Andlegri heilsu barna hrakað gífurlega

Kristján Jesús segir mikilvægt að þróa starf félagsmiðstöðva.
Kristján Jesús segir mikilvægt að þróa starf félagsmiðstöðva. mbl.is/Unnur Karen

„Við vitum að andlegri heilsu barna hefur hrakað gífurlega síðustu mánuði. Það var okkar verkefni að sjá til þess að draga sem mest úr þeirri þróun hjá nemendum í okkar umsjá.“

Þetta segir Kristján Jesús Potenciano, starfsmaður félagsmiðstöðvanna í Kringlumýri.

Miðstöðvarnar hófu að halda mánaðarlegar LAN-samkomur áður en heimsfaraldurinn reið yfir.

Þar kynntu starfsmenn krökkunum ýmsa rafíþróttaleiki á borð við Fortnite, League of Legends, Super Smash Bros, Hearthstone og Monster Hunter World.

Vildu ná til sem flestra

Heimsfaraldurinn sem reið yfir ógnaði starfi félagsmiðstöðva og þurftu þær að finna annars konar úrræði fyrir krakkana. Félagsmiðstöðvar í Kringlumýri tóku upp á „rafrænum félagsmiðstöðvum“ þegar fyrstu skólarnir voru að lokast á seinasta ári.

Þeirra fyrsta verk var að ná til nemenda, því bæði vissu starfsmenn ekki hvernig staðan yrði á samfélaginu í ljósi þessa heimsfaraldurs og vildu líka ná til sem flestra nemenda í félagsstarf.

Var það gert í gegnum samfélagsmiðla og nemendum þar boðið upp á að spila leiki eða horfa á myndir saman, eða bara spjalla.

Nemendur og starfsfólk spiluðu saman

Hver starfsmaður fékk sitt hlutverk og fékk Kristján Jesús m.a. þau verkefni að setja upp Minecraft-rás fyrir 8.-10. bekk Vogaskóla og fá starfsfólk til þess að streyma myndböndum af sér að spila – sem seinna þróaðist í að starfsfólk og nemendur spiluðu saman.

Í þessu öllu voru margir nemendur sem þau höfðu aldrei náð til áður byrjaðir að taka þátt í rafrænu félagsmiðstöðinni. Nemendur sem hefði mátt kalla „týnda“.

„Mér finnst mikilvægt að þróa félagsmiðstöðvar í þá átt að það séu í það minnsta einn til tveir starfsmenn sem sérhæfa sig í þessum málefnum og geta tekið vaktir í gegnum þessa miðla,“ segir Kristján Jesús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert