c

Pistlar:

2. desember 2018 kl. 17:40

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Geor­ge H.W. Bush 1924-2018

Fyrr­ver­andi for­seti Banda­ríkj­anna, Geor­ge H.W. Bush, er lát­inn 94 ára að aldri en hann fædd­ist árið 1924 í Milt­on, Massachusetts. Fjöl­skylda hans var auðug og áhrifa­mik­il á stjórn­mála­sviðinu þar. Hann reyndi að skrá sig strax í herinn við árás Japana á Perluhöfn (Pearl Harbour) en varð að bíða þar til hann varð 18 ára. Geor­ge H.W. Bush varð einn yngsti flugmaður hersins og var skot­inn niður af Japön­um yfir Kyrra­hafi. Eft­ir stríð starfaði hann um tíma í ol­íuiðnaðinum í Texas, auðgaðist þar en sneri sér síðan að stjórn­mál­um. Var þingmaður í full­trúa­deild­inni og síðar for­stjóri CIA, leyniþjón­ustu Banda­ríkj­anna en í millitíðinni náði hann einnig að vera sendiherra Bandaríkjanna í Kína. Hann var vara­for­seti í for­setatíð Ronalds Reag­ans, for­seta­efni re­públi­kana árið 1988 og vann auðveld­an sig­ur á for­seta­efni demó­krata, Michael Dukakis, í nóv­em­ber það ár en sá síðarnefndi reyndist einstaklega seinheppinn í kosningabaráttu sinni.bush

En Geor­ge H.W. Bush var aðeins for­seti eitt kjör­tíma­bil og tapaði fyr­ir demó­krat­an­um Bill Cl­int­on í nóv­em­ber 1992, að hluta til vegna þess að efna­hags­ástand Banda­ríkj­anna var bág­borið á þess­um tíma. Hlutskipti Bush varð því að vera millileikur, á milli tveggja stórra forseta; Reagans og Clintons. Ásamt Jimmy Carter og Gerald Ford þá eru þeir þrír einu sitjandi forsetarnir sem ekki hafa unnið kosningar eftir fjögur ár í embætti. Stolt Bush var sært og líka stolt fjölskyldunnar og það lagaðist ekki fyrr en elsti sonur hans var kosinn forseti átta árum síðar. Honum auðnaðist hins vegar ekki að koma öðrum syni í Hvíta húsið en Jeb Bush, fyrrum ríkisstjóri Flórída, féll úr leik í baráttunni fyrir tilnefningu repúblikana fyrir tveimur árum.

Farsæll í utanríkismálum

Það er merkilegt til þess að hugsa að Geor­ge H.W. Bush skuli hafa tapað fyrir Bill Clinton á sínum tíma. Ekki nóg með að kalda stríðinu skyldi hafa lokið á vakt Bush með falli Sovétríkjanna heldur höfðu sigursælar hersveitir Bandaríkjanna komið heim úr Persaflóastríðinu 16 mánuðum fyrir kosningar. Stríð sem leit í senn út fyrir að hafa tilgang og farsælan endir. Eina stríðið sem Bandaríkjamenn hafa hafið og lokið í seinni tíma sögu og forsetinn naut gríðarlegra vinsælda í kjölfar þess. Geor­ge H.W. Bush leit aldrei á sig sem stríðshetju og samstarfsmenn hans segja að hann hafi veigrað sér við að halda tölur undir þeim formerkjum. Stríðsreynslan var honum um margt þungbær og hann hafði miklar áhyggjur af mannfalli í Persaflóastríðinu en þar féllu ekki nema 150 Bandaríkjamenn, sem verður að teljast einstæður árangur. Mannfall í herjum Saddams Husseins varð miklu meira enda voru tæknilegir yfirburðir bandaríska hersins algerir.

Þegar Bush tapaði fyrir Clinton

Þegar kosningabaráttan 1992 hófst var Bill Clinton til þess að gera óþekktur fylkisstjóri í Arkansas. Hann ákvað hins vegar að taka slaginn og bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna. Fljótlega fóru menn að taka eftir pólitískri getu Bill og ljóst var að hann átti góða möguleika á að verða valinn fyrir hönd demókrata. Flestir áttu von á sigri hans í forkosningum í New Hampshire þegar allt í einu dúkkaði upp vandamál. Ung kabarettsöngkona, Gennifer Flowers, kom fram í blaðaviðtali og sagðist hafa átt í 12 ára ástarsambandi við Bill. Málið leit illa út og að lokum fóru Clinton-hjónin saman í viðtal við sjónvarpsmanninn Steve Kroft í þættinum 60 mínútum á CBS sjónvarpsstöðinni. Hillary gerði það sem hún þurfti og stóð með sínum manni þó hún segðist ekki vera nein Tammy Wynette eins og frægt var. 50 milljónir manna horfðu á þáttinn og hann kom vel út fyrir hjónin þó litlu hefði mátt muna. Þetta dugði til að róa fólk og koma kosningabaráttu Bill af stað aftur. Sex árum síðar, í tengslum við málflutning vegna ásakanna annarrar konu, Paulu Jones, á hendur Bill upplýsti hann að hann hefði í reynd átt í stuttu sambandi við Gennifer Flowers árið 1977. Hjónaband Clinton-hjónanna var ávallt til umfjöllunar á meðan Geor­ge H.W. Bush og Barbara kona hans til 73 ára virtust einstaklega samhent.

Áhrif Ross Perot

Á meðan Clinton var að greiða úr þessum ásökunum átti forsetinn í erfiðleikum. Bush fór seint af stað með kosningabaráttu sína. Taldi sig hafa mikilvægari verkefnum að sinna og virtist skorta allan ákafa loksins þegar hann fór af stað. Það var ekki til að auðvelda honum leikinn að Patrick J. Buchanan, harðlínumaður í repúblikanaflokknum og samstarfsmaður Ronald Reagan var með í slagnum. Buchanan átti aldrei möguleika en hann gat ruglað myndinni. Mestu skipti þó að auðmaðurinn Ross Perot hellti sér í baráttunna og háði hana allt til enda. Perot lagði áherslu á mörg af þeim málum sem repúblikanar stóðu fyrir, meðal annars skattalækkanir en þar sat Geor­ge H.W. Bush uppi með Svarta Pétur eftir að hafa sagt kjósendum að lesa varir sínar þegar hann lofaði því að hækka ekki skatta. Nokkuð sem hann gat ekki staðið við en Clinton naut þess að hluta síðar með því að geta skilað sínum fyrstu fjárlögum hallalausum.

Í umræðu um efnahagsmál virtist sumum eins og Geor­ge H.W. Bush ætti erfitt með að setja sig í spor almennings eins og kom fram í frægum sjónvarpskappræðum þeirra þriggja, Bush, Perot og Clinton en þar virtist Bush ekki tengja við spurningar áhorfenda þar um. Og svo var hann alltaf að horfa á úr sitt, eins og hann hefði eitthvað annað við tímann að gera! Þó að þá væru samfélagsmiðlar ekki komnir til sögunnar þá hafði þetta atvik án efa talsverðar afleiðingar fyrir Bush. Niðurstaða kosninganna reyndist ósigur fyrir Bush en 5 milljónum atkvæða munaði á honum og Clinton þegar upp var staðið. Repúblikanar horfðu þá mikið til þeirra tæplega 20 milljóna atkvæða sem Perot fékk en hann tók til sín 18,9% atkvæða. Það réði án efa baggamuninn og Geor­ge H.W. Bush fékk ekki önnur fjögur ár í Hvíta húsinu.

Geor­ge H.W. Bush er minnst sem heiðursmanns, hann kom innan úr kerfinu og talaði og hugsaði þannig. Öfugt við núverandi forseta Bandaríkjanna sem seint verður kallaður heiðursmaður og er sannarlega ekki hluti af valdakerfi Washington.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.