c

Pistlar:

28. febrúar 2018 kl. 23:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Selfoss - bærinn við brúna

Hrökk við fyrir stuttu þegar sjónvarpsmaðurinn kunni Egill Helgason sagði að Selfoss væri „sögulítill" bær enda alinn þar upp í miðju söguleysinu ef svo má segja. Hef reyndar stundum sagt að það að búa á Selfossi á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar hafi verið eins og að vera hluti af sögusviði American Graffiti kvikmyndarinnar sem ég sá einmitt í Selfossbíói, líklega 1974. Myndin gerði George Lucas frægan en hún fjallaði um ungt rótlaust fólk sem keyrði um í stórum bílum, amerískum að sjálfsögðu. Svolítið eins og sveitaballastemmningin á Suðurlandi á þessum tíma.

Ölfusárbrú við Selfoss var vígð 8. september 1891 og markaði án efa upphaf byggðar við Selfoss þó allmargir áratugir liðu áður en hús fóru að rísa þar að einhverju marki. Þjórsá var brúuð um svipað leyti og var það mikið átak fyrir fátæka þjóð að ráðast í tvö slík stórvirki á sama tíma en brýr voru þá nánast óþekktar hér á landi. Hvað þá að stórfljótin væru brúuð. En öfugt við Þjórsá þá varð til byggð í kringum brúna við Ölfusá. Tryggvaskáli reis og kenndur við Tryggva Gunnarsson ráðherra og Landsbankastjóra. Síðar setti Tryggvi útibú frá bankanum í skálann. Útibússtjóri var Eiríkur Einarsson skáld og síðar alþingsmaður frá Hæli. Tryggvaskáli var ekki vel einangrað hús og þótti vistin þar köld frostaveturinn 1918. Um það orti Eiríkur:

Þetta hús er þrotlaus göng
þytgátt norðanbála.
Koma munu köld og löng
kvöld í Tryggvaskála

Brúin varð þannig örlagavaldur fyrir byggðaþróun á Suðurlandi og þó hún hafi hrunið 1944 og núverandi brú byggð þá hefur Ölfusárbrú staðið sína plikt þó hún anni varla umferðinni í dag. En nú er komið að tímamótum sem munu skipta máli en ný brú fyrir utan bæinn felur í sér að hugsa þarf byggðaþróun upp á nýtt.

Komið hefur fram að ný brú yfir Ölfusá verður eftirtektarvert mannvirki eða stagbrú með sextíu metra háum turni. Nýja Ölfusárbrúin mun fara yfir efri Laugardalaeyju út í Ölfusá. Öll umferð eftir þjóðvegi eitt verður þar af leiðandi leidd framhjá bænum. Á síðasta ári birtust tölur sem sögðu að nýja brúin mun kosta um fimm milljarða króna. Brúnni er þannig ætlað að létta á umferð á núverandi brú sem í framhaldi þess mun fyrst og fremst þjóna umferð innanbæjar.selfoss

Breyttar þarfir á Selfossi

Fyrir vikið verður Selfoss ekki lengur gegnumstreymisbær („drive-through”) þar sem vegasjoppur og Bónus-verslanir keppast við tefja fyrir vegfarendum. Bærinn verður að skapa sér sérstöðu og hafa eitthvað fram að færa sem getur fangað athygli ferðamanna. Um leið er ljóst að sú mikla fjölgun sem er í bænum um þessar mundir kallar á nýja þjónustu og aukna eftirspurn eftir afþreyingu.

En aftur að sögu bæjarins. Selfoss þróaðist í gegnum samstarf Egils Thorarensen kaupfélagsstjóra og Kristins Vigfússonar staðarsmiðs. Kaupfélag Árnesinga undir stjórn Egils var stórhuga og það ásamt Mjólkurbúi Flóamanna skapaði það atvinnulíf sem efldi bæinn sem þjónustumiðstöð fyrir nærsveitirnar. Síðar varð Fjölbrautaskóli Suðurlands að nýju hryggjarstykki í atvinnulífinu og breytti bæjarbragnum verulega þó sá er þetta skrifar hafi verið horfin á braut um það leyti. Upp úr 1990 byrjaði að fjara undan kaupfélaginu eins og öðrum samvinnurekstri í landinu. Þrátt fyrir nokkrar tilraunir til að snúa rekstrinum við - meðal annars með því að leita upp ný viðskiptamódel, varð það að láta undan. En þrátt fyrir þessar breytingar var alltaf eins og sjálfsmynd bæjarbúa væri í biðstöðu. Selfyssingar virtust ekki vita með vissu fyrir hvað þeir stóðu og aðrir hentu gaman að því að þeir væru helst í því að þjónusta hvorn annan! Svona eins og nútímasamfélagið gengur út á getum við sagt í dag. Aðrir urðu til að sjá bæinn í nýju ljósi:

Verðug fyrirmynd

„Með 4321 íbúa getur Selfoss ekki talizt til stærri bæja landsins. En allir íslenzkir bæir, stórir og smáir, geta fundið á Selfossi verðuga fyrirmynd. Þar hefur tekizt með góðu skipulagi, ágætum nýjum byggingum og áherzlu á trjárækt að mynda fallegt umhverfi og um leið meiri borgarbrag en venjulega sést í bæjum af þessari stærð.” Þannig skrifaði Gísli Sigurðsson, ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins 19. september 1998, sama ár og Frakkar urðu heimsmeistarar í knattspyrnu í fyrsta sinn! Gísli var hrifinn af Selfossi en hann skrifaði meira en aðrir um arkitektúr á sínum tíma, listmálari og fagurkeri.

Það sem Gísli virðist hafa verið hrifnastur af, er að það mátti finna marga stíla og margir arkitektar hafa lagt sitt af mörkum á Selfossi. Fyrstan ber líklega að nefna Halldór H. Jónsson, betur þekktur sem stjórnarformaður Íslands í eina tíð, en hann teiknaði Kaupfélagshúsið sem nú er nokkurskonar ráðhús bæjarins. Gunnlaugur Halldórsson arkitekt teiknaði á sínum tíma Selfossbíó ásamt gildaskála; hús sem brotið var niður 1986 eftir að hafa verið óborganleg sviðsmynd í Stuðmannamyndinni frægu, Með allt á hreinu. Síðan teiknaði Sigurður Thoroddsen arkitekt stóra hótelbyggingu á sama stað en ég naut þess heiðurs að koma að járnabindingu í kjallara þess húss en bygging þess stóð lengur en dæmi eru um á Íslandi og er varla lokið ennþá! Lítið eitt vestar, á stað sem blasir við af Ölfusárbrú, stendur Selfosskirkja, eitt stærsta og besta verk Bjarna Pálssonar, tæknifræðings frá Hlíð í Gnúpverjahreppi, segir Gísli. Bjarni var lengi skólastjóri Iðnskólans á Selfossi og byggingarfulltrúi bæjarins um árabil og teiknaði fjölmörg hús á Selfossi.

Þá er ógetið Fjölbrautaskólans sem sem dr. Maggi Jónsson arkitekt teiknaði og hefur ekki síst vakið athygli fyrir glugga sem að líkindum er sá stærsti á landi hér. Gísli segir að þar megi sjá glæsilegt dæmi um nútímalegan arkitektúr og hann segir það miður að þetta hús, ein af lykilbyggingum í bænum, skuli ekki sjást frá alfaraleiðinni.

Bæjarbúum fjölgar hratt á Selfossi þessi misserin en á þessu ári fagnar Selfoss 40 ára kaupstaðaréttindum og dylst engum að spennandi tímar eru framundan í þessum ágæta bæ með svo mikla sögu. 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.