c

Pistlar:

24. febrúar 2019 kl. 20:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Horfin hagvöxtur, verðbólga og verkföll


Undanfarið hafa spár um hagvöxt hér á landi verið lækka en horfur eru nú taldar á að hann verði vel innan við 2% á yfirstandandi ári. Vitaskuld eru þetta alvarleg tíðindi en um er að ræða minnsta hagvöxt sem mælst hefur í landinu síðan 2012. Slíkur hagvöxtur gerir lítið annað en að halda í við mannfjöldaþróun hér á landi. Því má segja, að ef fer sem horfir, þá muni jafnvel landsframleiðsla á mann fara lækkandi. Þetta eitt og sér hefði átt að slá nýjan tón í kjaraviðræður en þá er bara gefið í sem er því miður staðfesting á því að við höfum nú verkalýðsforystu sem annað hvort skilur ekki samhengi hlutanna í efnahagslífinu eða vill ekki skilja þá. Ásgeir Jónsson hagfræðingur hefur bent á þessa öfugþróun innan verkalýðshreyfingarinnar sem virðist fremur hafa pólitísk stefnumið en markmið um að tryggja atvinnu og kaupmátt.

Augljóslega erum við að horfa upp á hraða kólnun efnahagslífsins. Atvinnuleysi er þegar farið að aukast en atvinnuleysi í janúar síðastliðnum mældist 3,0% samanborið við 2,4% í sama mánuði í fyrra. Engum dylst að það kreppir að ferðaþjónustunni sem hlýtur að bregðast við með hagræðingu og uppsögnum. Eða hvernig eiga lítil eða meðalstór fyrirtæki að bregðast við miklum launahækkunum? Jú, þau lenda strax í taprekstri ef ekki er gripið til aðgerða. Þar standa eigendur þeirra frammi fyrir þremur valkostum til að bregðast við: Hækkað verð, segja upp starfsfólki eða taka lán með von um að framundan sé betri tíð. Hvað halda menn að verði líkleg niðurstaða? Jú, uppsagnir og hækkandi verð. Verðbólgan fer af stað.ferðam

Dregur út útflutningi

Hægt hefur verulega á vexti útflutnings sem var ein megindriffjöður uppsveiflunnar lengi framan af. Reiknar Seðlabankinn svo dæmi sé tekið með engum vexti útflutningi vöru og þjónustu í ár í spá sem hann birti fyrr í þessum mánuði. Samhliða dregur úr fjárfestingum atvinnuveganna sem var burðarásinn í auknum fjárfestingum í hagkerfinu. Versnandi útlit í efnahagsmálum og aukin óvissa meðal annars vegna stöðu vinnumarkaðarins hefur þar áhrif.

Tölur um umfang bygginga- og mannvirkjagerðar bera þessari þróun glöggt vitni eins og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins benti á í grein í Viðskiptablaðinu í vikunni. Dregið hefur umtalsvert úr fjölgun launþega í greininni og samkvæmt nýlegri könnun sem Gallup gerði í lok síðastliðins árs fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann telja forsvarsmenn 29% fyrirtækja í greininni að starfsmönnum muni fækka á næstu 6 mánuðum og 25% að innlend spurn eftir vöru eða þjónustu þeirra muni minnka á þeim tíma.

Hægir á framkvæmdum

Þó að talsverðar framkvæmdir séu fyrirhugaðar hefur stórum verkefnum nú verið frestað, það hægir á vexti í byggingariðnaði sem gæti leitt til samdráttar. Það er bæði nauðsynlegt og skynsamlegt að ráðast í framkvæmdir nú þegar dregur úr vexti hagkerfisins. Ef sótt verður að ríkinu með óskynsömum hætti mun því verða nauðugur sjá kostur að draga úr framkvæmdum og jafnvel hætta við þær. Skyldi Hús íslenskra fræða eina ferðina enn lenda undir niðurskurðarhnífnum, svo nærtækt dæmi sé tekið? Nú eða nýbygging fyrir Alþingi. 

Það sér það hver maður að það verða ekki sóttar miklar miklar kauphækkanir til helstu útflutningsgrein landsins, ferðaþjónustu. Þar eiga hins vegar verkfallsátökin að hefjast. 10% samdráttur ferðaþjónustu hefur í för með sér 50 til 60 milljarða króna minni gjaldeyristekjur. Það kemur þá til viðbótar við 30 milljarða króna tekjusamdrátt vegna þess að loðnuvertíðin virðist vera að bregðast. 80 til 90 milljarða króna minni gjaldeyristekjur, það hlýtur að taka í fyrir þjóðarbúið. Hvenær ætla menn að vakna?