Zidane er hættur með Real Madrid

Frakkinn Zinedine Zidane tilkynnti fyrir stundu að hann væri hættur störfum sem knattspyrnustjóri Real Madrid en liðið varð Evrópumeistari þriðja árið í röð undir hans stjórn síðasta laugardag.

Zidane boðaði til fréttamannafundar klukkan 11 að íslenskum tíma, með mjög stuttum fyrirvara, og tilkynnti þar ákvörðun sína.

Zidane hefur stýrt Real Madrid í hálft þriðja ár en hann tók við liðinu 4. janúar 2016 þegar Rafael Benítez var sagt upp störfum. Hann hafði þá stýrt varaliði Real Madrid frá árinu 2014 en það var frumraun hans í þjálfun.

Real Madrid vann Evrópubikarinn þá um vorið, aftur 2017, og í þriðja sinn síðasta laugardag þegar liðið vann Liverpool 3:1 í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Kiev.

Á sama tíma hefur Real Madrid einu sinni orðið spænskur meistari, 2017, en hin tvö árin sem Zidane hefur verið við stjórnvölinn hefur Barcelona unnið titilinn. Í vetur hafnaði Real Madrid í þriðja sæti, á eftir Barcelona og Atlético Madrid.

Real Madrid hefur samtals unnið níu bikara undir stjórn Zidane, Meistaradeildina þrisvar, heimsbikar félagsliða tvisvar, Meistarabikar Evrópu tvisvar, spænska meistaratitilinn einu sinni og spænska meistarabikarinn einu sinni.

Zidane er 45 ára gamall og talinn í hópi bestu knattspyrnumanna sögunnar. Hann lék 108 landsleiki fyrir Frakka og skoraði 31 mark og varð heimsmeistari með liðinu 1998 og Evrópumeistari 2000. Zidane fékk Gullboltann, Ballon d'or, sem besti knattspyrnumaður heims árið 1998 og var þrívegis útnefndur leikmaður ársins í heiminum af FIFA.

Hann lék með Cannes til 1992, með Bordeaux 1992 til 1996, Juventus 1996 til 2001 og Real Madrid 2001 til 2006 en lagði skóna á hilluna eftir úrslitaleik HM sumarið 2006 þegar Frakkar töpuðu fyrir Ítölum og Zidane fékk rauða spjaldið í framlengingu fyrir að skalla Marco Materazzi.

Zinedine Zidane.
Zinedine Zidane. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert