Lætur lömun ekki stoppa sig við að spila

Cole Sydnor getur spilað tölvuleiki með sérstökum búnaði fyrir fatlaða.
Cole Sydnor getur spilað tölvuleiki með sérstökum búnaði fyrir fatlaða. Skjáskot/YouTube/Roll with Cole & Charisma

Hver segir að fatlaðir geti ekki spilað tölvuleiki ? Efnishöfundurinn Cole Sydnor lætur lömun af völdum mænuskaða ekki stoppa sig við að spila tölvuleiki.

Cole Sydnor lenti í alvarlegu slysi þegar hann var að kafa fyrir um áratug síðan, við það skaddaðist mænan svo að stór hluti líkamans lamaðist. Sydnor hefur notað hjólastól síðan og á einnig í erfiðleikum með að stjórna handahreyfingum.

Lífið heldur áfram

Þrátt fyrir það, lætur hann fötlunina ekki hamla sér við daglegt líf, en á samfélagsmiðlum sýnir hann frá því hvernig hann tekst á við daglegt líf.

Sydnor hefur líka ferðast um heiminn með konunni sinni Charisma og hafa þau farið saman á skíði, í fjallgöngu og jafnframt spila þau tölvuleiki - saman og í sitthvoru lagi.

Sérstakt borð sem fjarstýring

Þar sem að handahreyfingar Sydnor eru takmarkaðar notast hann við sérstakan búnað til þess að spila tölvuleiki, eins og sjá má í myndböndunum hér að ofan og neðan.

Til þess að spila tölvuleiki notast Sydnor við sérhannað borð með fjölda af snúrum og tökkum sem hann getur stillt og sniðið að eigin þörfum. Búnaðurinn samanstendur af vörum frá Logitech, Microsoft og Warfighter Engaged sem hjónin höfðu pantað og fengið sent heim.

Vert er að taka fram að pakkningar varanna voru þess eðlis að auðvelt væri fyrir fatlaða að opna, en nánar um þetta allt má sjá í myndbandinu hér að neðan.

Þar sýna hjónin frá því hvernig Sydnor spilar tölvuleiki, fræða áhorfendur um búnaðinn og fleira í tengslum við tölvuleikjaspilun með fötlun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert