Meistararnir björguðu stigi

Eyjamenn hefja titlvörnina gegn Gróttu í dag.
Eyjamenn hefja titlvörnina gegn Gróttu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grótta hirti eitt stig í fyrsta leik Olís-deildar karla sem fram fór í dag í Vestmannaeyjum. Eyjamenn vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið í fyrri hálfleik og leiddu gestirnir með sjö mörkum þegar gengið var til búningsherbergja, 11:18.

Eyjamenn sýndu þó frábæra endurkomu í síðari hálfleik og unnu upp fimm marka forskot gestanna á síðustu fimm mínútum leiksins. Jafntefli því niðurstaðan, 30:30, í leik þar sem Eyjamenn eru ekki sáttir með byrjun sinna manna og Gróttumenn klóra sér í hausnum og spá í hvernig þeir gátu tapað þessu niður.

Fyrri hálfleikurinn var stórkostleg skemmtun fyrir alla Seltirninga en algjör martröð fyrir Eyjamenn. Í rauninni gekk allt upp hjá gestunum og heimamenn voru í ströggli með alla þætti leiksins. Heimamenn komust aldrei yfir í leiknum og mestur varð munurinn sjö mörk og því var staðan 11:18 í hálfleik.

Gellir Michaelsson setti fjögur mörk í fyrri hálfleik og sýndi þar mikið áræði þar sem hann hræddist ekkert og þá alls ekki vörn ÍBV. Markverðir ÍBV sýndu ekki sínar bestu hliðar og vörðu samtals sex skot, þar af tvö þar sem víti var dæmt strax í kjölfarið. Theodór Sigurbjörnsson var sprækastur í fyrri hálfleik hjá ÍBV en hann skoraði fimm mörk, þar af tvö úr vítaskotum en brenndi einnig af tveimur slíkum.

Hreiðar Levý Guðmundsson varði átta skot í marki gestanna en þeir þurftu að sitja utan vallar samtals í sex mínútur gegn ekki einni einustu Eyjamanna. Það var erfitt að velja einhvern einn sem skaraði fram úr í liði gestanna í fyrri hálfleik en liðsheildin var góð og menn tilbúnir að vinna hver fyrir annan. Síðasta mark fyrri hálfleiks var stórkostlegt en þar skoraði Árni Benedikt Árnason stórglæsilegt sirkusmark.

Í síðari hálfleik byrjuðu Eyjamenn vel og virtust ætla að éta upp muninn snemma en allt kom fyrir ekki þegar Gróttumenn fóru að finna netmöskvana á ný. Gestirnir komust síðan í sex marka forystu þegar átta mínútur voru eftir en þá fóru heimamenn að taka sénsa sem þeir hefðu eflaust viljað taka fyrr.

Eftir algjört „fíaskó“ á síðustu tíu mínútum leiksins af hálfu dómaranna og endurkomu ÍBV skiptu liðin stigunum á milli sín. Páll Eiríksson, ungur markvörður ÍBV, kom vel inn á lokakaflanum og varði nokkur mikilvæg skot. Þá má að sama skapi segja að ungir og óreyndir Gróttumenn hafi farið illa með forskotið sem liðið hélt næstum því út allan leikinn. Alexander Jón Másson átti til dæmis tvívegis dauðafæri til þess að koma liðinu í burtu frá heimamönnum en brást bogalistin.

Theodór Sigurbjörnsson var markahæstur með níu mörk en Sigurbergur Sveinsson kom á eftir honum með sex. Hjá gestunum voru þeir Árni Benedikt Árnason, Gellir Michaelsson, Sveinn Jose Rivera og Leonharð Þorgeir Harðarson allir með fimm mörk.

ÍBV 30:30 Grótta opna loka
60. mín. Leik lokið Gróttumenn fá stig út úr þessum leik, voru sjálfum sér verstir á lokakaflanum en voru sterkari aðilinn mjög stóran hluta leiksins.
mbl.is