„Fórum illa með mörg góð færi“

Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA
Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA Ljósmynd/ Kristín Hallgrímsdóttir

Leikmenn KA í Olís-deildinni í handbolta eru komnir í sumarfrí eftir að KA tapaði fyrir FH í úrslitakeppninni í dag. FH vann leik liðanna 25:19 og einvígið 2:0. FH er deildarmeistari en KA hafnaði í 8. sæti í deildinni og átti því við ramman reip að draga.

Halldór Stefán Haraldsson er þjálfari liðsins og var hann nokkuð rólegur yfir stöðunni í leikslok.

„Við ætluðum að slá FH út úr keppninni og höfðum trú á því. Við komum inn í þetta einvígi sem litli maðurinn og okkar markmið var að hleypa þessu upp og vinna fyrsta leik. Það munaði nú ekki miklu. Mér finnst í þessu einvígi að það muni voðalega litlu á þessum liðum. Við vorum að fara illa með mörg góð færi í hvorum hálfleik og tvö þrjú mörk á þeim köflum hefðu gert þetta að hörkuleik.“

Þetta var sveiflukennt í dag. Hvort lið tók sína spretti, skoruðu fjögur, fimm mörk í röð á meðan þau lokuðu vörninni.

„Mér fannst við á kafla í fyrri hálfleik í bullandi vandræðum og þá vorum við ragir. Við vorum ekki nógu beittir og svo var Daníel að verja vel á þeim kafla. Það var töluverð brekka fram undan í byrjun seinni hálfleiks þegar staðan var 16:10 fyrir FH en við komum mjög vel inn í þann hálfleik, ákveðnir og grimmir. Þetta var komið niður í tvö mörk en þá kom stopp hjá okkur og við náðum aldrei að vinna þetta upp, vorum aftur að klúðra færum. Í leik gegn FH má það eiginlega ekki. Mér fannst við eiga möguleika á að ná þeim og þess vegna er ógeðslega svekkjandi að hafa ekki nýtt okkar möguleika“ sagði þjálfarinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert