c

Pistlar:

2. desember 2019 kl. 18:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að vera hæfur í umræðunni

Það er undarlegt að sjá að hluti umræðu helgarinnar fór í það að ræða hvort dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor væri hæfur til þess að skrifa ritdóm um bók! Hannes skrifaði ítarlega umsögn um bókina Í víglínu íslenskra fjármála eftir Norðmanninn Svein Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóra, í Morgunblaði á laugardaginn og var auðvitað fengur að sýn hans á hlutina. Það að Hannes skrifi um bókina virðist fara öfugt ofan í marga þó þeir hafi í sjálfu sér efnislega lítið fram að færa. Ég sá vitnað til þess um helgina að Helga Kress bókmenntafræðingur hefði einhverju sinni sagt að hún hefði meiri áhuga á bókmenntafræði en á bókmenntunum sjálfum. Það á sjálfsagt við um marga, þeir hafa meiri áhuga á umræðunni en umræðuefninu. Það á til að mynda við um flesta þá sem hafa gert ritdóm Hannesar að umtalsefni. Fáir eða engir hafa gert efnistök hans eða sjálfa gagnrýnina að umræðuefni.Svein Harald Øygard

Pistlahöfundur hefur lesið bókina og þykir hún áhugaverð um margt en óneitanlega hnýtur maður um það sterka embættismannasjónarhorn sem er á bókinni, samanber: „Starfsfólk Seðlabankans vann allan sólarhringinn og sömuleiðis margir embættismenn." (bls. 163.) Þá er stöðugt verið að vitna í heimildarmenn í Seðlabankanum, nafnlaust en stundum er vitnað í „yfirmann markaðsviðskipta“ eins og það fari leynt hver er á ferðinni! Þetta er eiginlega hálf spaugilegt - ólíklegt að Svein Harald hafi pikkaði þetta upp á göngunum á meðan hann var í bankanum því flestra þessara aðila er getið aftast sem viðmælenda. Við fáum hins vegar ekki skýra mynd hver segir hvað. En við fáum hins vegar lýsingu á því að sami yfirmaður markaðsviðskipta bankans nær að redda 300 milljónum dollara í sumarfríi í Toscana! Það var reyndar lántaka sem hann stal af Glitni og rak á eftir greiðslufalli þar en það er önnur saga.

Hæfur eða marktækur

En það var ekki ætlunin að fara djúpt ofan í efni bókarinnar hér, vonandi gefst betra tækifæri til þess síðar. En sú umræða sem hefur farið fram, meðal annars í fjölmiðlum, um hugsanlegt hæfi Hannesar Hólmsteins um að fjalla um hrunið er undarleg. Hvernig getur Hannes verið síður hæfur en Svein Harald Øygard til að fjalla um bankahrunið? Er ekki augljós misskilningur að blanda hæfi eða vanhæfni í þessa umræðu? Menn geta vissulega verið mis marktækir um einstök mál og svo fer það einnig eftir hver les. Ef Svein Harald Øygard er marktækur þegar hann skrifar bók um fjármálahrunið og mánuði sína í Seðlabankanum hlýtur Hannes einnig að vera marktækur þegar hann skrifar ritdóm um þá sömu bók. Að taka þátt í umræðu eða skrifa dóm um bók hefur ekkert með almennt hæfi að gera eins og kveðið er á um í stjórnsýslulögum. Sem dæmi um ruglandann þá virðist til dæmis fréttamaðurinn sem hóf umræðuna vera af ætt fólks sem hefur Hannes á heilanum en það virðist þó ekki trufla hann í verkum sínum.

En við sjáum vaxandi tilhneigingu til þess að loka á umræðu og gagnrýni og hampa ákveðinni kennibundini (dogmatískri) umræðu. Þetta hefur verið áberandi hér á landi undanfari, einkum meðal vinstri manna, hjá einstaka háskólamönnum og ákveðnum starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Þetta benti ég á í pistli hér á síðasta ári þegar stillt var upp umræðu í kjölfar skýrslu Hannesar um bankahrunið þar sem allir nema hann sjálfur fengu að tjá sig um hana. Þessi dogmatismi hefur náð ákveðnu hámarki í umræðunni um Rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið sem hefur verið hafin upp af mörgum og Svein Harald vitnar talsvert til hennar í bók sinni. En þó að menn vitni til Rannsóknarskýrslunnar þá hefur það væntanlega ekki í för með sér að aðrir megi ekki gagnrýna hana, eða hvað?

Rekin af Ríkisútvarpinu fyrir bókaskrif

Um bankahrunið hafa verið skrifaðar bækur sem taka bæði á aðdraganda, orsökum og afleiðingum þess. Sagnfræðin hefur að sjálfsögðu ekki sagt sitt síðasta orð um þetta en ljóst er að margir telja sig hafa ýmislegt til málanna að leggja. Sjálfur hef ég ritað eina bók um það (Icesave samningarnir: Afleikur aldarinnar? Reykjavík: Almenna bókafélagið, 2011) og í eigu minni eru margar bækur sem hafa verið skrifaðar um bankahrunið og hafa fengið margvísleg viðbrögð og umsagnir.

Það er reyndar forvitnilegt að á borði mínu núna er einmitt bókin Frá bankahruni til byltingar en þar skrásetur Þórhallur Jósepsson frásögn Árna M. Mathiesen sem var sjávarútvegsráðherra 1999–2005 og fjármálaráðherra 2005–2009. Þegar bókin kom út var Þórhallur fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu. Vinna hans við bókina fór eitthvað öfugt ofan í Óðinn Jónsson, þáverandi fréttastjóra Ríkisútvarpsins, sem rak Þórhall í framhaldinu. „Á föstudaginn réttir Óðinn Jónsson fréttastjóri mér bréf þar sem hann krefur mig um að segja sjálfur upp störfum. Þær ávirðingar sem hann telur réttlæta það er að ég skrifaði bók um Árna Mathiesen," segir Þórhallur Jósepsson í frétt Vísis en þá hafði hann unnið á fréttastofu Ríkisútvarpsins í um tíu ár.arni-matt-fra-bankahruni-til-byltingar

Slíkur brottrekstur er fátíður og þó hafa margir fréttamenn Ríkisútvarpsins skrifað bækur. Einn þeirra skrifaði til að mynda ævisögu Steingríms J. Sigfússonar, Steingrímur J – Frá hruni og heim, sem tók við af Árna sem fjármálaráðherra. Er ekki annað vitað en að þeim ævisöguritara hafi verið vel tekið í sölum Ríkisútvarpsins. Þá var að koma út bók um starfsemi Samherja í Namibíu og voru þrír starfsmenn Ríkisútvarpsins skrifaðir fyrir henni. Öfugt við Þórhall, sem vann að sinni bók í frítíma sínum, má ætla að hinir önnum köfnu fréttamenn hafi skrifað bókina um Samherja á launum frá Ríkisútvarpinu.

Sjónarmið sem ekki eiga að heyrast

Aftur og aftur erum við þannig minnt á að ákveðnum sjónarmiðum er hafnað á meðan öðrum er hampað. Nú hefur einn helsti umhverfispáfi landsins beinlínis farið fram á að hætt verði að tala við þá sem ræða um umhverfismál öðru vísi en honum þóknast. Pistlaskrifari er einmitt þessa dagana að lesa bók rithöfundarins til að kynnast sjónarmiðum hans í von um að fræðast um þau og málið í heild. Breytir engu þó ég hafi efasemdir um margt sem tengist loftslagsumræðunni eins og ég hef fjallað um, það er auðvitað sjálfsagt að halda áfram að lesa sér til um krefjandi mál í samtímanum. Það er reyndar með ólíkindum að engin skuli rísa upp gegn svona fullyrðingum og augljósri þöggun á umræðu sem þarf einmitt að fá að þroskast og mótast af ólíkum sjónarmiðum. Hlutlægni vísindanna er fólgin í því að þau eru opin og þar sé leyfð frjáls samkeppni hugmynda. Því miður virðist fylgjendum opinnar og heiðarlegrar umræðu fara fækkandi.