c

Pistlar:

18. júlí 2013 kl. 11:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hornsteinninn

Sjávarútvegurinn hefur lengi verið talinn einn af hornsteinum íslensks atvinnu­ og efnahagslífs. Hér í síðasta pistli voru settar fram vangaveltur um að hann væri líklega vanmetinn þegar hagútreikningar dagsins í dag eru settir saman. Það er mikilvægt að hafa í huga þegar staða hans er skoðuð. Samkvæmt þjóðhags­reikningum hefur beint framlag fiskveiða og fiskvinnslu til vergrar landsframleiðslu aðeins numið 7­ til 10% á undanförnum árum. Í dag starfa um 8.600 manns við greinina en það samsvarar um 5% af vinnuafli Íslands (Hagstofa Íslands, 2011).

En þessar tölur bjóða upp á misskilning. Þær eru ekki með öllu í samræmi við hið meinta lykil­hlutverk sjávarútvegs í íslensku hagkerfi. Af þessu hafa menn freistast til að álykta að tími sjávarútvegs sem grunnstoðar í íslensku efnahags­ og atvinnulífi væri liðinn. En er það svo?

Rétt er að velta fyrir sér hvort þessar hagtölur gefi rétta mynd af þýðingu sjávarútvegs í íslenskum þjóðarbúskap? Þannig var spurt í ársgamalli skýrslu sem Íslandsbanki gaf út í samvinnu við Íslenska sjávarklasann og við þessu er mikilvægt að fá svör. Ekki síst vegna þeirrar umræðu sem er alla jafnan um sjávarútveginn en hún er á stundum dálítið gassaleg þegar hugsað er til þess að hér er um að ræða fjöregg þjóðarinnar. Íslendingar ættu reyndar að vera stoltari af sínum sjávarútvegi, þá verðmætasköpun sem við höfum náð út úr honum, tæknivæðingu og þó ekki síst hve vel okkur hefur tekist að vernda og byggja upp stofna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kom reyndar ágætlega inn á þetta í ræðu sinni á fundi með Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, fyrir skömmu. Þar kom skýrt fram hve sterka stöðu Íslendingar hafa varðandi verndun fiskistofna vegna þessa kerfis sem var innleitt með harmkvælum fyrir 30 árum síðan. Í framhjáhlaupi mætti rifja upp nýlegt viðtal við Róbert Guðfinnsson, fyrrverandi útgerðarmann á Siglufirði, á ÍNN sjónvarpsstöðinni. Þar rifjaði hann upp andstöðu útgerðarmanna við kvótakerfið enda sáu þeir ekki möguleika þess í upphafi. Halldór Ásgrímsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, þurfti að þola harðar árásir útgerðarmanna um land allt þegar hann reyndi að innleiða kerfið sem allir elska að hata í dag!

Þarf að horfa út fyrir þjóðhagsreikninga

Í fyrrgreindri skýrslu Íslandsbanka er bent á að lengi hefur verið vitað að efnahagsleg áhrif sjávarútvegs á Íslandi ná langt út fyrir það sem þjóðhagsreikningar mæla beint. Rannsóknir hagfræðinganna Ragnars Árnasonar og Sveins Agnarssonar (2005) vöktu athygli á því að sjávarútvegurinn væri svokallaður grunn­ atvinnuvegur og samkvæmt því væri heildarframlag hans  til landsframleiðslunnar hærra en næmi beinu framlagi hans samkvæmt þjóðhagsreikningum. Framkvæmdu þeir  tölfræðilegt mat á þessum heildaráhrifum sem benti til þess að þau gætu verið 25­-30% af landsframleiðslu. Skýrslur Hagfræði­ stofnunar „Sjávarútvegur sem grunnatvinnuvegur" (2003) og  „Hlutur sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum" (2007) hafa fjallað um svipuð efni og taka í svipaðan streng. Hliðstæðar mælingar á efnahagslegri þýðingu sjávarútvegs á Nýfundnalandi (Roy og fél. 2009) benda einnig í sömu átt.

Nýleg skýrsla Sjávarklasans, sem var vitnað til hér í síðustu grein, dregur þetta skýrar fram. Þar benda skýrsluhöfundar á að lítill vafi leiki á því að heildarumsvif sjávarklasans á Íslandi eru töluvert meiri en beint framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu gefur til kynna. Samfara aukningu í beinu framlagi veiða og vinnslu til hagkerfsins hefur óbeint framlag í formi verðmætasköpunar hjá stoðgreinum aukist í takt. Jafnframt má gera ráð fyrir að svonefnd eftirspurnaráhrif hafi glæðst og því má ætla að heildarframlag sjávarklasans til landsframleiðslu hafi verið rúm 27% á árinu 2011. Þetta er tala sem ekki verður horft framhjá en hvernig skyldi þetta vera fundið?

slor

36% af heildarveltu stjórnsýslu


Jú, ef hlutdeild sjávarútvegs í veltu stjórnsýslunnar, einkum og sér í lagi flokkurinn stjórnsýsla í þágu atvinnuvega, nemur hún tæpum 36% af heildarveltu hennar. Um 30% af heildarveltu í málmsmíði og viðgerðum má rekja til viðskipta við sjávarútveg. Ríflega 20% af flutningaþjónustu má rekja til sjávarútvegsins. Nánari útlistun má sjá í meðfylgjandi mynd sem tekin er upp úr áðurnefndri skýrslu Íslandsbanka.