c

Pistlar:

18. febrúar 2018 kl. 20:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bókadómur: Gunnar Birgisson – ævisaga

Gunnar I. Birgisson ætti ekki að þurfa að kynna fyrir neinum sem fylgst hefur með þjóðmálaumræðunni hér á Íslandi undanfarna áratugi. Hann hefur verið áberandi á vettvangi stjórnmála og ýmissa afskipta af félagsmálum. Óhætt er að segja að Gunnar hafi verið umdeildur vegna starfa sinna en um leið er hann forvitnilegur persónuleiki. Því má segja að það hafi verið vel til fundið að setja saman ævisögu hans en til verksins var fengin Orri Páll Ormarsson blaðamaður á Morgunblaðinu.Gunnar-Birgis-500x740

Að mörgu leyti hefur tekist vel til. Frásögnin er fjörleg og upplýsandi, ekki bara um ævi og störf Gunnars heldur ekki síður um margt það sem hefur verið að gerast í íslensku samfélagi undanfarna áratugi. Það er Gunnar sem talar og þetta er hans saga. Talsverðum tíma er varið í að rekja bernsku Gunnars og er fengur að þeim frásögnum. Í seinni hluta bókarinnar rekur hann samskipti við marga samferðamenn, nánast undir formerkjum palladóma og verða þá frásagnir fjörlegar en að sjálfsögðu umdeildar. Bókin er brotin upp með innskotsköflum sem ýmsir samferðamenn og ættingjar skrifa. Gaman var að lesa frásagnir þeirra Davíðs Oddssonar og Guðmundar Oddssonar en Guðmundur var líklega einn helsti pólitíski andstæðingur Gunnars í Kópavogi og gekk þá oft mikið á eins og kemur fram í bókinni. Þá eru frásagnir dætra Gunnars til að dýpa skilning á persónunni Gunnari og hvaðan hann kemur.

Ólst upp við lítil efni

Líf Gunnars Birgissonar hefur ekki verið neinn dans á rósum. Hann ólst upp við lítil efni og var hálfgerður einstæðingur; átti fjölda hálfsystkina og uppeldissystkina en var meira og minna á eigin vegum frá unglingsaldri. Agnes dóttir hans lýsir áhrifum þess með eftirfarandi hætti:

„Æska hans var margslungin og ég tel að hann hafi ekki náð að vinna úr mörgu sem hann fékk að reyna sem drengur og unglingur. Hann upplifði kærleik en hins vegar tel ég að hann hafi aldrei getað fest rætur sínar almennilega. … Hann átti engar rætur. Þess vegna skiptir fjölskyldan hann svona ofboðslega miklu máli.” (bls. 246)

Gunnars elst upp hjá afa sínum og ömmu í móðurætt, en móðir hans var ung að árum þegar hann fæddist. Faðir Gunnars siglir um heimsins höf og stoppar helst hér á landi til að geta börn. Gunnar á 15 hálfsystkini en engin alsystkini. Hann lýsir samskiptunum innan fjölskyldunnar af hreinskilni og væntumþykju, án beiskju. Lífið var ekki auðvelt en Gunnar telur að samfélagið hafi verið sterkt eins og þessi kafli sýnir:

„Þrátt fyrir mikla stéttaskiptingu var gott að búa í hverfinu og samheldnin mikil. Menn héldu hverjir utan um aðra og ætti einhver erfitt uppdráttar var hjálpast að. Enginn var skilinn eftir á vonarvöl. Væri einhver blankur reyndu aðrir að stinga einhverju að honum, eftir getu. Eftir á að hyggja var þetta félagsþjónusta þeirra daga. Þetta mótaði mig fyrir lífstíð og ég hef alltaf litið á það sem skyldu mína að hjálpa þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Fátækt getur stafað af slysum, veikindum, missi á fyrirvinnu, óreglu og öllu mögulegu. Því miður er þessi hugsun að miklu leyti horfin.

Það voru forréttindi að alast upp í þessu samfélagi.
Á þessum árum fólst virðing ekki síst í því að vera duglegur til handanna. Menn voru yfirleitt ekki mikið menntaðir en kunnu flestir eitthvað fyrir sér. Virðingarstiginn hjá almúganum var fólgin í verklagninni. Möguleikar fólks til að ganga menntaveginn jukust hratt eftir 1950 og á því græddi mín kynslóð. Svo um munaði.” (bls. 28)

Verkmaðurinn Gunnar

Í bókinni er lögð mikil áhersla á að Gunnar sé hamhleypa til verka og svo sem engin ástæða til að efast um það. Þannig vill Gunnar lýsa sjálfum sér og verkin eru sannarlega mörg. Merkilegt er að lesa lýsingar hans á því þegar hann braust til mennta og hægt er að taka undir að þegar hann fann fjölina sína sem verkfræðingur og síðar stjórnmálamaður hafi fátt orðið til að stöðvað hann. Rót unglingsáranna verður til þess að Gunnar lýkur ekki stúdentsprófi fyrr en 25 ára að aldri. Í framhaldi af því lýkur hann prófi í verkfræði og fer til náms erlendis. Hann lýkur M.Sc.-próf í byggingaverkfræði frá Heriot-Watt University í Edinborg 1978 og svo doktorspróf í jarðvegsverkfræði frá University of Missouri 1983. Samhliða náminu erlendis er Gunnar að vasast í verktakavinnu og kýs augljóslega að vera eigin herra. Hann rekur verktakaferil sinn með fyrirtækjunum Klæðningu og Gunnari og Guðmundi og stundum heldur maður að það séu fleiri klukkutímar í sólarhringnum hjá honum en öðrum.

Pólitík og palladómar

Alla jafnan talar Gunnar af sanngirni um fólk en það breytist þegar hann talar um suma er hann hefur átt í samskiptum út af pólitík. Þá stendur ekki á palladómum. Þeir eru svo sem gamall siður í íslenskum stjórnmálum og gera frásögnina vissulega fjöruga þó eðlilegt sé að setja þann fyrirvara að þarna er um frásögn Gunnars að ræða. Og hann á svosem inni nokkurn andmælarétt enda fáir stjórnmálamenn fengið aðrar eins gusur í gegnum tíðina. Gunnar hefur sjálfur lýst því svo að ástæða þess að hann steig úr víglínu stjórnmálanna hafi verið vegna fjölskyldu hans en Gunnar var ásakaður um óeðlileg afskipti af viðskiptum Kópavogsbæjar við fyrirtæki í eigu dóttur hans. Það mál og ýmis önnur mótuðu afstöðu margra til hans, með réttu eða röngu.

Í lok bókarinnar fjallar hann um störf sín sem bæjarstjóri Fjallabyggðar. Óvæntar sviptingar urðu til þess að hann var ráðinn þvert á flokkslínur. Ekki hefur heyrst annað en að vel hafi tekist til og Gunnar reynst sveitarfélaginu góður liðsauki á þeim uppgangstímum sem þar ríkja blessunarlega. Hugurinn er greinilega allur við uppbygginguna þar. Um það segir Gunnar:

„Fjallabyggð býr sig undir fólksfjölgun, bæði á Siglufirði og á Ólafsfirði, og skortur á lóðum mun ekki standa upp á bæjarfélagið. Það verður allt saman klárt þegar á þarf að halda. Húsunum hefur fjölgað hægt hægt á umliðnum árum en af fyrirspurnum að dæma er ekki langt í að það breytist. Við þurfum ekki að fara lengra en til Dalvíkur til að finna stað þar sem allar lóðir fara í hvelli. Útgerðarfélagið Samherji ber ríka ábyrgð á því. Það er mikil bjartsýni á Dalvík og vonandi smitast hún til okkar.

Helstu skilyrði fyrir því að þessi frægu göng gegnum Héðinsfjörð voru gerð var það að þessi tvö sveitarfélög myndu sameinast og um það var einhugur, beggja vegna ganganna. Sameiningin hefur að langmestu leyti gengið vel en hún breytir ekki því að það er ennþá talsverður rígur milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar sem fer gífurlega í taugarnar á mér. Ef maður setur 100 milljónir í eitthvað á Siglufirði er þess krafist að maður setji um leið 100 milljónir í eitthvað á Ólafsfirði. Ég hlusta ekki á svona lagað enda jafnast þetta alltaf út á endanum. Í dag þarf að eyða meiri peningum á Siglufirði en á Ólafsfirði á morgun. Nota þarf peningana þar sem þeirra er þörf og þeir koma flestum að gagni. Þetta er svo sem ekkert nýtt fyrir mér, það var líka hverfarígur í Kópavogi. Það er mest eldra fólkið sem nennir að standa í svona skkaki, yngra fólkið gefur ekkert fyrir þetta. Ætli það taki svona fimm til tíu ár að útrýma þessu að fullu og ekkert mun flýta meira fyrir því en aukning á atvinnutækifærum og fjölgun íbúa í Ólafsfirði. Um leið og lífsskilyrði fólks batna hættir það að öfundast út í fólk.” (bls. 268)

Þegar bókin var á lokametrunum veiktist Gunnar alvarlega en hefur náð sér bærilega að því er best er vitað. Hann lætur að því liggja að hugsanlega sé bæjarstjóravafstri hans að ljúka með kosningum í vor en þá hyggst hann hella sér út í eitthvað annað. Það er dálítið í takt við þennan mikla framkvæmdamann.

Gunnar Birgisson – ævisaga
Höfundur: Orri Páll Ormarsson
Útgefandi: Veröld
272 bls.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.