Jón æfir með Golden State Warriors

Jón Axel Guðmundsson í leik Íslands og Úkraínu í undankeppni …
Jón Axel Guðmundsson í leik Íslands og Úkraínu í undankeppni HM á dögunum. mbl.is/Óttar Geirsson

Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er í hópi leikmanna sem verða á æfingum hjá bandaríska NBA-liðinu Golden State Warriors næstu daga.

Félagið hefur haft fyrir venju í september að fá til sín hóp samningslausra leikmanna til að spila gegn sínum mönnum á æfingum og af og til skilar það sér með því að þeir sem standa sig best fá tækifæri með liðinu. Á þann hátt komu Avery Bradley og Langston Galloway inn í leikmannahóp Warriors fyrir keppnina í NBA-deildinni.

The Athletic nafngreinir átta leikmenn sem séu væntanlegir á æfingarnar með Warriors, samkvæmt heimildum, og Jón Axel er í þeirra hópi. Hinir sem eru nafngreindir eru Ben McLemore, Elfrid Payton, Rondae Hollis-Jefferson, Kenneth Faried, Miye Oni, Ty-Shon Alexander og Wesley Saunders.

Jón Axel lék í ítölsku A-deildinni framan af síðasta tímabili, með Fortitudo Bologna, en síðan með Crailsheim Merlins í Þýskalandi frá janúar á þessu ári. Hann kannast vel við sig í Bandaríkjunum eftir að hafa átt mjög farsælan feril þar með Davidson-háskólaliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert