Strákarnir góðir þó ég klikki á einum og einum hlut

Feðgarnir Óskar Bjarni Óskarsson og Benedikt Gunnar Óskarsson ræða saman …
Feðgarnir Óskar Bjarni Óskarsson og Benedikt Gunnar Óskarsson ræða saman í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta var fyrst og fremst stórkostlegur sigur og umgjörðin hérna í kvöld var algjörlega fyrsta flokks,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir stórsigur liðsins gegn Minaur Baia Mare frá Rúmeníu í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópubikars karla í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

Leiknum lauk með átta marka sigri Vals, 36:28, en síðari leikur liðanna fer fram í Rúmeníu eftir viku, sunnudaginn 28. apríl.

Til mikillar fyrirmyndar

„Stemningin og orkan var til mikillar fyrirmyndar þó við höfum kannski verið heldur lengi í gang. Björgvin Páll Gústavsson var frábær í upphafi leiks og í síðari hálfleik. Varnarleikurinn var líka mjög góður og við fengum hraðaupphlaupin sem við vildum fá en það verður allt önnur tónlist í þessu í síðari leiknum í Rúmeníu.

Þetta var fyrri hálfleikur í einvíginu og eftir viku er sá síðari. Við lögðum ekki upp með það að ná góðu forskoti í kvöld. Markmiðið var fyrst og fremst að vinna leikinn, ná upp góðum varnarleik og nýta orkuna í húsinu. Átta mörk er gott forskot en við megum alls ekki leyfa okkur að slaka á gegn þeim. Þeir fá að spila fast á heimavelli og við þurfum að undirbúa okkur andlega undir það,“ sagði Óskar Bjarni.

Ákváðu að keyra á þá

Benedikt Gunnar Óskarsson, sonur Óskars, var markahæstur Valsmanna í leiknum með sex mörk en hann lét föður sinn aðeins heyra það fyrir lokasókn Valsmanna og fannst hann aðeins of seinn að taka leikhlé. 

„Við vorum búnir að ákveða að keyra á þá og svo tókum leikhlé þegar það tókst ekki. Ég vildi ekki fara í sjö á sex því það munar um hvert einasta mark. Við náðum ekki alveg að framkvæma leikkerfið nægilega vel og ég tek það á mig. Strákarnir voru góðir í dag þó ég klikki á einum og einum hlut,“ sagði Óskar Bjarni í léttum tón í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert