c

Pistlar:

18. nóvember 2019 kl. 17:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Efnahagsmálin að falla með Trump?

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, áttar sig á því sem er að gerast þegar hann varar samflokksmenn sína við afleiðingum þess að Demókrataflokkurinn halli sér of langt til vinstri í komandi forkosningum. Benti Obama á að það verði að leita inn á miðjuna í leit að forsetaefni til að eiga möguleika í komandi forsetakosningum. Obama veit að meðalmaðurinn í Bandaríkjunum telur ekki að það þurfi að rífa niður „kerfið“ og fara í pólitíska óvissuferð eins og róttækustu frambjóðendur demókrata segja. Miðjan í bandarískum stjórnmálum, fólkið sem í raun velur forseta, vill frekar sjá hægfara umbætur hér og þar eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins benti réttilega á í dag.

Það vefst fyrir stjórnmálaskýrendum að sjá hvernig hið pólitíska landslag í Bandaríkjunum leggur sig þessa daganna en víða er nú verið að kjósa í fylkjunum, bæði fylkisstjóra og til fylkisþinga. Í sumum tilvikum hafa niðurstöður þess ekki verið sérstaklega hagstætt fyrir Donald Trump (þó ekki eins slæmt og margir fjölmiðlar andsnúnir forsetanum vilja vera láta) sem hefur um leið tekist að vera áberandi í forkosningum demókrata, einkum framan af og það veit ekki á gott fyrir demókrata. Sjálfsagt óttast ráðsettir demókratar að Elízabeth Warren verði valin til að berjast við Trump, en hún er talin vera of langt til vinstri fyrir hinn venjulega kjósanda. Berni Sanders er of gamall, veikur og vinstrisinnaður til að eiga möguleika, þó aldurinn greini hann ekki frá Warren. En hugsanlega er Obama að reyna að rétta fyrrum varaforseta sínum, Joseph R. Biden, hjálparhönd en svo virðist sem allur vindur sé úr honum og kosningabaráttu hans. Alla jafnan hefði Biden verið líklegastur til að ná til miðjufylgisins sem demókratar þurfa svo nauðsynlega.trumoefn

Ekki minna atvinnuleysi í 50 ár

En á sama tíma fær Trump upp í hendurnar tölur sem hann hefur án efa gaman af því að flagga. Einhver almikilvægasti hagvísir Bandaríkjanna er fjölgun nýrra starfa. Nýjustu tölur segja að atvinnuleysi í Bandaríkjunum hafi ekki mælst svo lágt í 50 ár. Það ætti að létta á áhyggjum sem hafa heyrst undanfarið af versnandi efnahag og áhrifum viðskiptastríðsins við Kína sem hefur nú staðið í á annað ár. Fyrir mánuði síðan sömdu bandarísk og kínversk yfirvöld um vopnahlé í tollastríðinu sem hafði vaxið stig af stigi. Óvíst hvernig samkomulagið heldur en bandarískur hlutabréfamarkaður hefur tekið tíðindunum vel.

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mælist nú 3,5% en var 3,7% mánuðinn á undan. 136.000 ný störf urðu til í síðasta mánuði. Um leið voru birtar leiðréttar tölur fyrir ágúst, nýjum störfum hafði þá fjölgað um 168.000 en ekki 130.000 eins og fyrri tölur gáfu til kynna. Áhyggjuefni er þó að störfum í framleiðsluiðnaði fækkaði í september en sú þróun hefur verið um skeið og veldur mönnum ugg.tefna

Bandarísk hlutabréf í hæstu hæðum

Það sem af er ári hafa bandarísk hlutabréf hækkað áberandi meira en annars staðar á Vesturlöndum. Í slíku ástandi byrja greinendur gjarnan að tala um bólumyndun en það árar vel í fyrirtækjaheiminum í Bandaríkjunum og vextir sögulega séð lágir. Bandarísk fyrirtæki hafa hins vegar aldrei verið hlutfallslega jafn dýr miðað við landsframleiðslu. Hvernig nákvæmlega fyrirtækin eiga að uppfylla væntingar fjárfesta er erfitt að segja þar sem hagvaxtahorfur um allan heim eru heldur daprar. Þó að hagvöxtur sé einna skástur í Bandaríkjunum þá mótast afkoma stærstu fyrirtækjanna af hinu alþjóðlega ástandi. Varanleg lausn í deilunni við Kínverja gæti haft jákvæð áhrif en það er fullkomlega óvíst hvernig deilunni vindur fram.

Allt þetta skiptir eðlilega miklu máli fyrir forkosningar og kosningarnar í Bandaríkjunum. Trump hefur lagt mikið undir þegar kemur að bandarísku efnahagslífi, segir gjarnan að aldrei hafi gengið eins vel eins og hans háttur er. Kjósendur eru fljótir að refsa honum ef hann hættir að geta staðið við stóru orðin. Þetta veit Obama og óttast augljóslega að skattastefna Warrens fæli frá þegar og ef hún tekur slaginn við Trump.