Þór Akureyri enn án stiga í Turf Deildinni

Turf Deildin í Rocket League hefst á morgun.
Turf Deildin í Rocket League hefst á morgun. Grafík/Turf Deildin

Leikin var heim umferð í Turf Deildinni í Rocket League síðastliðið sunnudagskvöld. Þýðir það að tvær og hálf umferð hafa verið leiknar, en seinni helmingur annarrar umferðar verður leikin sunnudaginn næsta.

LAVA esports einir á toppnum

Liðin LAVA esports og Midnight Bulls deildu toppsætinu er sunnudagur rann upp, en liðin tvö mættust í fyrstu viðureign kvöldsins. LAVA esports er sterkasta liðið í deildinni, en leikmenn liðsins eru tvöfaldir Íslandsmeistara í Rocket League. Hafa þeir sigrað allar viðureignir sínar örugglega það sem af er tímabili. 

Midnight Bulls hafa komið á óvart og fyrir viðureign sína á móti LAVA höfðu þeir ekki tapað leik í viðureignum sínum á tímabili þrjú. Það hinsvegar breyttist þar sem LAVA esports sigraði viðureignina örugglega 3-0. Kom það engum á óvart þar sem LAVA teflir fram sterkasta liði deildarinnar, en sitja þeir nú einir á toppi deildar.

Panda Bois stríddu Rafík

Önnur viðureign kvöldsins var á milli Rafík og Panda Bois. Fyrir viðureignina hafði Rafík unnið eina viðureign, en Panda Bois enga. Pöndurnar virtust mættar tilbúnar til leiks og gerðu Rafík erfitt fyrir er þær sigruðu fyrsta leik viðureignarinnar. Það tók Rafík aðeins eitt tap til að hrökkva í gang og sigraði Rafík næstu þrjá leiki, og varð loka niðurstaða viðureignarinnar 3-1 Rafík í hag.

Panda Bois eru enn án stiga en eiga mikið inni, en þeir sýndu baráttu gegn Rafík og gáfust ekki upp. Rafík situr í 2. - 4. sæti deildarinnar með fjögur stig.

OCtai gerðu Somnio erfitt fyrir

Lið oCtai esports mættu til leiks á móti Somnio í þriðju viðureign kvöldsins. Somnio var fyrir viðureignina með tvö stig en oCtai esports án stiga. Mikill dagamunur er á leik Somnio, og því óljóst hvort að oCtai esports myndu eiga séns áður en viðureignin hófst. 

Litu hlutir ekki vel út fyrir lið oCtai esports eftir fyrsta leik sem Somnio sigraði, en baráttuna vantaði ekki hjá liðsmönnum oCtai. Sigraði oCtai annnan leik viðureignarinnar og var staðan þá orðin jöfn í einvíginu, 1-1. Somnio sigraði næstu tvo leiki naumlega, og stóðu uppi sem sigurvegarar viðureignar með 3-1 sigri. Lið oCtai átti séns til sigurs í öllum tapleikjunum sínum það kvöldið, en vantaði herslumuninn. Situr lið oCtai á botni deildarinnar með engin stig ásamt tveimur öðrum liðum.

Þór Akureyri enn án stiga

Síðasta viðureign kvöldsins var milli Þór Akureyri og KR. Enduðu bæði lið meðal efstu þriggja sæta deildarinnar á síðasta tímabili og var von á jöfnum leikjum. Voru bæði lið án stiga fyrir viðureign þeirra og því mikilvæg stig í boði í viðureigninni. Lið KR hafði tapað óvænt á móti Midnight Bulls í fyrstu viðureign sinni, og var því spurningin hvernig KR-ingar myndu mæta til leiks í þessa viðureign.

Allir leikir viðureignarinnar voru jafnir, en enginn sigur féll réttu megin fyrir Þór Akureyri, og sigraði KR viðureignina 3-0. Greinilegt var að KR-ingar mættu með höfuðið hátt og spiluðu sinn leik sem skilaði þeim sigri. Tveim leikjunum lauk með eins stigs sigri KR, sem voru svekkjandi niðurstöður fyrir leikmenn Þórs.

Þrjú lið án stiga á botninum

Sitja þrjú lið á botni deildarinnar með engin stig, þau oCtai esports, Þór Akureyri og Panda Bois. Midnight Bulls, Rafík og Somnio sitja í 2. - 4. sæti deildarinnar með fjögur stig, og KR þar á eftir með tvö stig.

Kemur það engum á óvart að lið LAVA esports sitji í toppsætinu með sex stig, taplausir ásamt því að hafa ekki tapað leik í viðureign.

Staða Turf Deildarinnar eftir tvær og hálfa umferð.
Staða Turf Deildarinnar eftir tvær og hálfa umferð. Skjáskot/Toornament

Botnslagur á morgun

Þurfa botnliðin að spíta í lófana vilji þau taka þátt í baráttunni um verðlauna sæti, en veitt eru verðlaun fyrir fyrstu fjögur sæti deildarinnar. Mætast tvö botnlið á morgun og hafa möguleika á að fá sín fyrstu stig í deildinni.

Næstu viðureignir eru spilaðar á morgun, þriðjudag, en þar mætast Þór Akureyri og Panda Bois, og KR og Somnio. Verða þær viðureignir sýndar í beinni útsendingu á Twitch rás RLÍS og Stöð2 esport, en útsending hefst klukkan 19:00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert