c

Pistlar:

22. október 2018 kl. 16:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Eystrasaltslöndin - fullveldi betra en ESB aðild?

Staða Íslands og tengsl við umheiminn er til stöðugrar skoðunar og hugsanlega áhugaverðara að gera það nú á 100 ára afmæli fullveldisins en oft áður. Alþjóðleg samskipti eru okkur Íslendingum mikilvæg, bæði á sviði efnahags-, öryggis-, menningar- og stjórnmála. Hvernig þessum samskiptum er háttað er hluti af stöðugri umræðu, einfaldlega vegna þess að umheimurinn breytist og hagsmunir okkar líka.hilmar-ny-bok

Í Morgunblaðinu í dag er forvitnilegt viðtal við Hilm­ar Þór Hilm­ars­son, pró­fess­or við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri. Hann er höf­und­ur nýrr­ar bók­ar sem virðist geta nýst okkur Íslendingum þegar við ræðum alþjóðleg samskipti landsins. Bókin heitir: The Economic Cris­is and its Af­term­ath in the Nordic and Baltic Countries: Do as We Say and Not as We Do, og er gef­in út af Rout­led­ge forlaginu. Þar er meðal annars farið yfir það þegar Eystra­saltslönd­in tók­ust á við af­leiðing­ar alþjóðlegu fjár­málakrepp­unn­ar 2008. Þar kemur fram að þau höfðu ekkert val um að fella eigið gengi og voru beitt þrýst­ingi til að leysa fjár­mála­geir­ann úr snör­unni á kostnað al­menn­ings. Þannig dregur bókin fram að þegar efna­hags­áföll dynja á virðist það smá­um þjóðum ekki endi­lega til gagns að vera und­ir vernd­ar­væng stærri þjóða og ríkja­sam­banda. Hugsanlega hefði fullveldið gagnast þeim betur en Evrópusambandsaðild? Nú er það reyndar svo að þessi lönd sóttust eftir aðild að Evrópusambandinu af tvennum ástæðum: Annars vegar hreinum og klárum öryggishagsmunum en samskiptin við Rússa eru sögulega mjög erfið og hins vegar til þess að fá nýtt og nothæft stofnanakerfi. Sovéska kerfið, sem var troðið upp á Austur-Evrópuþjóðirnar, var auðvitað handónýtt. En niðurstaða Hilmars er athyglisverð:

„Lönd með sveigj­an­legri efna­hags­stefnu – þ.e. sjálf­stæðan gjald­miðil og meira frelsi í rík­is­út­gjöld­um – geta vænst þess að ná meiri ár­angri en lönd sem tekið hafa upp evr­una og þurfa að beita miklu aðhaldi í rík­is­fjár­mál­um sam­kvæmt forskrift mynt­banda­lags­ins,“ seg­ir hann í Morgunblaðsviðtalinu. „Fast­geng­is­stefna sam­hliða mikl­um niður­skurði í rík­is­fjár­mál­um er held­ur ekki lík­leg til að leiða til mik­ils hag­vaxt­ar, sér í lagi í hjá ný­markaðsríkj­um eins og Eystra­salts­ríkj­un­um.“

Er­lent fjár­magn blés upp banka- og fast­eigna­bólu

Í bók­inni ber Hilm­ar sam­an hvernig Norður­lönd­in og Eystra­salts­rík­in hafa tek­ist á við fjár­málakrepp­ur og skoðar hann meðal annars bankakrepp­una í Finn­landi og Svíþjóð 1992 og af­leiðing­ar alþjóðlegu fjár­málakrepp­unn­ar í Eystra­salti 2008.

„Á Norður­lönd­un­um var varla, að Íslandi und­an­skildu, hægt að tala um al­var­lega kreppu árið 2008 og helst í Finn­landi að sam­drátt­ur­inn hafi orðið ögn skarp­ari. Er rétt­ara að tala um skamm­vinna niður­sveiflu hjá Nor­egi, Dan­mörku, Svíþjóð og Finn­landi á meðan Eystra­salts­rík­in glímdu við mun al­var­legra áfall enda hafði hag­vöxt­ur­inn þar árin fyr­ir hrun einkum verið drif­inn áfram af er­lendu fjár­magni, aðallega frá Norður­lönd­un­um, sem streymdi inn í banka­geir­ann og kynti und­ir banka- og fast­eigna­bólu.“

Að sögn Hilm­ars flækti það stöðu Eystra­salts­ríkj­anna að efna­hags­stefna þeirra hafði byggt á að reyna að laða að er­lenda fjár­festa með lág­um skött­um, litlu reglu­verki og smáu fé­lags­legu kerfi. Þegar höggið kom hafi úrræði stjórn­valda verið fá og eng­ir góðir val­kost­ir í boði. „Sænsk­ir aðilar höfðu verið dug­leg­ast­ir að fjár­festa í banka­geir­um land­anna og var til dæmis for­sæt­is­ráðherra Lett­lands boðaður til fund­ar á Arlanda-flug­velli þar sem sænski fjár­málaráðherr­ann lagði hon­um lín­urn­ar um hvernig ætti að bregðast við fjár­mála­hrun­inu.“ Þetta hefur verið niðurlægjandi fyrir Letta en sýnir í hvaða stöðu þeir voru. Í fjármálakreppum eiga menn fáa vini, þar snýst allt um hagsmuni. Því kynntumst við Íslendingar.

ESB og Sví­ar leyfðu ekki geng­is­fell­ingu

Í grein Morgunblaðsins kemur fram að Eystra­saltslönd­in, sem nota evr­una í dag, höfðu á þess­um tíma tengt gjald­miðla sína við evr­ópska gjald­miðil­inn. Bendir Hilm­ar á að hug­mynd þarlendra stjórn­mála­manna hafi meðal ann­ars verið sú að með því að eiga í sem nán­ustu sam­bandi við Evrópusambandið yrðu Eist­land, Lett­land og Lit­há­en bet­ur var­in gegn mögu­leg­um yf­ir­gangi Rússa og bet­ur stödd í fé­lags­skap stórþjóða Evr­ópu en ein og af­skipt. Þegar á reyndi hafi hins veg­ar tak­mörkuð efna­hagsaðstoð verið veitt og vinaþjóðirn­ar jafn­vel gert þeim erfiðara fyr­ir. Er þetta ekki kunnuglegt stef fyrir okkur Íslendinga? Þegar á reyndi var auðveldara að takast á við stofnanahugsun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en vini okkar á Norðurlöndunum.

„Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn lagði til 15% geng­is­fell­ingu í Lett­landi en því hafnaði ESB sem og Sví­ar sem eiga að mestu banka­kerfi Lett­lands, og raun­ar banka­kerfi allra Eystra­salts­ríkj­anna,“ út­skýr­ir Hilm­ar í viðtalinu. „Annað var uppi á ten­ingn­um í sænsku og finnsku fjár­málakrepp­un­um 1992 en þá felldu stjórn­völd gengið til að bæta sam­keppn­is­hæfni at­vinnu­lífs­ins og réðust ekki í neinn niður­skurð á vel­ferðarker­inu svo nokkru næmi ef borið er sam­an við það sem gert var í Eystra­salts­ríkj­un­um 2008. Svipað sjá­um við ger­ast á Íslandi 2008 þegar gengið hryn­ur og fyr­ir vikið að staða út­flutn­ings­greina batn­ar og mik­ill upp­gang­ur verður í ferðaþjón­ustu.“

Voru lengur að jafna sig

Útkom­an úr aðgerðunum 2008 varð sú að efna­hag­ur Eystra­salts­ríkj­anna var leng­ur að jafna sig og lífs­kjör al­menn­ings versnuðu mikið. Ástandið jók enn frek­ar á fólks­flótta frá lönd­un­um þrem­ur og telur Hilmar að sú staða sé núna kom­in upp að Eystra­salts­rík­in séu í víta­hring þar sem unga og vel menntaða fólkið sem gæti eflt hag­kerfið leit­ar út í heim eft­ir betri tæki­fær­um og aukn­um lífs­gæðum.

Seg­ir Hilm­ar að fólks­flótt­inn hafi verið svo mik­ill að töl­ur um að at­vinnu­leysi sé á niður­leið gefi ranga mynd því í stað þess að mæla göt­urn­ar heima fyr­ir taki unga og menntaða fóll­kið stefn­una á Þýska­land, Skandi­nav­íu og Bret­land þar sem betri tæki­færi bjóðast. „Hag­vöxt­ur í Eystra­salts­ríkj­un­um hef­ur líka verið hæg­ur eft­ir hrun og hag­vöxt­ur á mann kann að vera of­met­inn því ungt menntað fólk flýr þessi lönd í mörg­um til­vik­um eft­ir út­skrift úr há­skóla frek­ar en að fara á vinnu­markaðinn.“

Hér hefur í pistlum verið talsvert fjallað um Eistland sem líklega það Eystrasaltsríkjanna sem hefur farnast best. Þar er háð mikil barátta við að halda unga fólkinu, meðal annars á kostnað þeirra eldri. Rétt eins og Íslendingar halda þeir upp á 100 ára fullveldi sitt á þessu ári, táknrænt fremur en nákvæmt þar sem lengstan hluta tímans voru þeir undir valdi sovétkommúnismans.

Svíþjóð og ESB skulda þeim aðstoð

Spurður hvað Eystra­saltslönd­in ættu til bragðs að taka seg­ir Hilm­ar að þessi ríki, og önn­ur smáríki, mættu gæta sín á að vera harðari í sam­skipt­um sín­um við stærri ríki og ríkja­sam­bönd eins til dæmis Evrópusambandið. Lokaorð Hilmars í viðtalinu eru athyglisverð: „Ég held að bæði Svíþjóð og Evr­ópu­sam­bandið skuldi þess­um lönd­um miklu meiri aðstoð og að eðli­legt væri að láta rann­sókn fara fram á því hvernig sam­skipt­un­um við ESB og sænsk stjórn­völd var háttað í fjár­málakrepp­unni. Væri líka æski­legt að ráðast í breyt­ing­ar á skatt­kerf­um Eystra­salts­ríkj­anna með það að mark­miði að þeir sem hafa efni á því borgi meira í sam­eig­in­lega sjóði og axli hlut­falls­lega þyngri byrðar svo að svig­rúm skap­ist til að efla mennta- og heil­brigðis­kerfið, létta byrgðum af þeim sem hafa úr minnstu að moða og búa til mann­vænna sam­fé­lag sem von­andi verður til þess að lönd­in missi færra ungt hæfi­leika­fólk til rík­ari landa.“

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.