Heimsmeistaramótið byrjar í dag

Bikar heimsmeistaramótsins árið 2020.
Bikar heimsmeistaramótsins árið 2020. Skjáskot/youtube.com/LoLEsports

Eitt stærsta rafíþróttamót í heimi, heimsmeistaramótið í League of Legends, hefst í dag. Mótið er haldið í Laugardalshöllinni í Reykjavík og hefst með umspili sem ákvarðar hvaða lið tryggja sér síðustu lausu sætin í aðalkeppni mótsins sem hefst 11. október næstkomandi.

Tíu lið taka þátt í umspili

Tíu lið taka þátt í umspilinu og er þeim skipt upp í tvo riðla. Riðlakeppni þessi hefst í dag og lýkur 7. október, en efsta liðið í hvorum riðli tryggir sér sæti í aðalkeppni mótsins. Fyrsti leikur umspilsins hefst í dag klukkan 11:00 þar sem liðin Hanwha Life Esports og LNG Esports ríða á vaðið.

Liðin sem lenda í þriðja, fjórða og fimmta sæti í riðlakeppni umspilsins fara áfram í einfalda útsláttarkeppni sem fer fram 8. og 9. október. Efstu tvö liðin í einföldu útsláttarkeppninni tryggja sér sæti í aðalkeppninni.

Aðalkeppni mótsins

Tólf lið hafa nú þegar tryggt sér sæti í aðalkeppni mótsins, en gert er ráð fyrir sextán liðum í þeirri keppni. Fjögur síðustu sætin ákvarðast af gengi umspilsins sem hefst í dag.

Aðalkeppnin hefst á riðlakeppni sem byrjar 11. október og lýkur 18. október. Þeim tólf liðum sem hafa nú þegar tryggt sér sæti í aðalkeppninni hefur verið skipt upp í fjóra riðla. Kemur í ljós að umspili loknu hvaða lið verður fjórða liðið í hverjum riðli.

Efstu tvö lið hvers riðils í aðalkeppninni tryggja sér sæti í úrslitakeppninni sem hefst 22. október. Úrslitaleikurinn fer svo fram þann 6. nóvember.

Allir leikir verða sýndir í beinni útsendingu á Twitch rás Riot Games og á Stöð2 esport. Hægt verður að fylgjast með úrslitum og finna upplýsingar um næstu leik á síðu LoL Esports

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert