Þessar stelpur eru svo sterkar

Blikarnir fagna sigurmarkinu í kvöld.
Blikarnir fagna sigurmarkinu í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér fannst þetta kúl,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir að liðið vann 1:0-útisigur á Íslandsmeisturum Vals og tryggði sér annað sæti Bestu deildarinnar og sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

„Ef við horfum á frammistöðuna í leiknum þá var það mikil vinnusemi sem skilaði þessu. Stelpurnar eiga hrós skilið. Þær hafa verið frábærar síðan við tókum við og Ólafur, Kjartan og allt hitt starfsfólkið sömuleiðis,“ sagði Gunnleifur.

Hann tók við Breiðabliki í lok ágúst ásamt Kjartani Stefánssyni og Ólafi Péturssyni. Liðið var þá í miklu basli og búið að tapa þremur leikjum af síðustu fjórum og aðeins fengið stig gegn ÍBV sem síðan féll. Undir stjórn þeirra vann Breiðablik síðan þrjá síðustu leikina og tryggði sér annað sæti.

Gunnleifur Gunnleifsson
Gunnleifur Gunnleifsson Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Þetta var brotið en þessar stelpur eru svo sterkar. Ég er ógeðslega stoltur af þeim og það er frábært að vinna Íslandsmeistarana, langbesta liðið, í síðasta leik. Stelpurnar þurftu að grafa djúpt. Auðvitað var glatað að tapa öllum þessum fótboltaleikjum, algjörlega ömurlegt, en þær eiga ekkert eðlilega mikið hrós skilið fyrir sitt framlag,“ sagði þjálfarinn stoltur.

Hann samþykkti að taka við meistaraflokki kvenna út tímabilið og er framtíðin óljós. Gunnleifur hefur nóg að gera í öðrum verkefnum hjá Blikunum.

„Ég ætla að vakna klukkan 8:30 á morgun og þjálfa áttunda flokkinn í Smáranum. Þar er framtíðin. Svo kemur þetta allt í ljós. Ég er alltaf í Smára og það þarf ekki einu sinni að hringja í mig.

Þessu verkefni er lokið og nú skemmtum við okkur og ég held áfram með annan, sjötta og áttunda flokkinn og svo sjáum við til. Þetta hefur verið ógeðslega gaman. Ég er svo stoltur að hafa fengið þetta verkefni. Ég mun muna eftir þessu alla ævi. Þetta hefur verið frábær mánuður með frábærum stelpum. Þetta hefur verið mikil og skemmtileg reynsla,“ sagði Gunnleifur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert