„Þetta er viðurkenning sem staðfestir stöðu okkar á heimsvísu í spunagreindarlausnum fyrir banka og fjármálafyrirtæki,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri íslenska fyrirtækisins Lucinity.
Fyrirtækið hlaut nýverið viðurkenningu Gartner Cool Vendors fyrir framúrskarandi notkun á spunagreind í þágu banka og fjármálafyrirtækja.
Lucinity var stofnað árið 2018 og nýtir gervigreind til greiningar fjármálagagna og í baráttunni gegn fjárglæpum. Meðal erlendra viðskiptavina Lucinity má nefna Goldman Sachs, Visa og norræna fjártæknifyrirtækið Pleo.
Á Íslandi hafa bæði stærri og minni fjármálafyrirtæki valið lausnir frá Lucinity og þar má nefna Arion banka, Kviku og Indó, að því er segir í tilkynningu.
Spunagreind (e. generative AI) er sú tegund af gervigreind sem gerir fólki kleift að tala við gervigreindina og hún svarar til baka eins og manneskja.
„Þetta er eins og ef þú myndir biðja félagann þinn um að leita á internetinu og svo myndi hann bara svara þér: Heyrðu ég fann þetta,“ segir Guðmundur í samtali við blaðamann. Hér má einnig taka sem dæmi ChatGPT um svokallaða spunagreind.
Í tilkynningu er haft eftir forstjóranum:
„Á markaði sem hefur sífellt meiri áhuga á spunagreind, styrkir viðurkenning sem þessi stöðu okkar sem traustur samstarfsaðili fjármálafyrirtækja i fjárglæpavörnum. Fjármálafyrirtæki geta leitað til okkar til að innleiða tilbúna og skalanlega spunagreindarlausn til að auka varnir sínar gegn fjárglæpum.“
Nýlega kynntu Microsoft og Lucinity víðtækt samstarf milli fyrirtækjanna tveggja, þar sem lausnir Lucinity eru gerðar aðgengilegar á markaðssvæði Microsoft (Microsoft Azure Marketplace).