c

Pistlar:

21. apríl 2018 kl. 11:54

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sósíalískt ættarveldi á Kúbu

Nánast strax við valdatöku bolsévika í hinum nýju Sovétríkjum varð til það sem kallað var Nomenklatúra, eða forréttindastétt. Það er sammerkt flestum sósíalískum ríkjum síðan að fljótlega verður til ákveðið verklagi við að færa vald á milli manna og kynslóða. Þetta verklag á ekkert skylt við lýðræði. Þannig verða til listar yfir stöður í ríkisstjórn og ráðum eða hinu sósíalíska skrifræðiskerfi sem útheimta formlega útnefningu. Jafnframt verða til hliðarlista yfir fólk sem gæti átt rétt á að færast upp í þessar æðri valdastöður. Þannig hefur alltaf orðið til ný valdastétt undir verndarvæng sósíalismans, hvar sem menn hafa stýrt í hans nafni. Í nýrri mynd um dauða Stalíns erum við líka minnt á að það eru til fleiri tegundir af listum og á sumum þeirra vill engin vera.

Þetta allt saman skýrir ágætlega valdaskipti á Kúbu þar sem hin 86 ára gamli Raul Castro hefur ákveðið að afhenda Miguel Mario Diaz-Canel Bermudez forsetaembættið en Mario Diaz er 30 árum yngri en Raul. Ekki er kosið um starfið og Raul heldur áfram um valdataumanna innan Kommúnistaflokks Kúbu en formaður flokksins er áfram valdamesti maður landsins. En hér er samt um að ræða nokkra breytingu þar sem Castro-ættin hefur ráðið Kúbu í næstum 60 ár í nafni sósíalismans. Almennt eiga fréttaskýrendur ekki vona á miklum breytingum í landi þar sem einn flokkur er leyfður. Hér fylgir með mynd af Castro bræðrunum.castro

Um nokkurt skeið ferðuðust margir til Kúbu til að upplifa landið áður en Fidel Castro félli frá. Væntanlega með það í huga að einhverjar breytingar yrðu í kjölfarið. En nú er augljóst að sósíalistar ætla ekki að gefa frá sér völdin og því alsendis óvíst að nokkrar breytingar verði á efnahag landsins.

Land stöðnunar

En hvað hefur breyst í atvinnu- og efnahagsmálum Kúbu á þeim tíma sem sósíalistar hafa verið við völd? Í landinu búa tæpar 12 milljónir manna og þeir sem koma þangað segja að auðvelt sé að falla fyrir fólkinu og mannlífinu. En efnahagurinn er ekki góðir. Tveir þriðju vinnuafls starfar hjá hinu opinbera og meðallaun eru um 30 Bandaríkjadalir á mánuði eða um 3000 krónur. Allt síðan 2006 hafa hin sósíalísku stjórnvöld á Kúbu reynt að koma hreyfingu á efnahaginn og jafnvel gengið svo langt að leyfa smá einkaframtak. Það hefur hins vegar gengið hægt að koma hlutunum af stað en skrifræðið minnir á Sovétríkin sálugu enda kerfið að mestu leyti komið þaðan.

Stöðnun hefur ríkt á Kúbu allan valdatíma sósíalista. Varla hefur verið gert við hús í Havana í 60 ár. Bílaflotinn er á líkum aldri og þó að það geti verið heillandi að sjá gömlu jálkana þá eru þeir ekki beinlínis að uppfylla nýjustu mengunarkvaðir.

Sósíalísk fiskveiðistefna

Miðstýring efnahagslífsins er eyðileggjandi. Ágæt dæmi er fiskiðnaðurinn á Kúbu. Um líkt leyti og Íslendingar voru að festa kvótakerfið í sessi með góðum árangri var sjávarútvegurinn að hrynja á Kúbu. Hann byggðist á stórum togurum og verksmiðjuskipum sem sigldu til fjarlægra miða og ryksuguðu upp fiskistofna að sovéskri fyrirmynd. Þessi fiskiðnaður var í ætt við annað í hinu sósíalíska kerfi, miðstýrður og byggði á rányrkju. Fiskiskipin veiddu ekki einu sinni tegundir sem Kúbverjar vildu borða, að mestu síld og makríl og aðrar uppsjávartegundir. Fiskiskipastólinn var háður olíu og þegar Sovétríkin hrundu upp úr 1991 þá hvarf allur stuðningur þaðan. Ekki var lengur grundvöllur fyrir veiðunum og ríkisrekin sjávarútvegur Kúbverja lagðist af. Frá gamalli tíð hafa heimamenn reynt að veiða heitsjávarfiska og rækjur á litlum strandveiðibátum en kerfið ýtti ekki beinlínis undir sjálfstæða stétt fiskimanna. Þar að auki hefur gengið illa að koma að sjónarmiðum og þörfum neytenda sem vilja gjarnan borða annað en sósíalíska framboðið’ segir til um.

Hungur og fólksflótti

En það var ekki bara fiskiðnaðurinn sem hrundi með falli kommúnismans í Sovétríkjunum. Olía hætti að berast og Sovétmenn hættu að kaupa sykuruppskeru Kúbverja á yfirverði. Þetta var gríðarlegt áfall fyrir efnahag á Kúbu og framan af tíunda áratug síðustu aldar þurfti að skammta mat og aðrar nauðsynjar. Fólk fékk að kynnast hungri með nýjum hætti. Þetta gekk svo langt að sumarið 1994 urðu miklar óeirðir í Havana í fyrsta skipti frá 1959. Fólk reyndi umvörpum að yfirgefa landið á flekum (balsas) og komast til Flórída. Lögreglan brást við með að reyna að stöðva flóttafólkið og Castro lét herinn kasta sandpokum úr þyrlum á flekana úti á rúmsjó. Talið er að um sjö þúsund manns hafi tínt lífi sumarið 1994 við það að reyna að flýja. Haft var eftir Fidel Castro við þetta tilefni að; „hann myndi fremur láta lífið en gefast upp á byltingunni.” Auðvitað þurfti hann ekki að líða hungur frekar en aðrir í Nomenklaturunni. Á þrjátíu árum hafa um eitt hundrað þúsund manns reynt að flýja sósíalismann á Kúbu sjóleiðina. Niðurstaðan er að tvær milljónir Kúbverja lifa nú í útlegð, flestir í Bandaríkjunum.

Læknar fyrir olíu

Þegar sósíalistar komust til valda í Venesúela 1999 með valdatöku Hugo Chávez fengu Kúbverjar aftur stuðning erlendis frá. Hugo Chávez dýrkaði Castró og dældi peningum og olíu til Kúbu. Átak var gert í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í Venesúela með aðstoð Kúbverja samkvæmt átakinu olía fyrir lækna (e. oil for doctors). Er talið að allt að tuttugu þúsund kúbverskir heilbrigðisstarfsmenn (læknar, tannlæknar og hjúkrunarfræðingar) hafi verið um tíma í Venesúela eða um 20% af öllum heilbrigðisstarfsmönnum sem þá voru til á Kúbu. Þarfir fólks á Kúbu réðu þessu ekki og ekki heldur óskir heilbrigðisstarfsmannanna sem voru fluttir nánast gripaflutningum milli landa. En í staðinn fyrir lækna fékk Kúba þá olíu sem landið þurfti eftir að Sovétríkin hættu að sjá þeim fyrir olíu. Hefur verið metið að þessi samningur hafi verið ígildi 3 milljarða Bandaríkjadala á ári og hallaði mjög á Venesúela. Hér hefði jafnvel einhver notað orð eins og mansal en sjálfsagt hafa kúbverskir heilbrigðisstarfsmenn stundum haft aðrar hugmyndir um frama sinn en að selja starfskrafta sína fyrir olíu í öðru landi. Reyndar er það svo að margir læknanna kvörtuðu yfir aðbúnaði og aðstöðu í Venesúela og ekki síður því að kúbverska ríkið hirti megnið af ábata starfsins í gegnum áðurgreind olíuviðskipti. Ágæt samstarf hefur ríkt milli Raul Castro og Maduro, forseta Venesúela, eins og myndin sýnir.maduro og r

Á tímabili var það vinsælt hjá íslenskum menntamönnum að fara til Kúbu og vinna við sykuruppskeru og anda að sér byltingarandanum. Rómantískur blær var yfir þessu. Staðreyndin er sú að líklega hafa sumir þeirra starfað við hlið pólitískra fanga sem unnu nauðugir á sykurekrunum. Árið 1978 voru 15 til 20 þúsund pólitískir fangar á Kúbu samkvæmt Svartbók kommúnismans sem kom út í íslenskri þýðingu 2009. Þar er bent á að frá 1959 fram á lok tíunda áratugar urðu 100 þúsund manns á Kúbu að sæta vistun í vinnubúðum, fangelsum eða undir opinni gæslu. Um 15 til 17 þúsund voru skotnir. Sósíalistastjórnin á Kúbu er ekki sú blóðugasta sem ríkt hefur í anda hugmyndafræðinnar en það er ástæðulaust að gleyma fórnarlömbum hennar.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.