c

Pistlar:

2. október 2019 kl. 19:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Samfélagsleg ábyrgð í Grundarfirði

Það er alltaf merkilegt að komast í snertingu við atvinnulífið úti á landi og hvernig það grundvallast á færni og þekkingu sem hefur byggst upp kynslóð fram af kynslóð. Maður fær þetta sterklega á tilfinninguna þegar Grundarfjörður er heimsóttur en eins og glöggir lesendur muna hugsanlega eftir gerði ég atvinnulíf þar að umfjöllunarefni fyrr á árinu í tilefni af opnun einnar nútímalegustu fiskvinnslu landsins. Nú var erindið í Grundarfjörðinn að skoða bátanna sem eiga að afla fiskvinnslunni hráefnis.run

Í gær kom togskipið Runólfur SH í fyrsta sinn til nýrrar heimahafnar í Grundarfirði en skipið bættist í flota fyrirtækisins GRUN hf. fyrir skemmstu. Við hátíðlega athöfn tók fjölmenni á móti skipinu en strax að henni lokinni var hafist handa um að koma veiðarfærum um borð, kosti og öðrum varningi enda báturinn á leið úr höfn. Fiskvinnslan væntir þess að fá fisk til vinnslu strax á mánudaginn. Með kaupunum á Runólfi SH er ætlunin að styrkja hráefnisöflun fyrir nýtt fiskvinnsluhús GRUN. Vinnslan þar hófst snemma á þessu ári og í gegnum hana fara um 500 tonn á mánuði; fiskur sem að stærstum hluta er fluttur ferskur til kaupenda í Evrópu.

Tíu manns verða í áhöfn Runólfs SH og undir skipstjórn Arnars Kristjánssonar verður gert út á þorsk, ýsu, ufsa, karfa og flatfisk. GRUN hf er nú með tvö skip í útgerð, Hring SH og nú Runólf SH og þau eru gjarnan á fiskislóðinni á Breiðafirði, úti af Vestfjörðum og norðan landið. „Það eru okkar heimamið,“ segir Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri GRUN, í samtali við Morgunblaðið sem einn fjölmiðla tekur að sér að segja slíkar fréttir. Ríkisútvarpið mætir í það minnsta ekki á kæjann! En í ræðu sinni vakti Guðmundur Smári athygli á ábyrgð fyrirtækisins sem nú hefur fjárfest fyrir á þriðja milljarð króna í þessu litla þorpi til að tryggja atvinnu. Eru til skýrari merki um samfélagslega ábyrgð en það? Auðvitað verða fiskvinnslufyrirtæki að fá að taka sínar rekstrarlegu ákvarðanir og oft er gert að umræðuefni þegar breytingar verða, fyrirtæki leggja upp laupanna og kvótinn færist til. En stundum má líka segja söguna þegar hún er á hinn veginn.runn

Þrír nýir bátar

En þetta eru ekki einu tímamótin í Grundarfirði. Útgerðir FISK Seafood og Soffaníasar Cecilssonar í Grundarfirði tóku á laugardaginn við tveimur bátum sem leysa eldri skip af hólmi. Nýju bátarnir, Farsæll SH-30 og Sigurborg SH-12, komu inn til Grundarfjarðar laust eftir hádegi á laugardaginn og þá tók líka fjölmenni á móti skipunum og áhöfnum þeirra. Við athöfnina í gær mátti sjá alla bátana í höfninni, stór stund fyrir þetta 900 manna samfélag. Einn nýr bátur á hverja 300 íbúa, sögðu menn léttir í lund. En þetta eru meiri tímamót en menn átta sig á og eflaust í fyrsta sinn sem þrír nýir bátar koma á einu bretti inn í lítið bæjarfélag.

Farsæll SH-30 og Sigurborg SH-12 voru keyptir af Gjögri hf., og verða gerðir út frá Grundarfirð, rétt eins og Runólfur SH og Hringur SH. Þeim er ætlað að sinna veiðum á til dæmis sólkola, skarkola og steinbít.

„Engum dylst að það eru tímar stórstígra breytinga í samfélaginu, sem eru þegar farnar að hafa mikil áhrif. Breytingarnar eru svo víðtækar að talað er um fjórðu iðnbyltinguna,“ sagði Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði, í ávarpi sem hún flutti við móttöku skipanna tveggja og Morgunblaðið rekur í frétt sinni. - Og Björg bætir við: „Þess vegna er það ánægjulegt að ekki síst sjávarútvegurinn er virkur þátttakandi í þeim tækni- og atvinnuháttabreytingum sem nú eiga sér stað. Með því skapar hann sér einmitt stöðu til að vera áfram undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar.“ Eru það ekki orð að sönnu?