c

Pistlar:

23. október 2019 kl. 21:07

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Í hjarta Evrópu

Það virkar tilgangslítið að ræða um aldur heimsborgarinnar Vínar sem kúrir á sléttu í Austurríki og hefur verið skurðpunktur átaka og menningarstrauma í Evrópu svo lengi sem menn muna. Rómverjar höfðu hér virki og Habsborgara-ættin réði ríkjum í 700 ár og þó hún reyndi að halda landinu utan við ófrið hafði Austurríki tilhneigingu til að dragast inn í átök, ýmist í vörn eða sókn. Lengi þurftu Vínarbúar að verjast árásum Ottómanveldisins sem seildist með reglubundnum hætti norður Evrópu og olli usla og skelfingu. Í tvígang hrundu Vínarbúar árásum stórra innrásaherja Tyrkjasoldáns og dugðu þá borgarmúrarnir vel. Þeir dugðu síður þegar Napóleon fór hér um og riðlaði ríkjaskipan Evrópu og hertók Vín. Að lokum lét Franz Jósef fyrsti rífa virkismúrana svo borgin gæti vaxið. Hann áttaði sig á að í nútímahernaði skiptu virkismúrar litlu.karlskirkjan

Allt er þetta mikil saga en í dag er Vín sérlega glæsileg borg með fjörugt mannlíf og einstakt menningarlíf. Það er kannski við hæfi að birta stutta lýsingu upp úr bókinni Veröld sem var eftir Stefan Zweig - hugsanlega hefur varla önnur eins borgarlýsing verið tekin saman:

„Varla var í nokkurri borg Evrópu jafn brennandi áhugi á menningarmálum og í Vín. Einmitt vegna þess að keisaradæmið í Austurríki hafði ekki borið stórpólitísk metnaðarmál fyrir brjósti í margar aldir og ekki heldur átt miklu vopnagengi að fagna, beindist þjóðarstoltið mest að því að taka forystuna í fögrum listum. Keisaradæmi Habsborgaranna, sem eitt sinn var voldugasta ríki í Evrópu, hafði fyrir löngu misst dýrmætustu og mikilvægustu lönd sín, þýsku, ítölsku og niðurlenzku erfðalöndin. Höfuðborgin ein var ósnortin í sínum forna ljóma, aðsetur hirðarinnar og minnismerki þúsund ára frægðar. Rómverja höfðu upphaflega reist þessa borg sem vígi rómverskrar menningar, virkisgarð gegn árásum barbaranna og meira en þúsund árum seinna brotnaði áhlaup Ósmanna á Vesturlönd á múrum þessarar borgar. Hér riðu Niflungar um héruð, hér hafði hið ódauðlega sjöstirni hljómlistarinnar skinið yfir heiminn, Gluck, Haydn og Mozart, Beethoven, Schubert, Brahms og Jóhann Strauss; hér höfðu allir straumar Evrópumenningarinnar mætzt. Við hirðina, innan aðalsins og út á meðal alþýðunnar höfðu ýmis þjóðerni blandast blóði, þýzkt, slavneskt, ítalskt, franskt og niðurlenzkt, og það var höfuðafrek þessarar tónlistarborgar að samræma allar andstæðunnar og móta í deiglu sinni hina nýju austurrísku menningu, Vínarmenninguna. Vegna gestrisni sinnar og nýjungagirni dró borgin að sér starfskrafta ur ýmsum áttum, hlúði að þeim, tamdi þá og fágaði. Það var indælt að una hér við friðsamleg menningarstörf, og ósjálfrátt urðu allir íbúar þessarar borgar að alþjóðasinnum, heimsborgurum.“

Blaðalestur á Café Central

Stefan Zweig er einn frægasti sonur Vínar og þá kannski ekki síst fyrir lýsingar hans á mannlífi borgarinnar í aðdraganda fyrri heimstyrjaldarinnar allt aftur til millistríðsáranna. Bók hans er um margt einstök aldafarslýsing, nokkuð melódramatísk en alltaf forvitnileg. Þegar sest er niður á Café Central hér í Vín til að lesa blöðin er maður minntur á hina einstöku sögu staðarins og borgarinnar en Stefan Zweig var þar einmitt fastagestur. Það er forvitnilegt til þess að hugsa að á Café Central drakk Sigmund Freud kaffið sitt og sömuleiðis fjöldamorðingjarnir Stalín, Hitler og Trotsky. Voru þar fastagestir í útlegðinni og síðar vandi Tító komur sínar á staðinn. Sem betur fer voru ekki bara svona fígúrur eins og þeir þarna, en margir úr fjörugu menningarlífi Vínar vöndu komu sína þangað. Þá munu skákmenn hafa haft staðinn í hávegum um tíma en frægasta saga Zweig var einmitt nóvellan Manntafl sem Íslendingar hafa stytt sér stundir við að tengja við horfna snillinga.

Café Central opnaði 1876 og var í rekstri fram yfir seinni heimsstyrjöld. Eftir það var nokkurt hallæri á staðnum til 1986 þegar hann opnaði eftir gagngerar endurbætur. Staðurinn tónar vel við Vín sem er öll hin glæsilegasta, gríðarmiklar hallir, tignarlegar byggingar og þá er sjálft óperuhúsið einstakt. Arkitektúr borgarinnar er í senn heildstæður og sérlega glæsilegur og þar er reyndar óvenju mikið af fallegum byggingum með íburðarmiklum skreytingum. Það lyftir síðan stemmningunni upp að öllu er þessu vel haldið við, reyndar svo að sómi er að.stefáns

Arfleifð Gustav Klimt

Af öllum þeim stórkostlegu listamönnum sem hér hafa gengu um götur er eftirtektarvert að fá að uppgötva málarann Gustav Klimt sem dó í febrúar 1918, 55 ára að aldri. Frábær listamaður en hann vakti strax athygli sem einstaklega fær teiknari sem ungur maður. Gustav og bróðir hans voru fengnir til að skreyta margar opinberar byggingar í Vín og virðast hafa unnið þar einstök verk. Á einhverju stigi hættu menn að skilja list hans og síðar urðu nasistar til að eyðileggja eitthvað að verkum hans. Gustav Klimt var hins vegar vinsæll portrett-málari og ekki annað hægt en að dáðst að konum í Vín sem sóttust eftir því að láta hann mála verk af sér, sum þessi andlitsverk eru einstök og stíllinn er greinilega að verða fullmótaður upp úr 1895. Hann var einnig frábær landslagsmálari og blóma- og náttúrulífsmyndir hans vel á pari við það sem fremstu fulltrúa raunsæis létu frá sér. Frábær listamaður sem giftist aldrei, sængaði hjá módelum sínum og skildi eftir sig fullt af óskilgetnum börnum!klimt

Frægasta verk Klimt er án efa málverkið af Adele Bloch-Bauer en af því er merk saga sem hefur meðal annars verið kvikmynduð með stórleikkonuna Hellen Mirren í aðalhlutverki. Eftir umtöluð og langvinn réttarhöld var úrskurðað að ríkisstjórn Austurríkis yrði að skila málverkinu til erfingja Bloch-Bauer en því hafði verið stolið af nasistum á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Verkið var selt síðar fyrir ógnarupphæðir en Austurríkismenn syrgðu það mjög. Það er hins vegar talsverður ferðamannaiðnaður í kringum sölu á munum tengdum list Klimt sem skapaði sér glæsilegan og persónulegan stíl. Þannig lifir borgin í dag á sögu sinni og menningu.