Komu með allt starfsfólkið og eiginkonurnar

Þorbjörn á blaðamannafundi Vals fyrir heimaleikinn gegn Olympiacos.
Þorbjörn á blaðamannafundi Vals fyrir heimaleikinn gegn Olympiacos. mbl.is/Jóhann Ingi

Þorbjörn Jensson, fyrrverandi landsliðsþjálfari karla og leikmaður Vals í handbolta, er hæstánægður með að Valsliðið sé komið í úrslit Evrópubikarsins, þar sem liðið mætir Olympiacos frá Grikklandi.

„Það er frábært að sjá þetta lið komast í úrslit. Þeir eiga þetta virkilega skilið. Þetta er búið að taka tvö ár. Það var undirbúningur í fyrra og í ár eru þeir komnir þetta langt,“ sagði Þorbjörn við mbl.is.

Fyrri leikurinn er á Hlíðarenda í dag og seinni leikurinn í Grikklandi næstkomandi laugardag. Aðeins einu sinni áður hefur íslenskt félagslið komist í úrslit og þá var Þorbjörn í stóru hlutverki hjá Val er liðið lék til úrslita í Evrópukeppni meistaraliða árið 1980.

„Það sem maður sér mest eftir er að það var ekki spilað heima og að heiman. Ég er mjög ánægður með að það er gert núna. Reynslan sem maður fékk úr þessum úrslitaleik fylgdi manni í mörg ár á eftir. Þá gerði maður sér grein fyrir því hvað liðið gat gert. Þetta var einn af hátindum ferilsins,“ sagði hann.

Valur lék við Grosswallstadt frá Þýskalandi í úrslitum en fékk skell, 21:12, í úrslitaleiknum. „Það eru 44 ár síðan ég var í þessum sporum og ég skil spenninginn í kringum þetta. Það mun enginn kvarta yfir meiðslum núna, heldur verða allir með.“

Valur sló Atlético Madrid úr leik í undanúrslitum. Spænska liðið vann 24:21 á heimavelli en Valur svaraði með 18:15 sigri í Laugardalshöll og fór áfram með fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

„Þeir komu með allt starfsfólkið og eiginkonurnar til Íslands og ætluðu að halda upp á sigur og sæti í úrslitum. Við eyðilögðum partíið þeirra,“ sagði Þorbjörn glaðbeittur.

Hann hefur lítið þjálfað síðan hann hætti með landsliðið árið 2001, en er Val til halds og traust þegar félagið óskar eftir kröftum hans.

„Ég fylgist mjög mikið með og svo hjálpa ég til í kringum Evrópukeppnina. Ég sé um dómara og eftirlitsdómara. Ég tek á móti þeim, fer með á hótelið þeirra og síðan í leikinn. Það er mjög gaman að því. Þeim finnst skrítið að ég sé í því, þar sem ég hef verið að þjálfa landsliðið og svona. Ég er að borga félaginu til baka,“ sagði Þorbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert