Ekkert pláss fyrir Ronaldo

Cristiano Ronaldo er án félags.
Cristiano Ronaldo er án félags. AFP/Jewel Samad

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo er ekki á leið til franska stórliðsins París SG.

Þetta tilkynnti Nasser Al-Khelaifi, forseti franska félagsins, í samtali við Sky Sports í vikunni.

Ronaldo, sem er 37 ára gamall, er án félags eftir að enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United rifti samningi hans á dögunum.

Sóknarmaðurinn hefur meðal annars verið orðaður við bæði París SG og Bayern München en líklegast þykir að hann sé á leið til Sádi-Arabíu til Al-Nassr.

„Við erum með Lionel Messi, Neymar og Kylian Mbappé,“ sagði Al-Khelaifi í samtali við Sky Sports.

„Það yrði erfitt að finna pláss fyrir hann hjá okkur en ég óska honum alls hins besta. Hann er frábær leikmaður,“ bætti Al-Khelaifi við.

mbl.is