Voru hársbreidd frá endurkomusigri

Rafíþróttaliðin Þór og Ármann mættust í gær í úrvalsdeildinni í …
Rafíþróttaliðin Þór og Ármann mættust í gær í úrvalsdeildinni í Counter-Strike. Samsett mynd

Fyrsta umferð í íslensku úrvalsdeildinni í Counter-Strike fór af stað í gær og mættust liðin Þór og Ármann í annarri viðureign umferðarinnar. Þór var sigurstranglegri aðilinn fyrir leik að mati margra en liðið stóð sig gríðarvel í vor í Stórmeistaramótinu en laut í lægra haldi gegn Atlantic í úrslitaleiknum.

Leikmenn Þórs fóru vel af stað og eftir að hafa tapað fyrstu umferðinni unnu þeir næstu sex þar til Ármann tók sitt fyrsta leikhlé.

Leikhléið virðist þó ekki hafa haft þau áhrif sem af því var ætlast en Þór hélt áfram að fella andstæðingana í Ármanni og komst í 10:1 forystu. Hálfleikstölur 11:4 fyrir Þór og mikil vinna framundan fyrir leikmenn Ármanns að reyna saxa á forskot Þórsaranna.

 Ármann hóf seinnihálfleikinn vel og unnu sig aftur inn í leikinn með góðu samspili og fellum. Þór komst í kjörstöðu að klára leikinn og var einungis einni umferð frá sigrinum þegar liðið komst í 15:9 þegar Ármann tekur aftur leikhlé og í þetta sinn náðu þeir að nýta sér það til góðs.

Ármann vann næstu fjórar umferðir og var einungis einni umferð frá því að jafna leikinn en Tony, leikmaður Þórs, hafði betur í seinustu umferðinni og bjargaði leiknum fyrir Þór. Lokatölur 16:14 og Þór bar sigur úr býtum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert