c

Pistlar:

5. júní 2019 kl. 20:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að æra óstöðugan

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri og einn eigandi Kjarnans, hefur sent kæru til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands vegna greinar sem ég skrifaði í Þjóðmál fyrir skömmu. Siðanefndin vísaði kærunni frá með rökstuðningi um að um væru að ræða skoðanaskipti sem ritstjórinn yrði að þola. Því undu þeir Kjarnamenn ekki og hafa sent inn einhverskonar viðbótarkæru. Efni hennar er ógreinilegt en þeir hljóta að skilja það sjálfir. Nú eru 34 ár frá því að ég gerðist blaðamaður og hefur siðanefndin aldrei tekið fyrir mál er mig varðar. Nú kann að verða breyting á því en tilefnið er ekki merkilegra en svo að einn blaðamaður hefur kært annan.tjodmal

Fyrir þá sem þekkja ekki til má benda á að hlutverk siðanefndar er einkum að fjalla um vinnubrögð blaðamanna. Einnig telja sumir að hún eigi að sjá til þess að fólk, sem alla jafnan er ekki viðfangsefni fjölmiðla, fái sanngjarna meðferð. Sama dag og greint var frá frávísun kvörtunar á hendur mér var til dæmis greint frá því að siðanefndin hefði talið að Fréttablaðið hefði brotið gegn fjölskyldu dauðvona barns. Alvarleg mál geta því sannarlega borist fyrir siðanefnd. Einhverra hluta vegna tóku fleiri blaðamenn til máls um kvörtunina gegn mér en það mál. Það sýnir kannski þá stemningu sem getur ríkt meðal blaðamanna á Íslandi.

Ég held að óhætt sé að fullyrða að blaðamenn kæra hvorn annan afar sjaldan, ekki endilega vegna stéttvísi heldur er flestum blaðamönnum í nöp við slík úrræði sem takmarka tjáningarfrelsi, rétt eins og líklega myndi standa í flestum blaðamönnum að hefja meiðyrðamál. Það er vitaskuld í þágu blaðamennskunnar að túlka tjáningarfrelsið vítt en að setja mál í kvörtunar- eða kærumeðferð takmarkar það vitaskuld. Þegar horft er til þess hve fast málið er sótt með kæru og framhaldskæru má velta fyrir sér hvort ekki birtist þar skýr tilraun til þöggunar hjá ritstjóra og eigendum Kjarnans í þessu máli.

Flestir blaðamenn telja sig hafa vettvang til að standa fyrir máli sínu, penninn sé vopn þeirra en svo virðist ekki vera með ritstjóra Kjarnans. Eftir að hafa birt óvenju vanstilltan reiðilestur í kjölfar skrifa minna í Þjóðmál taldi hann rétt að ársfjórðungsritið birti grein sína í heild sinni! Þegar ekki var hægt að verða við því, einfaldlega vegna þess að útgáfa og rými tímaritsins gaf ekki tækifæri til slíks, leitaði hann til siðanefndar Blaðamannafélagsins sem nú hefur bent ritstjóranum á að hér sé um að ræða þjóðmálaumræðu sem hann verði einfaldlega að þola. Umfjöllunin heyri ekki undir siðanefndina. Úrskurðurinn var mér reyndar vonbrigði því að ég hefði gjarnan kosið að siðanefnd tæki málið til efnislegrar umfjöllunar því að þá hefði komið í ljós að ekkert væri út á skrif mín að setja. Þar voru sett fram efnisleg og málefnaleg rök sem ritstjórinn hefur ekki hrakið og skiptir þá engu hve oft hann grípur til orðsins lygi í andsvari sínu.

Líklega er hverjum manni ljóst að ritstjóri Kjarnans á erfitt með að þola umræðu um hann sjálfan. Það er í raun stórfurðulegt að fylgjast með ritstjóranum berjast um hæl og hnakka, kærandi og kvartandi út og suður. Skulu hér nefnd nokkur orð úr svargrein hans sem bar hið sérkennilega heiti: „Hvað vakir fyrir Sigurði Má?“ Hann byrjar að segja að greinin sé líkast til eindæmi. „Á mínum tíma í blaðamennsku man ég ekki eftir að nokkur hafi tekið sig til og skrifað jafn umfangsmikið níð og jafn rætinn róg um fjölmiðil.“ Það er bara svona, hér er slegið Íslandsmet! Honum verður tíðrætt um að greininn sé lygi og að ég sjái samsæri í hverju horni! Um sama leyti sendi hann eftirfarandi út á Twitter: „Níðkapparnir vinna vanalega í bylgjum. Taktíkin er vanalega þannig að hermaður (Sigurður Már Jónsson og Þjóðmál) eru látin gefa upp þvælubolta, hann svo pikkaður upp af nafnlausu rotþróarpistlasvæðum í Mbl og/eða VB. Hér eru Staksteinar dagsins. Verður stuð að sjá næsta VB.“ Hvar lærði ritstjórinn annars hegðunarmynstur og venjur „níðkappa“?

Ég spurði í fyrri grein minni að því í hverskonar furðuheimi ritstjórinn lifir? Ég hlýt að endurtaka spurninguna. Ég leyfi mér að fullyrða að ekkert slíkt orðalag er að finna í grein minni þó að ég undrist auðvitað að starfsmenn Morgunblaðsins og Viðskiptablaðsins sitji þegjandi og hljóðalaust undir svona furðuskrifum. Ritstjórinn heldur því jafnvel fram að aðrir sjái samsæri í hverju horni! Ég hef reyndar verið spurður af hverju ég hafi ekki sjálfur leitað til siðanefndar vegna rætinna ummæla ritstjórans en eins og komið hefur fram tel ég mig fullfæran um að útskýra mál mitt fyrir þeim sem vilja leggja við hlustir.

Víkjum nú aftur að orðalagi ritstjórans. Hann lýsir þannig grein minni á einum stað sem „ömurlegri og rætinni lygasúpu“. Annars staðar segir hann: „Á þessum tímapunkti fer grein Sigurðar Más á samsæriskenningarstig sem oftast nær er kennt við álhatta.“ Síðar segir hann: „Hvaðan stafar þessi gríðarlega óbilgirni og vilji til að meiða og eyðileggja.“ Í lokin förum við jafnvel að tala um tegundir eins og Darwin forðum! „Sigurður Már og aðrir af hans tegund verða að sætta sig við það.“

Varla þarf að taka fram að öllum greinum og ummælum ritstjórans um þetta mál lýkur með ákalli um peninga. Getur verið að þar liggi hundurinn grafinn? Snýst þetta ef til vill allt um fjármuni? Sjáum hvað ritstjórinn segir í lokaorðum sínum: „Við ykkur hin sem viljið styðja við frjálsa og aðgangsharða blaðamennsku, sem hefur það eina leiðarljós að upplýsa almenning, getið gert það með því að ganga til liðs við Kjarnasamfélagið hér.“ Hér hlýtur einhver að hnjóta um orðið „aðgangsharða“ — það kemur í það minnsta ekki heim og saman við kvartsárasta ritstjóra í heimi af „tegund“ hörundsárra fréttahauka. Endilega sendið mér nokkra aura!