c

Pistlar:

17. desember 2019 kl. 15:34

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Loftslagsmálin og skógrækt

Tuttugasta og fimmta aðildarríkjafundi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna lauk eftir hádegi í gær eftir langar og strangar samningaviðræður, hálfum öðrum sólarhring seinna en gert var ráð fyrir. Umhverfisráðherra Íslands fór á ráðstefnuna og talaði að mestu eins og embættismaður, tæpti á samþykktum sem gerðar höfðu verið og rakti sig þannig í gegnum minnispunkta kerfisins.

Næsti aðildarríkjafundur (COP26) verður haldinn í Glasgow dagana 9.-19. nóvember 2020, undir formennsku Breta. Það er reyndar forvitnilegt að fundurinn skuli hafa verið haldin í Skotlandi því Skotar, ásamt Írum, hafa gengi hvað fremst í því að efla skógrækt til að takast á við aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Planið gengur einfaldlega út á að binda koldíoxíð og þannig vinna gegn loftslagsbreytingum á skjótan máta. Leið sem margir telja árangursríka en hún hefur þann kost að bæta landgæði og binda koldíoxíð á til þess að gera skjótvirkan hátt. Þannig gæti skógrækt haft umtalsverð áhrif á meðan verið er að keyra niður koldíoxíðlosandi iðnað og eldsneytisgjafa. Semsagt áhrifaríkur og gagnlegur milliliður.skógur

Fátt fékkst samþykkt í Madríd

Í Madríd tókst hins vegar ekki að að fá samþykktar reglur um bókhald og skýrslugjöf, sem hafa verið taldir mikilvægir þættir í innleiðingu Parísarsamningsins. Ekki tókst heldur að ná samkomulagi um fyrirkomulag og regluverk um kolefnismarkaði, í samræmi við 6. gr. Parísarsamningsins, líkt og vonir stóðu til. Þá náðist ekki samkomulag um langtímafjármögnun loftslagsmála og mun umræða um þau mál því færast til næsta fundar segir í tilkynningu vef umhverfisráðuneytisins.

Vonbrigði segja margir um niðurstöðu Madríd-fundarins og víst er að í honum felast engin tímamót og varla að hann sé leiðarvísir um næstu skref. Augljóslega er enn mikil óeining um hvert skal stefna og hver séu réttu úrræðin. Væntanlega treysta menn þó á að aðildarríki haldi áfram að vinna að jákvæðum breytingum með eigin framkvæmdaáætlanir að vopni.

Tómlæti gagnvart skógrækt

Ég nefndi skógrækt sem alloft hefur komið til tals hér í pistlum. Augljóslega ætla mörg lönd að setja skógrækt og jarðvegsbætingu í fararbrodd framkvæmdaáætlana sinna. Undrast má ákveðið tómlæti Íslendinga gagnvart slíku og hvarflar að manni að margir hér á landi líti svo á að auðnir landsins séu verðmæti sem beri að varðveita. Í skóglitlu landi þarf ekki að óttast að við drekkjum landinu í skóg, svona eins og hendi væri veifað!

Svo talinu sé aftur vikið að nágrönum okkar þá hyggjast Írar planta 400 milljónum trjáa til ársins 2040. Með þessu átaki er að sönnu verið að breyta náttúrufari í landinu en koltvísýringsbindingin er óumdeild. Skógur var nánast horfinn á Írlandi en undanfarinna áratugi hefur aukin áhersla verið á skógrækt og þekur skógur nú 11% af landinu. Meðaltal Evrópusambandslanda er nálægt 40% af landi. Ekki eru allir ánægðir með framkvæmdirnar á Írlandi, segja að erlendar tegundir spilli útsýni og skapi náttúrufarslega einsleitni. Flestu af þessu er hægt að bregðast við kjósi menn það.skogur

Talið er að unnt sé að rækta upp skóga á heimsvísi án sérstakra fyrirhafnar sem samsvarar flatarmáli Bandaríkjanna. Víða um lönd er nú þegar í gangi mikið átak við ræktun skóga. Hér heima erum við að sá að kolefnisjöfnun er að færast yfir í slíkt og í Morgunblaðinu í dag sást að fimm trjáhríslur duga til að kolefnisjafna heimshornaflakk forseta Alþingis. Það kostar hann ekki nema 1000 krónur að kolefnisjafna hvert ferðalag, ekki mikil fórn fyrir mann sem fær 30 þúsund krónur í dagpeninga á dag. En mjór er mikils vísir!