c

Pistlar:

2. júní 2013 kl. 20:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjómannadagurinn

Slysaöldin


Guð hafði mikið að gera á

skútuöldinni.

Forfeður mínir

langafi minn

faðir hans og afi

höfðu drukknað í fiskiróðri

í Faxabugt.

Mann fram af manni

hafði ætt mín drukknað

í Faxaflóa og

guð hafði mikið að gera á skútuöldinni.

Hann er nú að mestu hættur

til sjós og er byrjaður að vinna í landi.


Jónas Guðmundsson (1930-1985)


Árið 2008 urðu þau merku tímamót að í fyrsta skipti drukknaði engin sjómaður við Íslandsstrendur. Tíðindi sem hljótt var um í því írafári sem varð vegna hruns nokkurra banka sama ár. Árið 2011 gerðist þetta aftur, engin sjómaður drukknaði. Þegar horft er til þeirra fórna sem Íslendingar hafa þurft að færa í baráttu sinni við Ægi er ekki hægt annað en að gleðjast og undrast yfir þessum tíðindum. Hver einasta fjölskylda í landinu þekkir sjóslys þar sem ástvinir hafa farist og þess minnumst við ekki síst í dag, á sjálfan sjómannadaginn. Sjómennskan var tvímælalaust hættulegasta starf samfélagsins og er það enn þó mikið hafi breyst. Í lok síðustu aldar voru 25% allra slysa á Íslandi vegna slysa á sjómönnum, enda þótt þeir væru aðeins um 5% þeirra sem störfuðu á íslenskum vinnumarkaði. Hafa verður í huga að nánast öll banaslys og mikill meirihluti annarra slysa eiga sér stað á fiskiskipum.

En hvað veldur þessari breytingu, af hverju tekur sjórinn ekki lengur sinn toll? Útgerð hefur breyst gríðarlega hér á landi og ekki síst síðustu 30 árin vegna kvótakerfisins. Kvótakerfið gerði það að verkum að útgerðum var kleyft að stýra sókn sinni miklu betur og þörfin fyrir að sækja sjóinn í hvaða veðri sem er hvarf. Um leið stækkuðu skipin og sérhæfing sjómanna jókst. Nýliðum fækkaði, sjómennskan varð smám saman að meira fagi þar sem hver og einn um borð hafði skilning og þekkingu á sínu starfi og þeim hættum sem því fylgdi. Um leið og skipin bötnuðu voru öryggismálin tekin fastari tökum. Slysavarnaskóli sjómanna, sem stofnaður var árið 1985, hefur leiki þar stórt hlutverk.

Breytingarnar eru í raun ótrúlegar. Árið 1941 er mesta slysaárið, sem um getur á 20. öldinni, en það ár fórust 139 lögskráðir íslenskir sjómenn. Á milli 1971 og 1980 fórust 203 sjómenn. Á milli 2001 og 2010 fórust hins vegar 21 sjómaður. Sjómennskan er að verða eins og hvert annað starf og þegar nýjustu og stærstu fiskiskip íslenska flotans eru skoðuð sést að aðstæður eiga ekkert skylt við það sem áður var. Um 2000 skip og bátar eru skráð á Íslandi, flest fiskiskip, en um 5000 manns hafa atvinnu á sjó hér á landi, auk íslenskra kaupskipasjómanna sem sigla að og frá landinu á erlendum skipum. Þessi hópur skiptir gríðarlega miklu máli fyrir efnahag landsins.

Við óskum sjómönnum landsins til hamingju með daginn.