Sýnir hvað litla Ísland getur afrekað

Valsliðið er komið í úrslit Evrópubikarsins.
Valsliðið er komið í úrslit Evrópubikarsins. mbl.is/Óttar

Karlalið Vals í handbolta er komið alla leið í úrslit í Evrópubikarnum þar sem liðið mætir Olympiacos frá Grikklandi. Er fyrri leikurinn klukkan 17 í dag á Hlíðarenda og seinni leikurinn í Grikklandi eftir viku.

Er aðeins í annað skipti sem íslenskt félagslið kemst í úrslit í Evrópukeppni og í fyrsta skipti í 44 ár. Valsliðið gerði góða hluti í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð og hefur gert sig vel gildandi í Evrópuboltanum undanfarin ár.

„Fyrir íslenskt íþróttalíf þá finnst mér svona árangur ýta undir hjá öllum. Síðast vorum við í Evrópudeildinni í fyrsta skipti í langan tíma og svo núna í úrslitum. Þetta sýnir hvað litla Ísland getur afrekað. Þetta er sögulegt og vonandi fáum við frábæra frammistöðu í úrslitum,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals við mbl.is.

Valur komst í úrslit í Evrópukeppni meistaraliða árið 1980. Þá var Þorbjörn Jensson í stóru hlutverki hjá liðinu, en hann sat blaðamannafund Vals í vikunni líkt og Óskar.

„Þorbjörn Jensson situr 44 árum seinna hérna á Hlíðarenda. Maður ólst upp við að sjá hann og mulningsvélina leika til úrslita. Ég vona að þetta gefi yngri flokkum bæði í Val og annars staðar aukna trú. Við erum færir til að vinna og komast langt í öllum íþróttum,“ sagði Óskar.

Fleiri greinar úr viðtalinu við Óskar birtast á mbl.is næstu tímana til að hita upp fyrir fyrri leikinn í úrslitaeinvíginu í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert