c

Pistlar:

16. desember 2018 kl. 13:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Eru veggjöld að verða staðreynd?

Veggjöld virðast vera að fá nokkuð víðtækan stuðning á Alþingi og svo virðist sem þau verði staðfest í janúar næstkomandi, eða þannig má skilja samkomulagið sem gert var á Alþingi nú fyrir helgi og tryggði að þingmenn komust í jólafrí. Veggjöld eru ekki með öllu óþekkt hér á landi en þau voru nýlega lögð af í Hvalfjarðargöngunum en þar stóðu þau undir framkvæmdinni. Veggjöld verða í Vaðlaheiðagöngum og eiga þau að standa undir 700 milljóna króna árlegum vaxtarkostnaði. Þá var í eina tíð innheimt veggjald á Reykjanesbrautinni og flestir Íslendingar hafa kynnst þessu erlendis þar sem flest lönd önnur en Þýskaland fjármagna hraðbrautakerfi sitt með veggjöldum. Það má vissulega spyrja sig að því hvort Hvalfjarðargöng hefðu yfir höfuð orðið að veruleika ef ekki hefði verið samþykkt að flýta þeim framhjá Vegaáætlun en engin deilir um ágæti þeirra í dag.veggj

Þeir greiði sem njóta

Með veggjöldum er verið að vinna út frá hugmyndafræði þess að þeir greiði sem njóta. Vitaskuld er það ekki svo einfalt. Þeir sem nota vegina mest greiða minnst þar sem þeir geta keypt afsláttarmiða og komið þannig kostnaðinum við hverja ferð verulega niður. Þannig munu stórnotendur aðeins greiða 700 krónur fyrir hverja ferð í gegnum Vaðlaheiðargöng á meðan stakt gjald kostar 1500 krónur. Því er haldið fram að veggjald á nýframkvæmdum hér við höfuðborgarsvæðið muni ekki kosta meira en 100 til 150 krónur. Að teknu tilliti til sparnaðar á tíma og eldsneyti muni það meira en réttlæta ferðina. Og það lendi síðan á þeim sem fari sjaldan að greiða mest, þannig muni ferðamenn greiða allt að 40% af kostnaðinum þegar upp er staðið. Í Sviss segja heimamenn að Þjóðverjar borgi fyrir hraðbrautir þeirra, Þjóðverjaskatturinn svokallaði!

Brýn öryggisverkefni

En af hverju er verið að ræða veggjöld vegna framkvæmda hér í kringum höfuðborgin? Jú, það blasir við að innan Vegaáætlunar verður ekki unnt að ráðast í framkvæmdir sem flestir virðast telja brýnar. Það á í raun við um allar leiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu. Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar inn í Hafnarfjörð er brýnt verkefni en engum dylst að þar er vegfarendum búin óþörf hætta. Suðurlandsvegurinn er einnig í lamasessi þó hann sé líklega ekki eins hættulegur og Reykjanesbrautin. Einnig hafa menn velt fyrir sér að þetta fyrirkomulag nái mögulega til tvöföldunar Hvalfjarðarganga og nýrrar brúar yfir Ölfusá, norðan Selfoss.

Margoft hefur hér í pistlum verið fjallað um Sundabraut og þá möguleika sem hún gefur. Því má reyndar halda fram að hún gæti staðið undir sér sem þróunarverkefni og þar blasir við að fólk getur haft valkost um eldri leiðina áfram. Vandinn við Sundabraut er að meirihlutinn í borgarstjórn virtist ekki áhugasamur um þá framkvæmd og virðist enn tortryggnir á framkvæmdir sem afhjúpa vandræðaástand það sem búið hefur verið til í vegakerfi höfuðborgarinnar.

Hér hefur undanfarið verið fjallað um skattheimtu á Íslandi og ljóst að veggjöld eru ný tegund af skattheimtu. Rökin eru að ávinningur felist í að flýta framkvæmdum og auka öryggi. Samgönguráðherra hefur gefið í skyn að þessar framkvæmdir geti kostað allt að 60 milljarða króna en líklega er verið að horfa á talsvert hærri upphæðir þar sem Sundabraut ein og sér mun kosta 50 milljarða króna. Brýnt er að skattgreiðendur fái nákvæma útlistun á því hvernig staðið verði að verki sem fyrst og tryggingu fyrir því að þetta verði ekki viðbótarskattar til framtíðar.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.