c

Pistlar:

20. nóvember 2018 kl. 21:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hinir einu sönnu já-menn

Þessi pistill á ekki að fjalla um orkupakka þrjú enda ærið margir sem leggja þar orð í belg. Hann fjallar kannski meira um umræðuna um pakkann og hvernig menn nálgast ákvörðun eins og þá sem er verið að ýta að Íslendingum núna. Fyrir þá sem styðja Evrópusambandið og vilja helst vera aðilar að því virðist þessi ákvörðun vera jafn einföld og allar aðrar ákvarðanir sem varða Evrópusambandið; þeir eru tilbúnir að skrifa undir um leið og pappírinn kemur. Með glöðu geði, fullkomlega sáttir að því er virðist. Sumir vildu gjarnan fá að selja slíku fólki notaðan bíl eða jafnvel bara fara í hnífakaup við það. Þessir stuðningsmenn Evrópusambandsins virðast vera miklir andstæðingar samningaviðræðna þar sem menn eða lönd með ólíka hagsmuni takast á. Það gæti því komið einhverjum á óvart að sami hópur virðist vera þess fullviss að Bretar séu að gera vondan samning við Evrópusambandið. Hugsanlega myndu þeir fagna honum ef Íslendingar ættu í hlut! En þetta er nú kannski ekki nógu málefnalegt. Ekki frekar en pistill sem birtist í leiðaraopnu Morgunblaðsins í dag og hengdi þjóðernismerkimiðann á alla þá sem eru ósammála höfundinum. 

Er einhver fullorðin heima?

Undanfarið hefur sá er þetta ritar verð að lesa bók Yanis Varoufakis, hagfræðiprófessors og fyrrverandi fjármálaráðherra Grikkja. Bókin Adults in the Room kom út á síðasta ári og rekur hún þróunina í Grikklandi undanfarin áratug með sérstaka áherslu á ráðherratíð Varoufakis sem stóð ekki nema í 165 daga. Grískur kunningi minn sagði að bókin hefði ekki fengið mikinn lestur í Grikklandi enda Varoufakis að mörgu leyti verið vinsælli utan Grikklands en heima fyrir. Engin er spámaður í sínu heimalandi. Varoufakis var einn af forystumönnum Syriza stjórnmálaflokksins sem ruddist fram á sjónarsviðið þegar Grikkir voru búnir að fá nóg af gömlu flokkunum. Hann entist stutt í embætti og sagði af sér frekar en að skrifa undir lánasamninga sem hann taldi að færðu Grikkjum meiri erfiðleika en þeir leystu. Í bók sinni rifjar hann upp frásögn af föður sínum sem var handtekin og barinn af grísku lögreglunni strax eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar. Þarna í árdaga kaldastríðsins gat hann keypt sér frelsi með því að skrifa undir yfirlýsingu um að hann væri ekki kommúnisti. Sjálfum þætti mér það ekki tiltökumál en kringumstæður voru auðvitað óviðunandi frjálsum manni og því neitaði faðir Yanis Varoufakis að skrifa undir og þoldi frekar harðræði í vörslu lögreglunnar.grikkl

Samningar við þríeinan þurs

En þessi pistill átti öðrum þræði að snúast um samningagerð og hve viljugir menn eru að skrifa undir. Varoufakis var ekki viljugur til að skrifa undir samninga við Evrópusambandið eða troikuna svokölluðu, hinn þríeina þurs sem samanstóð af Evrópusambandinu, Evrópska seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þursinn þríeini (eða þríeykið eins og sumir kölluðu hann) taldi að Grikkjum væri fyrir bestu að taka á sig gríðarlegan skuldaklafa sem átti að forða landinu frá greiðsluþroti, ella yrði allsherjar sjóðþurrð í landinu þar sem Grikkjum yrðu ekki afhentar fleiri evrur. Varoufakis og fleiri töldu að aðgerðin snérist öðru fremur um að bjarga evrópska bankakerfinu sem hangir nú allt saman á einum gjaldmiðli, einni peningastefnu en 19 mismunandi efnahagsstefnum. Til að geta staðið undir skuldunum varð að reka hin gríska ríkissjóð með umtalsverðum afgangi miðað við landsframleiðslu. Allir sem vildu skilja áttuðu sig á því hve miklar hörmungar slíkt myndi færa þjóðinni. Varoufakis sætti sig ekki við það og sagði af sér. Allt betra en að skrifa undir, meira að segja að skera af sér höndina eins og haft var eftir honum í frægum ummælum.

Er ekki fremur ástæða til að treysta þeim fyrir hagsmunum þjóðarinnar sem skrifa ekki viðstöðulaust undir alla samninga sem útlandið sendir þeim? Jafnvel þó að þeir séu kallaðir þjóðernissinnar af já-mönnunum? Við sáum það í Icesave-málinu að farsælast var að hafna afarkostum, spyrja spurninga og reyna að meta afleiðingar samningana. Til hvers að halda á fullveldi ef við gefum það alltaf frá okkur þegar í harðbakkann slær?

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.