c

Pistlar:

11. júlí 2018 kl. 22:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Réttmæt gagnrýni hjá Trump?

Donald Trump Bandaríkjaforseta virðist einkar lagið að strjúka vinaþjóðum öfugt og seta hlutina í annað samhengi en menn áttu von á. Það sannaðist á morgunverðarfundi hans með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Nató, í morgun. Stoltenberg og meðreiðarsveinar hans héldu kannski að þeir væru mættir í bandaríska sendiráðið (þar fór fundurinn fram) til að spjalla. Öðru nær. Trump hjólaði strax í Nató toppanna og spurði af hverju Bandaríkjamenn ættu að verja milljörðum á milljörðum ofan í að vernda Evrópu fyrir Rússum þegar þeir væru nánast búnir að gefast upp fyrir þeim í orkumálum! Benti Trump á að Þjóðverjar verðu milljörðum á milljarða ofan í að kaupa gas af Rússum sem þeir ætluðust síðan til að Bandaríkjamenn vernduðu þá fyrir. Í ofanálag þá hefði fyrrverandi kanslari Þjóðverja tekið að sér að verja viðskiptahagsmuni Rússa í málinu. Þegar Stoltenberg reyndi að malda í móinn og benda á að meira að segja á tímum kalda stríðsins hefðu ríki Vestur-Evrópu reynt að eiga viðskipti við Sovétríkin. Já, sagði Trump, viðskipti eru í lagi en að selja sjálfstæði sitt í orkumálum með þessum hætti er önnur saga. Þegar þar var komið sögu voru fréttamenn sendir út af morgunverðarfundinum. Augljóst var að þetta var allt planað hjá Trump. Hann var mættur til að verja hagsmuni bandarískra skattgreiðenda og þeir fengu skilmerkilega sýningu á því.

„Við verjum Þýskaland, við verjum Frakkland, við verjum öll þessi lönd. Og þá fara mörg þessara landa og gera samninga við Rússland um gasleiðslur þar sem þeir borga milljarða dollara í kistur Rússlands,” sagði Trump í morgun en hann hélt því fram að 70% af orkuþörf Þjóðverja yrði mætt með þessum gasleiðslum. Líklega er þetta réttmæt gagnrýni hjá Trump og afhjúpar tvískinnung ráðamanna í Vestur-Evrópu. Meira að segja Guardian tók undir það í morgun og sagði að Trump væri að spyrja réttra spurninga. Nú er það svo að Nató hefur alltaf lagt mikla áherslu á að skilja á milli öryggis- og viðskiptahagsmuna. Hvort það er raunhæft skal ósagt látið en Trump virðist í það minnsta ekki kaupa þannig nálgun. Um leið spyr hann að því hvort það gangi upp að afhenda Rússum sjálfstæði sitt í orkumálum? Oft ratast kjöftugum satt orð á munn.

Fyrir nokkrum árum síðan ákvað Angela Merkel, Þýskalandskanslari, að loka fyrir kjarnorkuver í Þýskalandi. Það var eftir gríðarlegra mótmæli sem urðu meðal annars í kjölfar bruna Fukushima kjarnorkuversins í Japan. Slysið átti sér stað fyrir sjö árum og enn er að streyma geislavirkni frá verinu. Þjóðverjar ákváðu í kjölfarið að söðla um en enduðu á því að treysta á rússneskt gas. Ábyggilega ekki það sem Merkel ætlaði sér enda vitað að hún hvorki treystir né þolir Vladimir Pútin og hunda hans!

Rússneskt gas flæðir vestur

Þó að sól og vindur skili miklu á sumum dögum í Þýskalandi þá er það ekki orka sem er hægt að treysta á. Þá kemur til gas frá Rússlandi. Eins og meðfylgjandi mynd sýnir þá er nú þegar í notkun Nord Stream 1 leiðslan og Nord Stream 2 leiðsla er á leiðinni. Er gert ráð fyrir að lagningu hennar verði lokið árið 2020. Hún mun tvöfalda það magn af rússneska gasi sem hægt er að flytja beint til Þýskalands yfir Eystrasaltið. Verkefnið hefur kallað á gagnrýni í Póllandi, Úkraínu og öðrum löndum í Mið- og Austur-Evrópu, sem óttast að Nord Stream 2 leiðsla muni gera þeirra eigin austur-vestur leiðslur óþarfar og skilja löndin eftir berskjölduð fyrir enn meiri pólitískum og efnahagslegum þrýstingi frá Rússlandi.gas

Þýskir embættismenn halda því fram að leiðslan, sem kostar 9,5 milljarða evra, sé einkafyrirtæki sem ekki byggi á fjármögnun ríkisstjórnarinnar. Um leið hefur Angela Merkel lýst því yfir að Berlín hyggist varðveita stöðu Úkraínu sem flutningsland fyrir rússneskt gas - jafnvel þó að magið falli verulega þegar Nord Stream 2 fer í notkun. Merkel lofar og lofar en auknar efasemdir eru um að hún geti staðið við þetta. Orð Trump afhjúpa það kannski enn betur. Hvað gerist þegar hann hittir Pútín í Helsinki á mánudaginn verður spennandi að sjá.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.