c

Pistlar:

31. maí 2018 kl. 20:40

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hagvöxtur og ferðamenn

Hlutur ferðaþjónustunnar í efnahagslífi landsins er orðin þannig að flestum er nauðsynlegt að fylgjast með þróuninni þar til að átta sig á breytingum í hagkerfinu. Breytingar á fjölda ferðamanna, minni nýting hótelherbergja og samdráttur í fjárfestingu vegna ferðaþjónustunnar eru fréttir sem skipta okkur miklu máli.

Þannig er ferðaþjónustan orðin lykilþáttur í greiningu þeirra sem spá um framvindu markaða og hagkerfisins hér á landi. Það sést best í nýrri hagspá hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir að hægja muni á hag­vexti á Íslandi sam­hliða aðlög­un­ar­tíma­bili í ferðaþjón­ustu. Kannski ekki óvænt ályktun en við getum huggað okkur við að deild­in tel­ur ekki þörf fyr­ir neina sér­staka aðlög­un eða að hag­kerf­ið sé að fara að lenda illa.ferda

Hrun eða brostnar væntingar

Um langt skeið hafa heyrst raddir sem spá hruni í ferðaþjónustunni. Á móti má spyrja hvernig lítur það hrun út? Er það hrun ef fjölgun ferðamanna er ekki nema 5% milli ára? Þegar ferðamannafjöldinn er komin yfir tvær milljónir á ári, þá er það þó fjölgun ferðamanna um sem nemur 50 þúsund! Eða er það hrun ef fjöldinn stendur í stað? Já, það eru sannarlega viðbrigði eftir að hafa upplifað 20 til 40 prósenta árlega aukningu lengi. En það er ekki ástand sem veldur hruni. Væntingar margar geta hins vegar orðið fyrir skaða. Líklega ættu margir að endurskoða áform sín um ný hótel eða ný þjónustufyrirtæki. Að minnsta kosti um sinn.

Í upp­færðri spá hagdeildar Landsbankans kem­ur fram að efna­hags­ástandið hér á landi sé á flesta mæli­kv­arða mjög gott. Er því spáð að hag­vöxt­ur á þessu ári verði 4,1 prósent sem er yfir sögu­legu meðaltali hér á landi. Árin 2019 og 2020 hægi hins veg­ar all­nokkuð á hag­vexti og verði hann und­ir sögu­legu lang­tímameðaltali, eða um 2,4 prósent bæði árin.

Spá­in ger­ir ráð fyr­ir lít­ils­hátt­ar fjölg­un ferðamanna á næstu árum en ef ferðamönn­um fækk­ar næstu miss­eri í stað þess að fjölga myndi það að öðru óbreyttu draga tals­vert úr hag­vexti í gegn­um minni út­flutn­ing, minni einka­neyslu og minni fjár­fest­ingu. „Upp­sveifl­unni í ferðaþjón­ustu er lokið og gera má ráð fyr­ir hæg­ari og sjálf­bær­ari vexti grein­ar­inn­ar,“ seg­ir í sam­an­tekt hagfræðideildar Landsbankans um þjóðhags­spána.

Bjargar HM málum?

En landkynning getur verið málið - auglýsa betur. Greiningardeild Arion banka benti á það í vikunni að björgun gæti komið úr óvæntri átt. Hugsanlega bjargar HM málum en eins og margir muna jók EM í Frakklandi og árangur Íslendinga þar mjög á ferðamannastrauminn. En hvaða efnahagslegu áhrif hefur aukinn áhugi á Íslandi? Jú, greiningardeild Arion-banka telur að aukin umfjöllun geti leitt til aukins ferðamannastraums til landsins, en þó með einhverri töf. Aukinn straumur ferðamanna leiðir svo til aukinna tekna fyrir þjóðarbúið, jákvæðari þjónustujafnaðar og þar af leiðandi meiri viðskiptaafgangs að öllu öðru óbreyttu. Þetta er þó sett fram með eðlilegum fyrirvörum.

En þetta bendir á þá einföldu staðreynd að stundum hefur landkynning komið óvænt upp í hendur okkar en nú í framtíðinni þurfum við líklega að hafa meira fyrir hlutunum. Það er það sem er líklega að fara að gerast í ferðaþjónustunni, tími áhugamennskunnar er liðin, nú reynir á menn í alvöru. Fagmennskan mun ráða úrslitum um hvernig okkur mun farnast næstu ár.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.