Draumur að sigra sína gömlu menn

Tumi Steinn Rúnarsson hefur spilað afar vel með Aftureldingu.
Tumi Steinn Rúnarsson hefur spilað afar vel með Aftureldingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Uppaldi Valsarinn Tumi Steinn Rúnarsson átti afar góðan leik er hann fór á gamla heimavöllinn með Aftureldingu í dag. Tumi skoraði átta mörk í 28:25-sigri í Olísdeildinni í handbolta. Hann var búinn að bíða spenntur eftir leiknum.  

„Þetta er geggjað. Þetta er búið að vera draumur síðan að tímabilið byrjaði að sigra sína gömlu menn. Ég var að spila á móti félögum mínum og þetta eru langskemmtilegustu leikirnir. Ég er alinn upp hérna og það er geggjað að sigra hér.“

Tumi vildi lítið tala um eigin frammistöðu og hrósaði hann öðrum mönnum í staðinn. 

„Liðið vann þennan leik. Ég veit ekki hvað Arnór tók marga bolta og Elvar skoraði mikilvæg mörk. Þetta var liðssigur. Þetta var gott eftir síðasta leik sem við misstum niður og áttum að vinna.“

Hann kveðst ekki ósáttur við að fá ekki tækifæri hjá Val, heldur þakklátur fyrir traustið sem hann fær hjá Aftureldingu. 

„Það eru betri leikmenn en ég í stöðunum hjá Val, það verður að segjast eins og er. Ég er kominn hingað til að sýna mig og ég er endalaus þakklátur fyrir tækifærið.

Þetta er búið að vera frábært. Þetta er geggjað lið og góðir félagar. Þetta er virkilega gott lið sem við erum með,“ sagði Tumi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert