c

Pistlar:

29. mars 2019 kl. 18:49

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þúsundir starfa tapast á nokkrum dögum

Líklegt er að á þriðja þúsund störf tapist nú síðustu tvo til þrjá sólarhringanna fram að mánaðamótum. Við Íslendingar erum að sjá mjög óvenjulegt ástand á vinnumarkaði en nánast á hverjum klukkutíma rignir inn tilkynningum um uppsagnir. Um leið fréttist af félögum sem eru að segja upp fólki án þess að þurfa að tilkynna fjöldauppsögn. Sumir líkja þessu við blóðbað á vinnumarkaði en ljóst er að ástandið er fáheyrt. Þetta er ástand sem að hluta til má rekja til falls WOW en ljóst er að mörg fyrirtæki hafa haldið að sér höndum undanfarið og fylgst með þróun á vinnumarkaði enda nú svo komið að flestar efnahagsspár gera ráð fyrir samdrætti. Lokun WOW hefur síðan keðjuverkandi áhrif ofan í þetta ástand.

Óvissa á vinnumarkaði truflar neytendur

Sumt af þessu var fyrirsjáanlegt. Á meðan óvissa hefur ríkt hafa neytendur haldið að sér höndunum og fyrirtækin eru fljót að finna fyrir því. Verulegur samdráttur í sölu bíla er skýr vísbending en neytendamarkaður verður var við þetta, verr gengur að selja íbúðir og fólk tekur síður á sig skuldbindingar. Um leið hafa bankarnir dregið saman útlán og sett af stað eigin keðjuverkun þar. Uppsagnir í byggingaiðnaði tengjast augljóslega þessu ástandi en verktakar og hráefnissalar hafa undanfarið orðið varir við hraðan samdrátt. Slaki á fasteignamarkaði mun væntanlega leiða til þess að verðhækkanir munu ganga til baka í einhverju mæli og ef til viðbótar verður samið um of háar kjarabætur þá mun störfum fækka enn frekar og álag aukast á þá sem eftir standa. Hugsanlega koma Airbnb íbúðir inná markaðinn til sölu eða langtímaleigu, það gæti aftur gert sölu á nýjum og dýrari íbúðum erfiðari. Nú þegar hefur dregið úr að nýframkvæmdir fari af stað.

Augljóst er að fleiri störf munu tapast þegar líður á árið fari svo að ferðamönnum fækki um 10-20%. Færri störf þýðir minni umsvif í hagkerfinu og um leið færri íbúar þar sem einhverjir erlendir starfskraftar munu snúa aftur heim. Þetta mun hafa áhrif á mörg heimili, í það minnsta til skemmri tíma. Hætt er við að það hreyfanlega vinnuafl sem felst í erlendum starfsmönnum finni sérstaklega fyrir þessu. Hætt er við að uppsagnir beinist að þeim.verkföll

Taktík verkalýðshreyfingarinnar mistókst

Af þessu má vera ljóst að sú harða taktík sem verkalýðshreyfingin ákvað að beita hefur mistekist. Þegar Guðbrandur Einarsson, formaður og framkvæmdastjóri Verslunarmannafélags Suðurnesja, ákvað að segja af sér sem sem formaður Landssamband íslenskra verslunarmanna (LÍV) þann 20. mars síðastliðin lá samningur á borðinu. Guðbrandur vildi bera hann undir félagsmenn en harðlínumenn innan verkalýðshreyfingarinnar (VR) ekki og slitu kjarasamningaviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins. Nú er óvíst að sá samningur bjóðist lengur. SA hefur undanfarið neitað að taka þátt í viðræðum á meðan óvissa ríkti um WOW. Verkalýðshreyfingin varða að falla frá tilkynntum verkfallsaðgerðum á fimmtudaginn til að draga SA aftur að samningaborðinu.

Sá sósíalíski kjarni sem hefur lagt á ráðin innan verkalýðshreyfingarinnar hefur augljóslega ekki verið hollráður. Taktík óhefðbundinna verkfalla og skærur hafa ekki skilað miklu en þó sérstaklega sú ákvörðun að beina aðgerðum að ferðaþjónustunni. Sjaldan eða aldrei hafa menn mislesið ástandið jafn rækilega. En við verðum að vona að menn sjái nú að sér og semji með það að markmiði að vernda og tryggja kaupmátt fólks. Það virðist það eina skynsama í stöðunni nú.