Haukar stungu af í fjórða leikhluta

Hlynur Bæringsson er fyrirliði Stjörnunnar.
Hlynur Bæringsson er fyrirliði Stjörnunnar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Haukar sigruðu Stjörnuna, 96:83 í 9. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í Garðabæ í kvöld. Haukar eru með 12 stig í öðru sæti deildarinnar en Stjarnan er með átta stig í áttunda sæti.

Heimamenn hófu leikinn af miklum látum en þeir skoruðu átta fyrstu stigin. Eftir það var leikurinn í nokkru jafnvægi og voru Stjörnumenn með fimm stiga forystu eftir fyrsta leikhluta; 27:22.

Haukar hófu annan leikhluta á svipuðum nótum og Stjarnan þann fyrsta. Fljótlega voru gestirnir komnir yfir og á tímabili leit allt út fyrir að þeir ætluðu að stinga heimamenn af. Svo var þó ekki, Stjörnumenn náðu áttum og forystunni aftur. Garðbæingar leiddu með þremur stigum, 49:46, þegar liðin gengu til búningsherbergja að fyrri hálfleik loknum.

Stjarnan hóf seinni hálfleikinn betur en Haukar hleyptu heimamönnum aldrei of langt fram úr sér. Munurinn var á bilinu tvö til tíu stig í þriðja leikhluta en að honum loknum höfðu Stjörnumenn þriggja stiga forystu, 66:63.

Gestirnir voru gríðarlega ákveðnir í upphafi fjórða leikhluta og sneru leiknum fljótt sér í hag. Þeir náðu fljótt fimm stiga forystu og voru nokkrum stigum yfir það sem eftir lifði leiks. Lokatölur, 96:83.

Stjarnan 83:96 Haukar opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert