c

Pistlar:

11. júní 2019 kl. 17:15

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bókadómur: Blómamánamorðin

Einn nöturlegasti þáttur mannkynssögunnar eru án efa samskipti við frumbyggja víða um heim. Framkoman við þá hefur gert það að verkum að eðlis- og stjarnfræðingurinn Stephen William Hawking taldi það óráð að kynna staðsetningu jarðarinnar með sendingum út í óravíddir geimsins. Hann benti réttilega á að þegar ein menning hitti aðra yrðu samskiptin yfirleitt afdrifarík fyrir þá viðkvæmari. Saga indíána í Bandaríkjunum og samskiptin við hvíta manninn eru einmitt uppistaða í bókinni Blómamánamorðin, sem kom nú út í íslenskri þýðingu fyrir stuttu. Hér er um að ræða sagnfræði færða í búning spennusögu og óhætt að segja að vel hafi tekist til.

Sögusviðið er Oklahóma ríkið í Bandaríkjunum á þriðja áratug 20. aldar. Fjallað er um morðöldu sem þá dundi yfir í Osage-sýslu þar sem indíánar af samnefndri ættkvísl lifðu. Atvik höguðu því þannig að Osage-indíánarnir voru auðugari en aðrir. Því gátu þeir þakkað snjöllum samningamanni þeirra sem hafði gert kröfu til þess sem fyndist í jörðu niðri yrði eign indíánanna. Þegar olía fannst í miklum mæli í sýslunni urðu indíánarnir ríkir. En það var var skammgóður vermir, öfund og græðgi gerðu vart við sig og þeir byrjuðu að tína tölunni einn af öðrum.Blomamanamordin_Cover_HQ-800x1229

Innsýn í bandarískt þjóðfélag

Þessi bók færir lesanda innsýn í margt í bandarísku samfélagi. Auðvitað er sérkennilegt að sjá svart á hvítu að villta vestrið var ekki sigrað í Oklahóma á þriðja áratugnum. Lögleysan ríkti og bara þeir bjartsýnu létu sig dreyma um réttarríki. Ómögulegt reyndist að rannsaka morðin af hlutlausum aðilum enda virtist samfélagið að nokkru sætta sig við dráp á indíánum. Ekki reyndust margir í hvíta samfélaginu standa undir væntingum. En á þessum tíma er vísir að FIB - bandarísku alríkislögreglunni að verða til. Það er því sjálfur J. Edgar Hoover sem hlutast til um það að rannsóknarlögreglumaðurinn Tom White er sendur á vettvang. Við það breytist rannsóknin til hins betra þó því sé fjarri að björninn sé unninn. Þetta er hin eiginlega spennusaga og magnað að fylgjast með rannsókn White sem sýnir bæði þrautseigju og þolinmæði við það sem virðist vera vonlausar aðstæður. Án þess að of miklu sé ljóstrað upp þá reyndust furðu margir tengdir samsærinu gegn indíánunum með einum eða öðrum hætti. Verst var að sjá misnotkun á hinu opinbera valdi en aðgreining valdsins og nauðsynleg stofnanauppbygging virtist eiga langt í land á þessum tíma. Fróðlegt er að lesa um það.

Hér er í grunninn um að ræða harðsoðna spennusögu en um leið fær lesandinn dýpri skilning á þróun samfélagsins á þessum slóðum Bandaríkjanna á þeim tíma er sagan gerist. Höfundur bókarinnar hefur tínt saman gríðarlegan fróðleik og skapað úr því heildstæða frásögn sem gaman er að lesa. Uppbygging Bandaríkjanna á árunum fyrir og eftir aldamótin 1900 er um margt einstök. Annarsvegar byggist hún að einstakri efnahagslegri velsæld þar sem Bandaríkin taka við miklum fjölda innflytjenda sem strax láta til sín taka við uppbyggingu samfélagsins. Innflytjendur á þessum tíma höfðu að engu velferðarkerfi að hverfa en fengu tækifæri til að breyta lífi sínu. Því miður var þetta oft á kostnað þeirra sem fyrir lifðu í landinu og hlutskipti indíána dapurt.

Höfundurinn David Grann hefur unnið gríðarlega heimildarvinnu og vinnur að bókinni í senn sem blaðamaður og sagnfræðingur. Eins og áður segir þá byggir hann fyrri hlutann upp sem spennusögu og er í engu slakað á kröfunum þar en seinni hlutinn segir rannsóknarsögu hans sem blaðamanns þegar í raun enn fleiri óhugnanlegri hlutir birtast. Því verður ekki ljóstrað upp hér en það eru magnaðar frásagnir og varpa alveg nýrri sýn á umfang indíánamorðanna. David Grann hefur verið hlaðin lofi fyrir bókina sem var til dæmis tilnefnd til bókar ársins 2017 hjá fjölmiðlum eins og Wall Street Journal, The Boston Globe, San Francisco Chronicle, GQ, Time, Entertainment Weekly og Time Magazine.

Fyrir þá sem hafa áhuga á má geta þess að hinn heimsþekkti kvikmyndaleikstjóri Martin Scorsese vinnur að gerð kvikmyndar eftir bókinni. Þá hefur Leonardo DiCaprio samþykkt að laika aðalhlutverkið. Nokkrar væntingar munu vera um að Robert De Niro verði einnig með í myndinni.

Blómamánamorðin - Olía, auður, morð og upphaf FBI (Killers of the Flower Moon - The Osage Murders and the Birth of FBI.)
Höfundur: David Grann
Þýðandi: Herdís M. Hubner
Útgefandi: Almenna bókafélagið.
2019