c

Pistlar:

2. september 2019 kl. 16:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Haglýsing í september

Nú þegar haustlægðirnar fara að sigla inn er eins og ákveðin lægð sé yfir íslenska hagkerfinu. Það er satt best að segja ekki mikla eftirvæntingu að finna í hagkerfinu eða á mörkuðum og helst að greiningaraðilar og aðrir sem rýna í stöðuna telji það markverðast að ástandið sé ekki verra. Nú virðist það hagkerfinu helst til framdráttar að það er mjög vel búið að taka við niðursveiflu! Þó er það ekki endilega svo að menn vilji tala um niðursveiflu, frekar ládeyðu. Viðskiptaafgangur og sterk erlend staða eru sannarlega vísbendingar um trausta stöðu íslenska hagkerfisins.fánar

Stýrivextir Seðlabankans hafa ekki verið lægri frá því að verðbólgumarkmið var tekið upp sem meginmarkmið peningastefnu og væntingar eru um að vextir haldi áfram að lækka. Fasteignamarkaður virðist vera að ná ákveðnu jafnvægi og hefur minni áhrif á verðbólgu en áður. Leiguverð frekar að lækka ef eitthvað er. Ef það er verðbólgu að finna þá er hún helst í formi erlendra hækkana en krónan hefur þó verið fremur stöðug það sem af er sumri. Það hafa reyndar orðið mikilvægar breytingar á fasteignamarkaði sem ættu að gera hann skilvirkari í framtíðinni, svo sem að ekki séu innheimt uppgreiðslugjöld við lánabreytingar auk þess sem vextir af fasteignalánum eru að lækka. Ef stimpilgjöld væru afnuminn yrði fasteignamarkaðurinn en skilvirkari sem vitaskuld vinnur gegn sveiflum á honum. Eftir dágóðar hækkanir í Kauphöllinni fram af ári virðist lítil eftirvænting ríkja þar núna. Sem fyrr láta ný og áhugaverð fyrirtæki á sér standa.

Minnsti hagvöxtur frá árinu 2010

Hagvöxtur mældist 1,4% á öðrum ársfjórðungi ársins. Er það viðsnúningur frá fyrsta ársfjórðungi þegar hann dróst saman um 0,9%. Að teknu tilliti til verðbólgu var hagvöxtur því einungis 0,3% á fyrri helmingi árs og er það minnsti hagvöxtur frá árinu 2010, að því er kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Að mati Landsbankans var hagvöxtur annars ársfjórðungs að miklu leyti borinn upp af vexti einkaneyslu, sem nam 2,2%, og samneyslu.

Þrátt fyrir þessar tölur virðast Íslendingar núna bregðast við versnandi stöðu með því að halda að sér höndum. Innflutningur dróst saman um 12,4% og er þetta mesti samdráttur hans frá árinu 2009, en jafnframt þriðji ársfjórðungurinn í röð sem hann dregst saman. Þar af dróst vöruinnflutningur saman um 9,9% en „þjónustuinnflutningur“, þ.e. kaup Íslendinga á þjónustu erlendis, um 16,8%. Má meðal annars rekja það til færri utanlandsferða en íslenska eyðsluklóin ferðast greinilega minna.

Ferðamenn bjarga viðskiptajöfnuðinum

Jákvæðustu tíðindin eru þau að 11,1 milljarða viðskiptaafgangur var öðrum ársfjórðungi. Þetta gerist þrátt fyrir að halli hafi verið á vöruskiptajöfnuði uppá 42,7 milljarða króna en það er þjónustujöfnuðurinn sem gerir útslagið en hann nam ríflega 52 milljörðum króna. Ferðaþjónustan er enn að skila sínu.

Erlendar eignir þjóðarbúsins voru 3.878 milljarðar króna samkvæmt bráðabirgðayfirliti Seðlabankans um erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins. Þá voru erlendar skuldir 3.249 milljarðar króna og því hrein staða við útlönd jákvæð um 628 milljarða króna. Hrein staða hefur batnað á tímabilinu um 44 milljarða eða sem nemur 1,5% af vergri landsframleiðslu. Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu þjóðarbúsins um níu milljarða króna á fjórðungnum. Þá jukust erlendar eignir um 56 milljarða króna vegna fjármagnsviðskipta en skuldir hækkuðu um 47 milljarða.