c

Pistlar:

26. nóvember 2018 kl. 18:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sögu­leg­ar sætt­ir á milli sjáv­ar­út­vegs og sam­fé­lags?

Hugmyndin um „sögu­leg­ar sætt­ir“ gæti virst framandi fyrir ungt fólk á Íslandi í dag enda má segja að oft sé vísað til sögu sem ekki er öllum kunn. En þegar einn helsti álitsgjafi landsins til margra áratuga nefnir slíkt í tengslum við sjávarútveginn hljóta þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur að leggja við hlustir. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, vakti athygli á því í grein sinni í blaðinu um helgina að sjáv­ar­út­veg­ur­inn á Íslandi hef­ur á tveim­ur ára­tug­um orðið al­veg ný at­vinnu­grein. Þetta er niðurstaða Styrmis eft­ir að hafa setið sjáv­ar­út­vegs­ráðstefn­u í Hörpu fyrir viku síðan. Um það segir Styrmir: „Það er magnað að sjá þá breyt­ingu sem hef­ur orðið á þess­ari grund­vall­ar­at­vinnu­grein þjóðar­inn­ar í ald­ir á skömm­um tíma. Að mörgu leyti voru hug­hrif­in þau sömu og þegar gengið var um land­búnaðar­sýn­ing­una í Laug­ar­dals­höll fyr­ir skömmu og fjallað var um hér á þess­um vett­vangi þá. Þess­ar tvær gömlu at­vinnu­grein­ar ís­lenzku þjóðar­inn­ar hafa gengið í end­ur­nýj­un lífdaga.“

Sjávarútveginn sem skattandlag

Þetta eru ekki alveg ný tíðindi fyrir alla. Umræða um sjávarútveginn sem skattandlag hefur ruglað marga í rýminu. Hann er ekki eingöngu atvinnugrein sem nýtir auðlind landsins. Á bak við sjávarútveginn eru mörg af glæsilegustu markaðs- og sölufyrirtækjum landsins. Þeir sem hafa til dæmis haft fyrir því að rýna í rekstur Samherja verða þess skjótt áskynja að aðgangur að íslensku sjávarauðlindinni skýrir ekki nema hluta af velgengni fyrirtækisins. Samherji stundar þróunar- og markaðsstarf sem flest fyrirtæki væru stolt af. Því miður virðast margir telja sig hafa af því pólitískan ávinning að segja aðra sögu. En eitt vekur mesta athygli Styrmis: „Fólkið. Það er kom­in ótrú­lega mik­il breidd í það fólk, sem með ein­um eða öðrum hætti kem­ur að mál­efn­um sjáv­ar­út­vegs­ins þegar hér er komið sögu, ungt fólk og miðaldra með mikla mennt­un og þekk­ingu, sem hef­ur verið nýtt til þess að um­skapa þessa at­vinnu­grein m.a. með tækni­bylt­ingu, nýrri vöruþróun og auknu markaðsstarfi.”slor

Sem betur fer hefur sjávarútvegurinn undanfarin ár haft tækifæri til að fjárfesta í nýjum skipum og nýrri tækni. Fyrir vikið er framleiðni sjávarútvegs hér á landi mikil eins og oft hefur verið bent á hér í pistlum. Ekki skiptir síður máli hve vel sjávarútveginum hefur gengið að færa niður tölur um mengun í rekstri sínum. Þar hafa ótrúlegar breytingar átt sér stað. En stöðugt þarf að halda vöku sinni. Það er ekki hægt að ganga að neinu sem vísu og ef ekki er reynt að horfa til arðsemi fjármagns eru menn fljótir að missa lestina. Það geta ekki allir leyft sér að reka fyrirtæki sín eins og Íslandspóstur sem bankar nú upp hjá eiganda sínum - íslenskum skattgreiðendum - og fer fram á 1500 milljónir króna, meðal annars vegna rangra fjárfestinga.

Misstu fjölmiðlar af fréttinni?

Styrmir telur það um­hugs­un­ar­efni, hvers vegna þess­ar tvær gömlu at­vinnu­grein­ar, land­búnaður og sjáv­ar­út­veg­ur, hafa báðar, þótt með ólík­um hætti sé, staðið í hálf­gerðum barn­ingi í sam­skipt­um við fólkið í land­inu og telur að tími sé til kom­inn að þar verði breyt­ing á. Undir það skal tekið hér en Styrmir telur það áleitna spurn­ingu hvernig á því stend­ur að sjáv­ar­út­veg­in­um hef­ur ekki tekist sem skyldi að miðla til þjóðar­inn­ar þeim at­hygl­is­verðu breyt­ing­um sem orðið hafa á innviðum hans á til­tölu­lega skömm­um tíma. Hann spyr hvort það hafi kannski eng­in áhersla verið lögð á það? Pistlaskrifari telur svo ekki vera, en alltaf má gera betur.

En Styrmir beinir orðum sínum að fjölmiðlum. „Svo má auðvitað velta því fyr­ir sér, hvort fjöl­miðlar hafi verið of upp­tekn­ir við að fjalla um ágrein­ings­efn­in sem snúa að sjáv­ar­út­vegi og land­búnaði og að breyt­ing­ar og um­bæt­ur hafi ein­fald­lega farið fram hjá þeim og þar með fólk­inu í land­inu.“

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.