c

Pistlar:

5. júní 2019 kl. 16:01

Gústaf Adolf Skúlason (gustafadolfskulason.blog.is)

Sænska ríkinu stillt upp við vegg af fyrirtækjum í rafmagnsflutningi

Samtök gegn okri á rafmagnsflutningi

Eftir að Svíar sameinuðust orkumarkaði ESB hefur hitnað töluvert í kolunum. M.a. voru stofnuð samtök gegn okri á rafmagnsflutningi árið 2010 með þáttöku fyrirtækja og heimila í Gnosjö sem er þekktasta smáfyrirtækjahérað Svíþjóðar. Sú hreyfing náði eyrum yfirvalda sem reyndu gegnum sænska Orkumarkaðseftirlitið að hafa áhrif til lækkunar á okurverði rafmagnsdreifingar. Fyrirtækin í rafmagnsflutningakerfinu svöruðu þá með málaferlum á hendur sænska ríkinu og tapaði ríkið þeim öllum. Stjórnmálamenn sem ekki vissu það fyrir sátu uppi með sárt ennið, þegar þeir uppgötvuðu, að þeir höfðu engin völd lengur í raforkumálum. Völdunum var afsalað til ESB við sameiningu rafmagnsmarkaðar Svíþjóðar og ESB og eftir það eru stjórnmálamenn ónýtir í þeim málaflokki.

Helmingur hagnaðar á raforkuflutningi fer frá Svíþjóð

Eftir sneypuferð yfirvalda að rafmagnsflutningafyrirtækjum ríkir mikil óvissa um hvernig stjórnmálamenn geta brugðist við til varnar neytendum. Það sem vekur illsku er að mestur hluti rafmagnshækkana og stór hluti þess kostnaðar, sem neytendur greiða fyrir rafmagn í Svíþjóð fer til Þýzkalands og Finnlands í stað þess að nýtast í uppbyggingu innviða í Svíþjóð.

arðgreiðslurSem dæmi þá jókst velta flutningafyrirtækja rafmagns um 1,9 milljarða sænskra króna ár 2016 vegna verðhækkana til neytenda. Í ársskýrslum sama árs má sjá að aukning hagnaðar nam 1,89 milljörðum sek sem er næstum öll veltuaukningin. Samtímis segja flutningafyrirtækin að aukinn kostnaður sé vegna viðhalds til tryggingar rekstrinum. En rafmagnsrisarnir Eon og Fortum senda árlega um tvo þriðju af hagnaði fyrirtækjanna til móðurfyrirtækja erlendis. Fjármagnið fer því úr landi og nýtist ekki til fjárfestinga í Svíþjóð. Þýzka fyrirtækið Eon sendir stærstan hluta hagnaðarins eða um 77% til Þýzkalands. Samtals var um helmingur arðsins af allri raforkudreifingu 2016 fluttur frá Svíþjóð til Þýzkalands og Finnlands. Á 10 ára tímabili 2007 - 2016 hafa sænsk heimili og iðnaður þannig greitt um 20 milljarða sænskra króna í rafmagnsgjöld til erlendra aðila sem flutt hafa verið burtu frá Svíþjóð. Nemur það um 58% allra arðgreiðslna til móðurfélaga. Hefur fyrra samkeppnisforskot Svíþjóðar í raforkusölu glatast eftir inngöngu Svía í orkusamband ESB og sömu örlög bíða Íslands við samþykkt þriðja orkupakkans.

Flutningsgjald á rafmagni hefur snarhækkað til heimila og iðnaðar í Svíþjóð

Flutningsgjald á rafmagni í Svíþjóð hefur hækkað yfir 100% á sama tíma og vísitala neysluverðs hækkaði rúmlega 4%. Að viðbættri hækkun á rafmagnsverði er um verulega hækkun að ræða sem skerðir kjör heimila og samkeppnishæfni iðnaðarfyrirtækja. Að viðbættum sköttum er ljóst að hagsmunir neytenda komast hér yfirleitt ekki á blað, þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar talsmanna EES og ESB um hið gagnstæða.

Meðalverð rafmagnsnets (án virðisaukaskatts) til heimila í Svíþjóð 2000 - 2017, aurar sek/kwstund

figur-1
 

Norðurlönd gerð að mjólkurkúm Þjóðverja og annarra ríkja sem framleiða dýra, óhreina orku úr kolum, olíu og jarðgasi

Frá því að hafa áður verið samkeppnisfærir með ódýrt rafmagn til iðnaðar og heimila hafa Svíar látið í minni pokann og eru ekki lengur sjálfsagður valkostur fyrir orkufrekan iðnað. Svíþjóð ásamt Noregi og Danmörku greiða niður rafmagn til Þýzkalands og annarra ríkja á meginlandinu þar sem dýrara rafmagn er framleitt að mestu með kolum, olíu og jarðgasi. Þjóðverjar eru stórir í dag á sameiginlegum orkumarkaði ESB. Verðjöfnun rafmagns innan orkusambands ESB hefur lyft þeim úr vonlausri samkeppnisstöðu í að verða einn helsti keppinautur Norðurlanda í rafmagnssölu. Til að bæta gráu ofan á svart hófst sala á upprunavottorðum sem nýtist fremst framleiðendum dýrrar, óhreinnar raforku við að fela uppruna raforkunnar sem þeir setja á markaðinn.

Að ganga með í orkusamband ESB hefur verið eitt ólánsamasta skref sem Svíþjóð hefur tekið og ólgar reiðin undir niðri víða um landið. (Nýjasta dæmið um andstöðu gegn orkuverði eru mótmæli gegn bensínsköttum en 31. maí s.l. afhentu hundruðir gulvestungar í Bensinupproret 2.0 sænska þinginu undirskriftarlista með 300 þúsund nöfnum þar sem krafist var lækkunar á ofursköttun bensíns).

Gústaf Adolf Skúlason

Gústaf Adolf Skúlason

Smáfyrirtækjarekandi í Svíþjóð með auglýsinga- og hönnunarfyrirtækið 99 Design sem starfar við útlitshönnun og auðkenni vara og fyrirtækja. Aðstoða einnig smáfyrirtækjarekendur með efnahagsstjórn og gæðamál. Var í nokkur ár aðalritari smáfyrirtækjasambands Evrópu, ESBA, með skrifstofu í Brussel og sat í stjórn samtakanna á annan áratug sem fulltrúi sænskra samtaka smáfyrirtækjarekenda. Mun hér fremst skrifa pistla um viðskipti og fjármál.

Meira