Mér fannst þetta enginn hryllingur

Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga.
Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst þetta ekki slakur leikur af okkar hálfu, okkar leikreyndustu menn gerðu bara mistök á erfiðum tíma og HK var með gott plan en þetta var enginn hryllingur,“ sagði Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga eftir 3:1 tap fyrir HK í Kórnum í kvöld þegar leikið var í efstu deild karla í fótbolta.   

Þrátt fyrir tapið hefur Víkingur efsta sæti deildarinnar en þjálfarinn verður líklega fjarri góðu gamni í næsta leik því hann fékk rautt spjald undir lok leiksins.

„Ég veit ekki hvað við fengum margar hornspyrnur, fyrirgjafir og alls konar en HK-menn voru bara sterkir fyrir og lögðu líf og sál í verkefnið  enda lágu þeir með krampa út um allan völl og stundum verður maður bara að hrósa andstæðingunum fyrir sitt.“

Víkingar, ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar, höfðu unnið alla fjóra leiki sína í mótinu en þjálfarinn var mjög jarðbundinn. 

„Ég segi að það sé ekki hægt að fara ósigraður í gegnum fótboltamót. Ég sagði við strákana eftir leikinn að þó menn væru alltaf ósáttir við að tapa þá þarf oft svona augnablik, ekki bara til að halda áfram og endurstilla sig, heldur líka meta það sem menn hafa gert áður því það er fordæmalaust hvað við höfum gert. 

Svo allt í lagi, við töpuðum þessum leik og ég man árið 2021 held ég að við höfum tapað fyrir Leikni en síðan farið á skrið.  Það er því allt mögulegt.  Íþróttin okkar er bara svo skemmtileg að stundum tapar maður þegar maður á síst von á því,“ bætti Arnar þjálfari við.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert