Strákar bannaðir í Arena á fimmtudaginn

Streymishópurinn Babe Patrol, Alma Guðrún, Eva Margrét, Högna Kristjörg og …
Streymishópurinn Babe Patrol, Alma Guðrún, Eva Margrét, Högna Kristjörg og Kamila Dabrowska. Ljósmynd/RÍSÍ

Á fimmtudagskvöldið verða strákar ekki velkomnir í rafíþróttahöllinni Arena en það er vegna kvennakvölds sem fjóreykið í Babe Patrol heldur.

Stelpurnar Alma Guðrún, Eva Margrét, Högna Kristjörg og Kamila Dabrowska mynda streymishópinn Babe Patrol og hafa notið mikilla vinsælda að undanförnu. Nú bjóða þær öllum stelpum að koma á kvennakvöld í Arena.

Stelpur taka þátt í vandræðalegum spurningaleik

Hvetja þær því allar stelpur til þess að koma og spila, hlæja og drekka stelpudrykki með þeim á kvennakvöldi, eða stelpukvöldi, Arena. 

Kvöldið hefst klukkan 19:00 og verða „strákar ekki velkomnir“ meðan á því stendur.

Fyrstu 30 stelpur sem mæta fá sérstakan gjafapoka en þar að auki verður hægt að vinna sér inn veglega vinninga yfir kvöldið.

Á viðburðinum verður m.a. dregið í happdrætti en klukkan 20:00 verður mjög vandræðalegur spurningaleikur spilaður með Evu Margréti.

Fjöldi tilboða í boði

Með hverjum miða fylgir happdrættismiði, spilatími í Arena frá klukkan 19:00 til 01:00 ásamt sérstökum tilboðum á Bytes, bar og veitingastað Arena.

Miðinn kostar 2.990 krónur og er hægt að kaupa hann í hurðinni sem og í forsölu.

Hægt er að kaupa miða og nálgast nánari upplýsingar um viðburðinn og tilboðin sem verða í boði meðan á honum stendur á heimasíðu Arena.

mbl.is