c

Pistlar:

1. febrúar 2019 kl. 18:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ítalía siglir inn í kreppu

Nú er það staðfest að Ítalía hefur siglt inn í kreppu. Á sama tíma er ljóst að Evrópa í heild á við mikla efnahagslega erfiðleika að stríða vegna viðvarandir stöðnunar. Um leið hafa efnahagshorfur heimsins versnað.

Nýj­ar hag­töl­ur fyr­ir Ítal­íu birt­ust í vik­unni, og kom þar í ljós að stöðugur sam­drátt­ur hefur verið í hag­kerfi lands­ins seinni hluta árs­ins 2018 en vikið var að stöðnuninni á Ítalíu í pistli hér í haust. Jafn­vel þó að sam­drátt­ur­inn sé ekki mik­ill í pró­sent­um tal­inn, eða ein­ung­is um 0,1-0,2%, þýðir hann þó að opinberalega er skollin á kreppa á Ítalíu. Þetta er í þriðja sinn síðan 2008 að slíkt gerist og er ein aðalástæða þess að skulda­vandi ít­alska rík­is­ins er nú tal­inn meiri en áður, þar sem minna mun inn­heimt­ast af skött­um en áætlan­ir gerðu ráð fyr­ir eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins bendir á í dag. Staða bankakerfisins ítalska er kapítuli út af fyrir sig en það hefur verið til umfjöllunar hér áður og með fylgir mynd af bankanum í Siena, Banca Monte dei Paschi di Siena S.p.A. (BMPS), sem rekur upphaf sitt allt aftur til ársins 1472 en er nú fallinn.  banki

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, reyndi að róa kollega sína í Evrópu á þriðjudaginn þegar hann fullyrti að samdrátturinn nú hefði ekkert með ákvarðanir ítölsku ríkisstjórnarinnar að gera. Frekar er hann tilbúin að kenna um viðskiptastríði Bandaríkjanna og Kína. Ítalskir neytendur virðast ekki taka mikið mark á honum en svartsýni þeirra hefur dregið verulega úr neyslu.

Svigrúm ECB minnkar

Evrópski seðlabankinn (European Central Bank) hefur undanfarin misseri reynt að styðja við efnahag evrulandanna og þá sérstaklega Ítalíu. Nú er ljóst að svigrúm bankans hefur minnkað og hann hefur dregið úr kaupum ríkisskuldabréfa sem hefur hingað til gefið einstaka evruríkjum tækifæri til að auka peningamagn í umferð og reyna að koma þannig hlutunum á hreyfingu. Skuldir ítalska ríkisins eru nú himinháar og ljóst að Ítalía á í vandræðum með að fjármagna sig án aðstoðar frá ECB. „Við erum með mjög viðkvæma efnahagsstöðu núna um leið og ECB er að draga sig út af markaðinum. Fyrir vikið er minna svigrúm fyrir pólitísk mistök,“ hefur New York Times eftir Katharinu Utermöhl, hagfræðingi hjá þýska tryggingafélaginu Allianz.

Allt þetta verða að teljast vond tíðindi fyr­ir nú­ver­andi rík­is­stjórn Ítal­íu, sem hafði fengið skamm­ir frá Evr­ópu­sam­band­inu og verið rek­in til baka með fjár­lög. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins bendir réttilega á tvöfeldnina í þeim ákvörðunum þar sem rík­is­stjórn Frakk­lands fór einnig yfir viðmið Evr­ópu­sam­bands­ins en þá heyrðist hvorki hósti né stuna frá emb­ætt­is­mönn­un­um í Brus­sel.

Hvað sem því líður er staða Ítal­íu ekki öf­undsverð. Ítalska ríkið er stór­skuldugt, hið fjórða skuldug­asta í heimi, og eru skuld­irn­ar 132% af þjóðarfram­leiðslu. Í upphæðum talið skulda Ítalir jafn mikið og Þjóðverjar sem reka margfalt stærra hagkerfi. Ein­ung­is Grikk­ir standa verr að því leyti. Flestir greinendur telja að sam­drátt­ar­skeiðið á Ítal­íu haldi áfram fram­eft­ir þessu ári.

Evrusvæðið í vanda

Helsta áhyggju­efnið fyr­ir for­víg­is­menn Evr­ópu­sam­bands­ins er þó ekki hver staða Ítal­íu er ein og sér, held­ur frem­ur það, að evru­svæðið í heild sinni náði sér ekki á strik seinni hluta árs­ins 2018. Meðal­hag­vöxt­ur svæðis­ins á síðasta árs­fjórðungi 2018 var ein­ung­is 0,2% sam­kvæmt Eurostat og 0,3% inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins sem heild­ar. Þá er nýleg spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ekki til að gleðja menn en þar er spáð snörpum samdrætti á evrusvæðinu og sérstaklega í Þýskalandi.

Í slíku um­hverfi væri ekki gott fyr­ir Evr­ópu­sam­bandið ef Ítal­ía yrði fyr­ir enn frek­ari skakka­föll­um í efna­hags­líf­inu og það er ólík­legt að skulda­vanda Ítala verði mætt af mikl­um skiln­ingi af stjórn­völd­um í Berlín, Par­ís og Brus­sel.

Hér hefur áður verið vikið að bók hagfræðingsins Ashoka Mody (Eurotragedy: A Drama in Nine Acts) en hann telur að Ítalía hafi aldrei átt að fá aðgang að evrunni. Viðvarandi samdráttur í landinu styður þá greiningu hans.