c

Pistlar:

22. september 2019 kl. 15:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skógrækt - hagkvæmasta og besta lausnin

Þýsk stjórnvöld hafa sett fram aðgerðaáætlun til þessa að berjast gegn loftslagsbreytingum sem mun kosta 60 milljarða evra. Vandinn er að fáir hafa beinlínis trú á aðgerðunum en óttast að þær munu skaða samkeppnishæfni þýsks efnahagslífs, leggja óþarfa álögur á þýskan almenning og skattgreiðendur. En aðgerðaráætlunin er sett fram til þess að berjast gegn áhrifum loftslagsbreytinga og fleiri ríki eru í svipuðum ham. Sem stendur hafa kjósendur í Þýskalandi meiri áhyggjur af loftslagsmálum en efnahagsmálum. Það kann þó að breytast fljótt ef atvinnuleysi eykst og dregur úr hagvexti um leið og efasemdir vakna um hve markvissar og skilvirkar aðgerðirnar eru.

Að hluta til er þetta vandinn við loftslagsbreytingar og hvernig á að bregðast við þeim. Þá óháð því hvort þær stafi af mannavöldum eða ekki. Vísindaleg afmörkun á vandanum hefur verið lengi til umfjöllunar og nú þegar aðgerðaráætlanir eru að fæðast sjá menn að úrræðin eru ekki alltaf sannfærandi. Það er heldur ekki traustvekjandi fyrir þá sem trúa á vísindi og röklegar niðurstöður að umræðu um málin er nú stýrt af barnungu fólki sem fyrst og fremst höfðar til tilfinninga.skógur

Skógrækt til bjargar

Í þessu ljósi var sérlega fróðlegt að hlusta á viðtal við Aðalsteinn Sigurgeirsson skógfræðing í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Þar var meðal annars rætt um mikilvægi skógræktar til þess að takast á við loftslagsmál. Þetta umræðuefni hefur komið oft til tals í pistlum hér og þá oft vitnað til Aðalsteins og annarra sérfræðinga um skógræktarmál. Það er víst óhætt að segja að hér hafi undanfarin ár verið hvatt til þess að ráðast í víðtæka skógrækt. Fá lönd hafa betri tækifæri til þess en Ísland.

Það hefur vafist fyrir mörgum að skilja að skógrækt, almenn landgræðsla og bleyting á framræstu landi eru til þess að gera sársaukalitlar að­gerð­ir í loftslagsmálum og um leið ódýrar. Þá er líklegt að þær séu fljótvirkustu leiðirnar til að koma í veg fyrir að Ísland þurfi þurfi að leggja í umtalsverðan kostnað við að standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Íslendingar hafa augljóslega gríðarleg tækifæri til þess að ráðast í skógrækt til þess að binda kolefni og þekkingin er einnig til staðar. Eins og kom fram hjá Aðalsteini er einnig vitað hvaða plöntur duga best og hvernig eigi að standa að málum.

Skógrækt frekar en refsigjöld

Það hefur margoft komið fram hjá ráðamönnum í landbúnaði að skynsamlegra sé fyrir Íslendinga að byrja sem fyrst að veita fjármunum til mótvægisaðgerða eins og skógræktar hér innanlands, fremur en að greiða þá fjármuni síðar í refsiskatta til útlanda. Þeir fjármunir myndu um leið virka til virðisaukningar landsgæða og íslensks landbúnaðar um leið. Það myndi síðan væntanlega nýtast inn í framtíðina til að landið sé betur í stakk búið til að standast frekari skuldbindingar fram til 2030.

Þessar aðgerðir henta líka best þegar miðað við aðgerðir sem snerta neyslu fólks og venjur. Langan tíma tekur að breyta hegðun almennings og pólitískt er mjög erfitt að draga úr neyslu. Á þetta benti Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri í þættinum Reykjavík síð­degis á Bylgjunni fyrir einu og hálfu ári í framhaldi af viðtali við hann í Bændablaðinu þar sem Þröstur gagnrýndi loftslagsumræðuna og aðgerðarleysi í loftslagsmálum. Hægt er að taka undir þá gagnrýni og það hefur verið gert áður á þessum vettvangi.

Skógrækt er augljóslega hluti lausnar á loftslagsvandanum. Vernda þarf þá skóga sem fyrir eru í heiminum og jafnframt rækta nýja. Þetta hvort tveggja er auðvelt að gera, bæði úti í heimi og hér á Íslandi. Íslendingar geti auðveldlega ræktað meiri skóg enda er hér nægt landrými og skógur þekur í dag aðeins 2% lands. Fáar þjóðir hafa sama tækifæri og við. Þjóð­in er rík og hefur vel efni á þessu. Auk kolefnisbindingarinnar skila skógarnir líka hreinum arði í framtíðinni.