c

Pistlar:

12. júlí 2013 kl. 16:54

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er sjávarútvegurinn vanmetinn?

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru bein störf við veiðar og vinnslu í sjávarútvegi um 9 þúsund árið 2011 og hafði fjölgað um tæp 5% frá árinu á undan. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var á vegum Sjávarklasans við Reykjavíkurhöfn. Í skýrslunni er sleginn sá varnagli að hugsanlega segi þessar tölur þó ekki svo mikið þar sem fjölmörg verkefni sjávarútvegsfyrirtækja, sem áður var sinnt innan fyrirtækjanna sjálfra, eru nú unnin af sjálfstæðum þjónustufyrirtækjum. Þessi þjónustufyrirtæki, sem m.a. sinna löndun, ýmsum viðgerðum og fleira, teljast hins vegar ekki til sjávarútvegsins. Hér er um að ræða mikilvæga tilraun til að setja sjávarútveginn í heildrænna samhengi en áður hefur þekkst sem gefur um leið betri sýn á mikilvægi hans. Nokkuð sem virðist stöðugt þurfa að minna landsmenn á.

Í skýrslunni er bent á að fyrri athuganir benda til þess að sjávarklasinn standi beint og óbeint undir 15-20% af störfum í landinu, eða 25 til 35 þúsund störfum. Auk fjölgunar í störfum við veiðar og vinnslu um u.þ.b. 400 störf, kom í ljós að þau fyrirtæki sem haft var samband við fjölguðu starfsfólki um a.m.k. 100 í heild á árinu 2011. Þessi aukning hefur ugglaust í för með sér aukningu í afleiddum störfum og það álit skýrsluhöfunda að fjöldi starfa sem sjávarklasinn skapar hafi aukist um 3 til 5% á árinu 2011. Fróðlegt verður að sjá tölur fyrir árið 2012, meðal annars vegna tilkomu makrílsins.

27% af landsframleiðslu

Eins og sjá má á þessari samantekt um afkomu sjávarklasans árið 2011 var árið gott þegar á heildina er litið fyrir fyrirtæki í klasanum. Svo gott að menn hafa notað það sem rök fyrir gríðarlegri skattlagningu á sjávarútveg í formi auðlindagjalds. Skýrslan er mikilvægt innlegg í þá umræðu en hún sýnir að með því að taka fjármuni sérstaklega út úr greininni er verið að hafa áhrif á mun fleiri sviðum en hjá útgerðinni einni. Það ætti að segja mönnum að stíga varlega til jarðar.

Þannig benda skýrsluhöfundar á að lítill vafi leiki á því að heildarumsvif sjávarklasans á Íslandi eru töluvert meiri en beint framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu gefur til kynna. Samfara aukningu í beinu framlagi veiða og vinnslu til hagkerfisins hefur óbeint framlag í formi verðmætasköpunar hjá stoðgreinum aukist í takt. Jafnframt má gera ráð fyrir að svonefnd eftirspurnaráhrif hafi glæðst og því má ætla að heildarframlag sjávarklasans til landsframleiðslu hafi verið rúm 27% á árinu 2011.

sjavarutvegur

Skýrsluhöfundar benda á að blikur eru þó á lofti í greininni um komandi ár. Í fyrsta lagi er nokkur óvissa í alþjóðlegu efnahagslífi. Sú óvissa getur haft áhrif á allar þær greinar sjávarklasans sem stunda útflutning. Í öðru lagi er óvíst hvaða áhrif stórauknar aflaheimildir í þorskveiðum í Barentshafi og víðar munu hafa á fiskmarkaði. Því telja þeir mikilvægt að  grípa strax til aðgerða með því að auka markaðstarf erlendis. Ekki verður séð að það hafi verið gert sérstaklega. Þvert á móti hafa menn unnið að því að búta niður ýmis þau sölufélög sem í gegnum tíðina hafa verið hvað framsæknust. Hafa menn þar sýnt furðu litla framsýni þegar kemur að verðmætustu vörumerkjum okkar Íslendinga.

Í þriðja og síðasta lagi benda skýrsluhöfundar á að með aukinni skattheimtu og fyrirhuguðum breytingum á lögum sköpuð óvissa í greininni sem dregur úr fjárfestingum og nýsköpun eins og vikið var að hér að framan.

Hér var rætt við annan höfunda skýrslunnar Hauk Má Gestsson hagfræðing hjá Íslenska sjávarklasanum.