Var á barmi taugaáfalls

„Þetta leit mjög vel út á pappírunum en svo kom annað á daginn,“ sagði Helena Sverrisdóttir, landsliðskona í körfuknattleik og leikmaður Hauka í úrvalsdeildinni, í Dagmálum.

Helena, sem er 34 ára gömul, gekk til liðs við ungverska félagið Ceglédi frá uppeldisfélagi sínu Haukum árið 2018.

Hún stoppaði hins vegar stutt við í Ungverjalandi eftir að félagið stóð ekki við þar til gerða samninga og gekk til liðs við Val fjórum mánuðum síðar.

„Við vorum ekki búin að fá greidd laun í fjóra mánuði og svo áttum við að fá bíl líka sem við fengum aldrei,“ sagði Helena.

„Það eina sem hélt aftur af mér, við að fara aftur út að spila, var sú staðreynd að ég var komin með fjölskyldu á þessum tímapunkti og það þurfti allt að vera tipp topp.

Ég fékk næstum því taugaáfall á þessum fyrstu vikum og ég átti mjög erfitt með þetta andlega,“ sagði Helena meðal annars.

Viðtalið við Helenu í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

mbl.is