
Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks. Ljósmynd/Breiðablik

Spurður hvað ráðgert sé að afgangurinn af fjármununum verði nýttur í sagði Eysteinn Pétur:

„Við ætlum að reyna að styrkja umgjörðina í kringum þessa leiki í riðlakeppninni og gera þetta allt saman sem allra best. Þetta er auðvitað frábært fyrir stelpurnar og að sjálfsögðu verða þessir fjármunir látnir renna aftur í félagið. Þeir verða nýttir til þess að styrkja betur innviðina í félaginu og styrkja það frábæra starf sem hefur verið unnið í kvennaboltanum, það gefur auga leið.

Félagaskiptaglugginn lokaður

Blikar sjá ekki fram á að styrkja leikmannahópinn með nýjum leikmönnum fyrir átökin í riðlakeppninni í vetur, einfaldlega vegna þess að félagaskiptaglugginn hér á landi er lokaður. Auk þess mun sá fjöldi leikmanna Breiðabliks sem eru á láni hjá öðrum liðum ekki vera gjaldgengir, að minnsta kosti ekki til að byrja með.

„Það er nú þannig að við erum að skoða þessi mál. Félagaskiptaglugginn hérna heima er lokaður og það er ekki nægilega gott. Við þurfum aðeins að skoða það. Við erum með leikmenn sem við eigum í öðrum liðum, sem eru á láni, en miðað við íslensku félagaskiptareglurnar erum við ekki að ná að fá þá til baka í okkar lið strax,“ sagði hann.

„Ég held að enginn hafi gert ráð fyrir því að lið næðu svona langt, hvorki karla- né kvennamegin. Það þarf alla vega að skoða það hvort að hægt sé að fá undanþágu á því svo við getum kallað þá leikmenn heim, sem hefur engin áhrif á íslensku deildirnar.

Að hafa að minnsta kosti þær stelpur sem við eigum í öðrum liðum, hafa þær til taks með okkur. Svo ef það opnast eitthvað annað munum við náttúrlega skoða það. Það er alveg ljóst að við erum að fara í mjög erfitt verkefni,“ sagði Eysteinn Pétur að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert