„Mottóið er að hafa gaman og sigur er aukaatriði.“

Stelpurnar í Babe Patrol. Frá vinsti Eva, Högna, Kamila og …
Stelpurnar í Babe Patrol. Frá vinsti Eva, Högna, Kamila og Alma. mbl/Eggert Jóhannesson

Fjóreykið í The Babe Patrol, þær Alma Guðrún, Eva Margrét, Högna Kristbjörg og Kamila Dabrowska kynntust í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og eru allar á sama ári. Síðan unnu þær allar saman í Áslandsskóla og urðu þar góðar vinkonur en vináttan stoppaði ekki þar því í dag halda þær streymi fyrir GameTíví þar sem þær spila Warzone og spjalla um veginn og lífið.

Þeirra leið til að hittast í Covid

„Ég bjó í Svíþjóð, vildi spjalla við þær oftar og spila í leiðinni,“ segir Högna í samtali við mbl.is en þær byrjuðu að spila saman í fyrstu bylgju Covid og var þá mikið um takmarkanir að ræða og áttu því Alma, Eva og Kamila erfitt með að hittast líka þrátt fyrir að búa á Íslandi.

Að spila saman var þeirra leið til þess að „hittast“ og ræddu því stelpurnar ekki einungis um leikinn þegar þær spiluðu heldur gafst þeim tækifæri á að spjalla um daginn og veginn samtímis spilun leiksins.

Hló að hugmyndinni í fyrstu

Stuttu eftir að þær byrjuðu að spila saman leggur samstarfsmaður Ölmu til að þær ættu að byrja að streyma frá leikjunum en hann var sjálfur að streyma.

„Ég hló bara að hugmyndinni og fannst þetta eitthvað svo fáránlegt afþví maður var ekki kominn inn í þennan heim en síðan ákváðum við bara að prófa það,“ segir Alma og bætir við að í fyrstu voru um fimm manns að horfa á þær sem voru þá yfirleitt fjölskyldumeðlimir þeirra.

Streymdu vikulega sem „ThePussiPatrol“

Í fyrstu streymdu þær frá leikjunum á Twitch rás Högnu og byrjuðu um vorið árið 2020 en tóku síðan pásu fram að jólum og breyttu þá nafninu í „PussiPatrol“ og voru þá að streyma vikulega.

Allt kom fyrir ekki þegar þær vöknuðu einn daginn og sáu að rásinni hafði verið lokað vegna óviðeigandi nafninu sem rásin bar. Sárnaði stelpunum mjög þar sem þær höfðu lagt mikla vinnu í streymin og voru komnar með um 200 fylgjendur á rásina.

Þegar atvikið kom upp dró það í dálkinn hjá stelpunum en þær neituðu að láta það eyðileggja fyrir sér.

Högna sendi bréf á miðilinn vegna þessa og fengu þær svar fimm mánuðum seinna þar sem þeim var tjáð að þær gætu fengið aðganginn aftur með því skilyrði að nafninu yrði breytt en þegar svarið barst höfðu þær nú þegar búið til nýjan aðgang með nafninu The Babe Patrol sem var að ganga mjög vel.

Góður stuðningur og lítið um leiðinleg ummæli

„Það er mjög sjaldan sem einhver er með leiðindi eða eitthvað svoleiðis, ég bjóst við miklu meira af skítköstum eða eitthvað svoleiðis,“ segir Alma.

“Maður hefur alveg heyrt um eitthvað í tölvuleikjasamfélaginu og þá sérstaklega að stelpur eru að fá meir af leiðindarkommentum,” bætir Eva við.

Stelpurnar hafa fengið gríðarlegan stuðning frá aðdáendum, fjölskyldu og vinum sem hvetja þær áfram og fylgjast með þeim og deila vinnu þeirra á samfélagsmiðlum.

„Mamma og pabbi vita ekkert um tölvuleiki en ég fæ alltaf símtal frá þeim eftir hvert streymi þar sem þau spyrja hvernig gekk og hvort að við höfum unnið mótið,“ segir Högna en þykir stelpunum vænt um allan þann stuðning sem þær eru að fá.

Aðdáendur taka upp hanskann

„Við vitum ekkert hver þau eru eða hvernig þau lýta út en manni finnst bara eins og þetta séu vinir manns, þau mæta á hverju kvöldi og er á fullu að spjalla við mann,“ segir Eva um reglulegu áhorfendurnar á streyminu þeirra.

Þegar stelpurnar fá óviðeigandi ummæli eða skilaboð á streymisspjallinu eru aðdáendur og aðrir áhorfendur duglegir að taka upp hanskann fyrir þeim og láta vita að slíkt sé ekki við hæfi og „passa upp á þær“ en þær segja að slík ummæli og skilaboð birtist sjaldan á spjallinu.

Byrjuðu sem gestir í GameTíví

GameTíví bauð upprennandi streymurum á tímabili pláss í þættinum til þess að aðstoða þá við að koma sér á framfæri og fengu stelpurnar í The Babe Patrol pláss í einum þættinum.

Leist þeim í GameTíví svo vel á þær að þeim var boðinn áframhaldandi samningur þar sem þær fengu sinn eigin þátt og streymir fjóreykið nú frá leikjum sínum öll miðvikudagskvöld á GameTíví.

Umsjónarmenn GameTíví stuðningsríkir

„Þeir hjálpuðu okkur með tæknilegu hliðina og að gera þetta svona flott,“ segir Alma og taka stelpurnar undir að þeir hafi verið til mikils halds og stuðnings hvað það varðar.

Þeir bættu gæði hljóðs og myndar ásamt því að setja allt upp þannig að þær geti allar verið í mynd samtímis en áður skiptust þær á að vera í mynd í hverri viku þar sem þær keyrðu með myndavélina á milli.

Hvetja aðrar stelpur til þess að prófa

„Ég held að ég hafi ekki opnað leikinn og spilað hann ein síðan við byrjuðum,“ segir Kamila en eru þær allar sammála um að vináttan hafi styrkst til muna eftir að þær fóru að spila saman.

Þær finna þær mikið öryggi í hvor annarri við spilun og telja að margar stelpur vera feimnar við að spila leiki sem þessa og jafnvel vera búnar að ákveða fyrirfram að svona leikir séu ekki fyrir þær og prófi þessvegna ekki.

Fjóreykið hvetur því allar stelpur til þess að prófa og spila með vinkonum sínum og segja spilun tölvuleikja frábæra leið til þess að eyða tíma með vinkonum sínum.

„Mottóið er að hafa gaman og sigur er aukaatriði.“

Hægt er að fylgjast með þeim á miðvikudagskvöldum í beinni á Stöð2 esports klukkan 21:00 eða á Twich rás GameTíví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert